Ef satt skal segja þá blöskraði mér vægast sagt er ég las greinina “Konungur platform leikjanna” eftir notandan slig. Hvílík endemis svívirðing við hinn sanna konung platform leikjanna, Mario Mario (Mario ber eftirnafnið Mario). Mario á sér áratuga sögu og kom fyrst fram á sjónarsviðið árið 1981 í leiknum Donkey Kong. Annað en þessi Ratchet sem hann slig skrifar svo ágætlega um, ég veit ekki betur en að hann sé að taka þátt í fyrsta og eina leik sínum “Ratchet and Clank” árið 2002. Sé þetta rétt hjá mér þá er nú ekki einusinni hægt að kalla hann Ratchet svo mikið sem prins! Prins titilinn fengi auðvitað blái broddgölturinn hann Sonic, en hann á sér líkt og Mario áralanga sögu og kom hann fyrst fram í tölvuleik áratug á eftir Mario, eða árið 1991 í leiknum Sonic the Hedgehog.
Frá því árið 1981 hefur Mario komið fram í yfir 80 leikjum, og gegnt mismiklum og stórum hlutverkum. Í sumum leikjum er hann aðalpersónan, og snýst leikurinn algerlega um Mario og ævintýri hans, og fyrir þá frábæru leiki er hann hvað mest frægastur. En svo aftur á móti hefur honum verið troðið inní hina ýmsu aðra leiki, bara svona uppá gamanið. Til dæmis kemur hann fyrir á mynd á vegg, í tilteknu húsi í The Legend of Zelda: A Link to the Past (eða Zelda 3). Sama gerir hann í Zelda The Ocarina of Time, ásamt fleiri þekktum Nintendo persónum.
Já, eins og áður sagði hefur hann Mario kallinn komið fram í yfir 80 leikjum og hef ég hugsað mér að rekja sögu hans í “stuttum” dráttum í eftirfarandi greinaseríu…
Þetta byrjaði allt með leiknum Donkey Kong sem var gefinn fyrst út árið 1981 á til dæmis Atari 2600 tölvuna, svo 5 árum seinna á NES. Með þessum leik þá byrjaði ferill Mario sem tölvuleikjapersóna. Á þeim tíma þá var Mario ekki einu sinni kominn með almennilegt nafn, heldur var hann einungis kallaður “Jumpman” og var trésmiður. En svo þegar leikurinn kom út í USA og Evrópu þá var hann kominn með nafnið Mario. Leikurinn snýst um það að Mario á að bjarga fallegu kærustunni sinni Pauline frá hræðilega apanum Donkey Kong. Donkey Kong hinsvegar reynir að stöðva Mario með því að henda tunnum í áttina að honum. Þessi leikur var mikil bylting í þá daga og varð hrikalega vinsæll!
Ári seinna, eða 1982 kom svo út leikur að nafni Donkey Kong JR. Kom hann svo einnig á NES árið 1986. Miðað við hversu vel Donkey Kong sló í gegn þá var ekki spurning um að framhald kæmi. Í þetta skiptið er Mario vondi gaurinn og hefur hann rænt Donkey Kong, þá er það í þínum höndum að stjórna Donkey Kong JR. og bjarga föður sínum. Donkey Kong JR. sló ekki alveg jafn mikið í gegn og Donkey Kong leikurinn, og einnig má nefna að þetta er eini leikurinn sem Mario er vondi kallinn.
Ári eftir það, eða 1983 kom svo út leikurinn Mario Bros. Og eins og fyrri leikirnir þá kom hann einnig út á NES árið 1986. Í þessum leik tók Mario svolitlum stakkaskiptum og kom fram í fyrsta skipti sem pípari, og einnig var þetta í fyrsta skipti sem bróðir hans, Luigi kom fram. Ég man að ég spilaði þennan leik einu sinni nokkuð mikið og það er alveg ótrúlegt hversu gaman er að honum miðað við einfaldleika. Borðin eru þannig að í hverju horni eru rör sem óvinir koma útúr og einstaka pallar eru á víð og dreif um borðið. Óvinir eru nánar tiltekið skjaldbökur (Koopa Troopa) og er þetta einnig fyrsti leikurinn sem þær láta sjá sig, en reyndar hétu þær “shell creepers” í þá daga. Ólíkt þeim Mario leikjum sem flestir kannast við, þá er markmiðið ekki að hoppa ofaná óvinina til þess að drepa þá, heldur á maður að hoppa upp í pallinn sem skjaldbakan gengur á og velta henni þannig um koll. Þá geta Mario og Luigi hlaupið á þær og “drepið” þær þannig. Eitt annað sem er í þessum leik líka sem verðugt er að minnast á. Það er hinn frægi “Pow” kubbur, en tilgangur hans felur í sér að Mario eða Luigi hoppa uppí hann og þá drepast allir óvinir sem eru staddir á skjánum. “Power” kubburinn kemur einnig fram seinna í Super Mario Bros. 2 og Super Mario World 2.
Jæja, nú var árið 1984 gengið í garð og komu 2 leikir út það árið sem tengdust Mario eilítið á sinn hvoran hátt. Báðir þeir leikir komu út á NES og heitir sá fyrri Donkey Kong 3, en eina ástæðan fyrir því að ég nefni hann er að Stanley the bugman er aðalhetjan, og það vill svo skemmtilega til að hann er frændi Mario! Annars tengist þessi leikur Mario ekki neitt að öðru leyti, þannig að það er ekkert meira sem ég ætla að segja um hann.
Seinni leikurinn sem tengist Mario á þessu ári heitir Mike Tyson's Punch Out. Þið veltið eflaust fyrir ykkur hvað Mario komi boxleik við… En svo vill til að hann er einmitt dómarinn í leiknum. Já, hann gegnir því stóra hlutverki að segja “Fight!” í byrjun hvers bardaga og fær einnig að telja niður í hvert skipti sem einhver rotast. Ekki slæmt hlutverk það..
Síðan árið 1985 kom út leikur sem allir ættu að kannast við.. Super Mario Bros. heitir það meistarastykki og braut hann blað í sögu tölvuleikja. Þetta var fyrsti leikurinn sem notaðist við nýja tækni, eða svokallað “scrolling-technique” sem getur sýnt fleiri en einn ramma á skjánum í einu.. Ekki eins og í gamla Donkey Kong sem hvert borð gerðist á einum skjá, heldur færðist núna skjárinn með kallinum þegar maður hreyfði sig.. Mikil bylting þarna á ferðinni og hafa ófáir leikir nýtt sér þessa tækni eftir þessi tímamót. Einnig má nefna að þessi leikur einn og sér er ein af aðalástæðunum fyrir því hversu feiknavel NES tölvan seldist, því sá munaður að eiga NES tölvuna var eini möguleikinn fyrir þig til að spila Super Mario Bros!
SMB er mest seldi NES leikur allra tíma og hefur hann selst í hvorki meira né minna en 40 milljón eintökum. Þegar ég segi “hvorki meira né minna,” þá á ég vissulega við hvorki minna né minna… Því án efa hafa selst aðeins fleiri en 40 milljón eintök af þessum eðalleik.
Í þessum leik hefur hin margfræga saga gang sinn. Þetta er sagan sem segir frá Mario bræðrum og hinu endalausa stríði við drekann Bowser. Einnig er þetta í fyrsta skiptið sem prinsessan Peach lætur sjá sig, og það vill svo skemmtilega til að þetta er líka í fyrsta skiptið sem Bowser rænir prinsessunni, en alls ekki það seinasta…
Í þessum leik gerist einnig sá merkilegi hlutur að Mario og Luigi hitta marga af sínum erkióvinum í fyrsta skiptið. Má þar helst nefna kvikindin; Goombas, Lakitus, hinir sönnu Koopa Troopas(ekki Shell Creepers), Bullet Bills og Piranha Plants. Ekki er allt upptalið enn því Mario og Luigi byrja hér með að þróa nýja tækni, til dæmis að hoppa ofaná óvini og skjóta eldboltum. Svo má nefna í lokin að Starman, Super Mushroom, og Fire Flower komu fyrst fram í þessum leik, og voru sko komin til að vera eins og þið allflest vitið.
En úr meistaraverki yfir í smærri titil.. Á NES kom svo leikur sem nefnist Pinball og er það sá ágæti leikur sem Mario treður sér næst í, og ekki bara Mario heldur gamla kærastan Pauline líka. Þess má líka geta að þessi leikur kemur út á sama herrans ári og SMB. Það sem Mario og Pauline koma þessum leik við er að þau koma fram í einu bonus herberginu í leiknum, og á Mario að halda pinball kúlunni á lofti með þeim tilgangi að hún skjótist í litla platta sem loka Pauline inni. Þegar það tekst þá losnar Pauline úr iðjum pinball plattana, og allir lifa hamingjusamir til æviloka!
Seinna á sama ári ákveður Mario að reyna fyrir sér í Golfíþróttinni. Og gerir hann það í leik á NES sem nefnist því frumlega nafni, Golf. Það er ekki hægt að segja annað en að Mario finnist skemmtilegt að spila golf, því hann hefur komið fram í 3 mismunandi golfleikjum í gegnum tíðina.
Næsti leikur heitir einnig einstaklega frumlegu nafni, kom hann líka árið 1985 á NES og heitir einfaldlega Tennis. Nú reynir Mario aftur fyrir sér í dómarastarfinu, og að þessu sinni ekki í boxi heldur í tennis! …Já, það er allt sem þarf að segja um þennan leik.
Árið 1985 var ekki liðið enn og var ákvað Mario að nýta sér það, og ekki bara Mario því Luigi ákvað að koma fram líka. Þá er ég að tala um leikinn Wrecking Crew sem kom aðeins út á NES tölvuna fræknu. Þessi leikur snýst um í stuttu máli að Mario og Luigi, vopnaðir hömrum, eiga að hlaupa útum allt borðið og jafnvel klifra stiga, til þess að eyðileggja allt sem eyðileggjanlegt er. Áður en óvinirnir hlaupandi ná þeim að sjálfsögðu.. Já, mjög ólíkt fyrri leikjum þeirra bræðra en engu að síður áhugavert. Síðan er eitt annað sem er þess virði að nefna, spilarinn getur búið til sín eigin borð og vistað þau á leikinn sjálfan, helvíti magnaður möguleiki á þessum tíma.
Nú voru fyrstu fyrstu 4 árin í sögu Mario leikjanna liðin og verður þessi ferill hingað til að teljast nokkuð góður árangur hjá einum pípara. Og svo auðvitað bróðir hans líka, hann Luigi, sem hefur sett mark sitt á margan Mario leikinn. Þó svo að allir ofantaldir leikir hafi ekki allir verið eingöngu um þá félaga, þá finnst mér samt þess virði að telja þá upp því sama hversu lítið hlutverk um er að ræða þá eru þetta engu að síður verðugir leikir til að komast í “upptalninguna miklu,” því Mario leikur er alltaf Mario leikur… Sama hversu mikill Mario leikur hann er ;)
Á þessum tímapunkti voru vinsældir þeirra bræðra orðnar nokkuð góðar og margir farnir að kannast við kappana, en vinsældirnar áttu eftir að aukast til muna á ókomnum árum! Fylgist með því í komandi greinum…