Það muna eflaust margir eftir gömlu lokanlegu tölvuspilunum frá japanska leikjarisanum Nintendo, Game & Watch, en það eru þó aðallega þeir sem eldri eru en einnig eru margir unglingar sem byrjuðu snemma að spila tölvuleiki. Árið 1980 voru svokallaðir LCD (kristalsvökvaskjár) leikir mjög vinsælir og voru Game & Watch spilin þar fremst í flokki. Söluhæstu spilin voru Donkey Kong, Mario, Mickey Mouse og Popeye. Það má segja að þetta sé upphaf tölvuleikja frá Nintendo og eins og margir vita áttu þeir eftir að verða mun fleiri. Nintendo voru þó engir nýliðar í spilum því fyrirtækið var stofnað árið 1889 og var þá spilaframleiðandi og leikfangaframleiðandi. Það var þó ekki fyrr en 1982 að fyrsta tölvuspilið sem skartaði tveimur skjáum kom á markað og var það Game & Watch spilið Donkey Kong og voru flest spilin eftir það með þessu fyrirkomulagi. Þessi litlu þægilegu tölvuspil eru í minningu marga fyrstu spil af þessari gerð sem þeir spiluðu og eiga sinn sess í sögunni því þau eru innblástur eins manns til þess að gera góða hugmynd betri.
Það var vorið 1987 sem hlutirnir fóru að gerast í lófaleikjatölvum Nintendo. Þeir höfðu átt mikill velgengni að fagna í heimilisleikjatölvumarkaðnum með Nintendo Entertainment System (NES) og voru með yfirgnæfandi markaðshlutfall. En þá fengu Gunpei Yokoi (maðurinn á bakvið Metroid) og félagar hans í R&D (Research & Development) þá hugmynd að blanda saman þessum tveim vinsælu leikjaformum í eitt. Forseti Nintendo á þeim tíma, Hiroshi Yamauchi, var ekki lengi að samþykkja þessa hugmynd og eftir talsverðar pælingar varðandi hönnun þá var Game Boy sett á markað árið 1989. Yamauchi spáði því að á þremur árum mundi þessi litla leikjatölva seljast í 25 milljónum eintaka en raunin reyndist verða 32 milljónir. Það sem gerði Game Boy svo vinsæla voru ekki aðeins leikir frá hugmyndaríkum Nintendo hönnuðum (leikir á borð við Zelda, Mario og Metroid) heldur fengu þeir hugmynd rússneska tölvuverkfræðingsins Alexey Pajitnov, lánaða og gerðu sinn eigin Tetris leik. Salan á vélinni rauk upp og vinsældir hennar virtust aldrei ætla að ná hámarki því áætlanir Nintendo um hámarkssölu voru sífellt felldar með enn meiri sölu en búist var við. Nintendo hafði tekist að sameina vinsælustu leikjatölvu heimilanna (NES) og vinsælasta tölvuspilið (Game & Watch) og skapa úr því eitthvað sem leikjaunnendur höfðu alltaf beðið eftir.
Á næstu árum fóru hlutirnir að breytast í sögu Game Boy. Árið 1995 hafði Game Boy selst í gríðarlegum fjölda, rúmlega 50 milljón eintök höfðu selst um heim allan, en salan undanfarið var þó farin að dala og vissu Nintendo að eitthvað varð að gera. Einn aðalhönnuða Nintendo, Gunpei Yokoi, (sem hafði nýlega klárað hönnun á hinni mishepnuðu tilraun Nintendo til að skapa leikjatölvu með svokallaðri sýndavarveruleikatækni) fékk þau fyrirmæli að hanna nýja og betri útgáfu af Game Boy. En með ósk frá yfirmönnum sínum um nýja Game Boy vél, fóru Gunpei og félagar því aftur að teikniborðinu og ekki leið að löngu þar til ný Game Boy vél varð til, Game Boy Pocket, en hún var gefin út árið 1996. Sjö ár voru þá liðin frá útgáfu upprunalegu Game Boy. Gunpei tók þá ákvörðun rétt áður en Pocket var gefin út að segja af sér, en tók fram að ástæðan væri ekki harmsaga Virtual Boy, heldur vildi hann starfa sjálfstætt með fyrirtæki sínu Koto. En Pocket var gefin út og var 30% minni en hin gamla upphaflega Game Boy og einnig helmingi léttari, en til mikillar gleði Game Boy aðdáenda þá gat skjárinn sýnt skýrari mynd en áður. Þetta leiddi til þess að nýtt Game Boy æði geisaði um leikjaheiminn og fóru leikjaframleiðendur að búa til leiki fyrir Game Boy í enn meira magni en áður. Með tilkomu Pokémon á árunum 1996 og 1997 jókst heildarsalan upp í 60 milljón eintök. Pokémon er í dag eitt söluhæsta vörumerki Nintendo og eitt það þekktasta í heiminum. Þann 4. október 1997 breiddist þó mikil sorg um leikjaheiminn, en aðalmaðurinn bakvið Game Boy, Gunpei Yokoi lést í bílslysi 56 ára að aldri. Hann lét eftir sig mest seldu leikjatölvu fyrr og síðar.
Í gegnum árin hafa komið margar gerðir aukahluta fyrir Game Boy. Þar má nefna ljós, stækkunargler, rafmagnstengi til að hafa tölvuna í sambandi við kveikjarann í bíl og margskonar tegundir af töskum fyrir tölvurnar. En það voru þó tveir aukahlutir sem gerðu hvað bestu hlutina og þá helst í Japan. Það voru Game Boy Camera (myndavél) ásamt Game Boy Printer, sem gerði notendum kleyft að prenta út myndirnar sínar og svo Super Game Boy. Með myndavélinni, sem fest var ofan á tölvuna og tengdist á sama hátt og leikirnir, gat fólk tekið myndir af sjálfu sér, vinum og kunningjum, breytt þeim með því að stækka eyru, breyta hári, teygt munn og fleira. En hvernig var þá hægt að geyma svona myndir? Það mál leystist með prentaranum en þá var snúra tengd milli þessara tveggja hluta, en þó prentarinn hafði eingöngu fjóra gráa litatóna þá reyndist þetta vinsæl viðbót í Japan. Hvað Super Game Boy varðar þá var þetta í raun viðbót fyrir afkomanda hinnar sívinsælu NES, Super Nintendo (SNES), en þetta stykki gerði Game Boy aðdáendum sem áttu Super Nintendo kleift að spila Game Boy leiki í gegnum hana (SNES) og á sjónvarpsskjá. Þetta var vinsælla í Japan en á vesturlöndunum en eins og margir vita er áhugasvið Japana og vestrænna almúgans mjög svo ólíkt.
Árin liðu og margskonar litir, endurbætur og aukahlutir litu dagsins ljós fyrir Game Boy. Game Boy Pocket hafði selst gríðarlega vel um allan heim en aftur var komið að þeim tímamótum að ný tölva væri væntanleg. Game Boy aðdáendur höfðu séð nýja Game Boy með endurbættri upplausn tveimur árum áður og var hún enn í rjúkandi sölu. En á þekktri sýningu árið 1998 komu Nintendo á óvart með því að kynna nýja útgáfu af Game Boy en hún bar nafnið Game Boy Color. Ekki nóg með að upplausnin var aðeins uppfærð heldur gat tölvan sýnt 32.000 liti en þó aðeins ráðið við 56 á skjánum í einu. Þetta mörkuðu tímamót í sögu Game Boy því þarna var fyrsta lófaleikjatölvan í lit komin á markaðinn en hinar tvær á undan voru eingöngu í gráa og brúngráa litnum. Það sem vakti þó mikla lukku var það að hún gat samt sem áður spilað alla Game Boy leiki frá upphafi og hefur sú hefð haldist alla tíð síðan. Árið 2000 hafði Nintendo selt 100 milljónir eintaka af Game Boy vélum og því orðin söluhæsta leikjavél fyrr og síðar.
Fram að þessu voru leikir í Game Boy eingöngu í tvívídd (2D – Two Dimensional), það er, leikirnir voru yfirleitt séðir frá hlið eða beint ofan á. Nintendo þurfti á nýjum hugmyndum að halda en Gunpei var því miður ekki til staðar, hvorki innan fyrirtækisins né í þessum heimi. Þeir fengu þá nýjar og ferskar hugmyndir frá nýju fólki og var stefnan sett á öflugri Game Boy vél og á Space World 2000 sýndu Nintendo tvær nýjar leikjatölvur en þær báru eingöngu vinnsluheiti, Dolphin og Atlantis, sem svo reyndust vera GameCube og Game Boy Advance. Hönnuðir leikja sáu fram á bjartari framtíð í Game Boy Advance en hún var ekki eingöngu öflugri heldur gat hún framleitt þrívíddargrafík í fyrsta sinn. 22. júní 2001 var Advance svo gefin út í Evrópu og á fyrstu vikunni seldust 500.000 eintök. Advance náði einnig því merka afreki að seljast í einu eintaki á hverjum fimm sekúndum síðan hún kom út í Evrópu. Það var þó talsverður munur á Game Boy Advance og þeim eldri. Áður fyrr voru þær lóðréttar, með skjáinn fyrir ofan takkana, en í þetta sinn var hún lárétt og takkarnir til hliðar við skjáinn en skjárinn var einnig stærri en áður. Advance kynnti einnig nýjung í heimi tölvunnar með R og L tökkunum sem eiga rætur sínar að rekja til Super Nintendo. Það var þó ekki eina nýjungin heldur var í fyrsta sinn hægt að tengja hana saman við aðra leikjatölvu frá Nintendo en með því að tengja hana við GameCube var hægt að spila ákveðna leiki milli tölvanna. Einnig var fjölspilunarmöguleiki fyrir hendi og hægt var að tengja saman fjórar Advance tölvur og gátu vinir loksins spilað saman í sínum Game Boy vélum. Eins og með Game Boy Color, þá spilar þessi alla leiki Game Boy frá upphafi og leikjafjöldinn því orðinn enn stærri. 15. apríl 2002 tilkynntu Nintendo að Advance hafði selst í 1 milljón eintaka á 9 mánuðum og þar með sú tölva sem selst hefur hraðast í Bretlandi frá upphafi.
Nintendo voru þó lúmskir og í júní 2001 hófu þeir hönnun á nýrri gerð af Game Boy Advance, en upphaflega útgáfan var rétt að koma á markað á þeim tíma. Þetta var þó allt gert bakvið tjöldin og eftir síðustu áramót tilkynntu þeir að ný vél væri væntanleg í mars. Game Boy Advance SP var orðin að veruleika og óskir margra um margumbeðnar breytingar uppfylltar. Nintendo grófu aftur upp gömlu hugmyndirnar að Game & Watch tölvuspilunum og úr varð til lokanleg Game Boy vél, í fyrsta sinn. Stærsta breytingin og sú sem allir Game Boy unnendur vildu hvað mest, var baklýsingin en hér áður fyrr var einungis hægt að fjárfesta í ljósi sem festist við tölvuna. Einnig voru AA rafhlöðurnar úr myndinni og í stað þeirra komnar endurhlaðanlegar Lithium Ion rafhlöður sem endast í 18 klukkustundir þegar baklýsing er slökkt en 10 stundir þegar hún er á. Nintendo svöruðu óskum neytenda og þó þeir gerðu það í leynd þá sló þetta í gegn í Japan, Ameríku og í Evrópu. Nintendo breyttu ímynd tölvunnar en þeir hafa fengið til liðs við sig marga þekkta auglýsingahönnuði til þess að setja Advance SP á markað. Hönnun Game Boy hefur þroskast og hefur ímynd hennar batnað til muna með þessu nýja og skemmtilega útliti ásamt því að markaðssetning hennar er á allt öðrum nótum en áður fyrr. Hvað hönnunina varðar þá ákváðu Nintendo að hafa hana lokanlega og með því fæst lítil og nett lófaleikjatölva sem fellur vel í vasa og hlífir þetta einnig skjánum og má nefna að hún vegur eingöngu 140 grömm. Hún byggir þó á sama 32-bita vélbúnaði og eldri Advance vélin, en baklýsing og Lithium rafhlaðan eru þó velkomnar nýjungar. Eins og með eldri Game Boy vélar ganga allir Game Boy leikir í Advance SP og er því um gríðarlegt magn leikja að ræða sem hægt er að fá í þessa vél, eða allt að 1000 titlar!
Game Boy leikjavélinni hefur alla tíð verið ætlað að veita fólki á öllum aldri meðfæranlega skemmtun og gott úrval góðra leikja og hafa Nintendo alltaf haft Game Boy tölvurnar litlar og þægilegar. Með tilkomu Advance SP er þetta því tilvalið fyrir þá sem vilja dunda sér í frístundum eða á leið í vinnu eða skóla með strætisvagni. Nintendo hafa fengið samkeppni frá nokkrum fyrirtækjum í lófaleikjatölvumarkaðnum og var þá samkeppnin mest við Game Gear frá SEGA en Game Boy hafði betur. Nintendo eru frumkvöðlar í heimilis- og lófaleikjatölvum og í gegnum árin hafa þeir gefið frá sér hverja tölvuna á fætur annarri og hugmyndaríka leiki og stefnir ekkert í að þeir séu að draga saman seglin. Það þekkja flest allir leikjaunnendur leiki eins og Mario, Zelda, Metroid, F-Zero og fleiri en allar þessar seríur hafa fengið leiki gefna út á Game Boy, hvort sem er á eldri Game Boy vélar eða nýrri. Nú er svo samkeppnin heldur að aukast og með tilkomu Nokia N-Gage og Sonu PSP og væntanlega nýrrar kynslóðar Game Boy, þá ætti framtíðin að vera skemmtileg fyrir aðdáendur lófaleikjatölva því það stefnir í að lófaleikjatölvan verði meira en eingöngu það. En það mun framtíðin aðeins leiða í ljós og því bjartir tíma framundan…
Þetta er undirskrift