Þar sem spunarnir virðast vera að tröllríða öðrum áhugamálum þá er ekki úr vegi að taka einn stuttan hér á leikjatölvunum. Ekki megum við verða eftirbátar hinna? Einnig er áberandi skortur á greinum svo þessi ýtir kannski undir flæðið hjá hinum lesendunum.
Hefst nú lesturinn
Áhugaspuni #1 - World Cup Soccer [nes 1990]
1. kafli
Loftið á reikmettuðum barnum var þétt af líkamsþef, óþægilegri þögn og súrum ilminum af ódýru viskí. Hingað þorðu ekki einu sinni hórurnar að fara, og rotturnar sem höfðu vott af sjálfsvirðingu voru löngu fluttar út. Sofandi barþjónninn í eigin ælu, fúið og skítugt billjardborðið sem dúaði undan feitum rumnum að “njóta sjálfs síns” upp á trosnuðu filterteppinu, og einmana auminginn í fótboltatreyjunni grátandi í tómt bjórglasið; allt bar þetta vott um fallvalta lukku.
Það er mannsins eðli að leita til himnanna, teygja sig sem hæðst eins og Babýlóníumenn til forna. Upp, upp frá moldinni og möðkunum sem í henni búa! En draumar manna geta breyst í martröð hraðar en nokkurn grunar, sumir menn eiga heima hjá möðkunum.
“Hvernig hafði hann lent hérna? Hvar þaut hann út af sigurveginum og endaði í skurði ömurleikans? Why the fuck?!”
Allar þessar hugsanir runnu í gegnum heila Davy's, heila sem eitt sinn hafði verið heimili eins fremsta fyrirliða heims, en hafði löngu verið drekkt í sterkum vökvum, misvelheppnuðum til ofaníláts.
Hann saug upp í rautt, skorpið nefið. Hve mörg kíló af kókaíni ætli hann hafi sogið þegar best var? Hve gaman var þá?! Þegar sigurlestin þaut eftir teinunum! Lestin sem ekkert fékk stöðvað og hann var lestarstjórinn! Davy Goldenboy! Saltbragðið af horinu vakti hann aftur til lífsins. En hann vildi ekki dvelja hér á þessum stað. Þessi bar gæti allt eins orðið hans kirkjugarður. Árið 2004 var ekki hans tími. Hugi hans greip hann heljartökum og reif hann aftur til ársins 1990. Hve ljúft allt hafði verið…
Lið Bandaríkjanna hafði aldrei verið sterkara. Sjálfstraustið, liðsandinn! Hve ungir og ferskir við vorum! Enginn trúði á það að Bandaríkin gætu eitthvað í fótbolta. “Haldið ykkur við körfuna aularnir ykkar!” sögðu þeir. Kannski var það satt á endanum, en við vorum on a roll! Við héldum að ekkert gæti stöðvað okkur.
Fyrsti leikurinn var á móti geysisterku liði Kamerún. Ég man það eins og það hefði gerst í gær, sólin skein sterkt og við vorum að spila á ísilögðum velli. Við byrjuðum strax gríðarlega vel, skölluðum boltanum á milli eins og ekkert væri sjálfsagðra og strax á 5. mínútu fékk ég boltann sendan frá Terry og þrumaði mér upp til hjólhestaspyrnu frá miðju. Skipti engum togum að ég hitti beint í höfuð fyrirliða Kamerún og steindrap hann! HAH! Það tók mesta móðinn úr þessum kerlingum. One down, seven to go!
Eins og leikurinn hafi ekki verið auðveldur fyrir, þá létti það enn meir róðurinn að Kamerúnmenn héldu áfram að gefa á fyrirliðann, þrátt fyrir það að hann væri augljóslega dauður! Kjánalegu Kamerúnmenn! Ég staðsetti því mann á líki fyrirliðans sem tók við sendingum Kamerún og setti hann síðan upp í hjólhestaspyrnu fyrir mig á miðjuteig.
1-0
2-0
3-0
Og svona hélt þetta áfram. Við vorum þeirra versta martröð, og við nutum þess í botn. Þegar við höfðum komið stöðunni í 9-0 lágu 6 leikmenn Kamerún í valnum, þar á meðal markmaðurinn (sem hafði látist eftir stórfína spyrnu af stuttufæri, serveruð af engum öðrum en yours truly!). Lokatölur urðu 12-0 og 7 dauðir Kamerún menn. Einn lifði enn og gekk heill af velli, en vart lengur til skógar (ha ha).
Þetta kvöld fórum við í fyrsta kókpartýið, enda töldum við einskis undirbúnings þörf gegn Japan daginn eftir.
framhald seinna (ef ég nenni).