Lunar: Silver Star Story Complete

Framleiðandi: GameArts
Útgáfu Aðili: Working Designs
Útgáfuár: 1993
Endurútgáfuár: 1999


Jæja, nú er ég nýlega búin að klára hinn stórskemmtilega hlutverkaleik (RPG) Lunar: Silver Star Story Complete. Þetta er endurbætt útgáfa á þessum geisivinsæla leik sem kom út árið 1993 fyrir SegaCD.

Ekki veit ég nú hvort margir hér hafa spilað þennan leik þar sem ég veit ekki hvort hann kom út á SegaCD í Evrópu á sínum tíma, en PlayStation útgáfan kom allavegana ekki út í okkar heimsálfu.

PlayStation útgáfan inniheldur fullt af nýjum anime (kíkið á manga áhugamálið til að fræðast um anime) “cut scenes” sem lífga leikinn allan við. Einnig inniheldur PlayStation útgáfan “making of” disk, tónlistardisk, og rúmlega 100 blaðsíðna bók um leikinn. Mjög flottur pakki, annað get ég ekki sagt! :)

En núna ætla ég að segja ykkur aðeins frá leiknum sjálfum….

Alex og Luna búa ásamt foreldrum Alex í litlu þorpi í hinum fallega heimi, Lunar. Luna var fundin sem barn og alin upp með Alex. Í gegnum árin hefur samband þeirra Alex og Lunu þróast yfir í meira en vináttu, en einsog oft vill verða eiga þau erfitt með að átta sig á því. Luna hefur fagra rödd, og syngur við öll tækifæri á meðan Alex spilar undir á okkarínuna sína.

Ekki skal ég gleyma því að annar æskuvinur hans Alex er “fljúgandi kötturinn” Nall. Hann er reyndar ekki köttur…hann er….ja, spilið leikinn til að komast að því! :)

Alex á sér þann draum að fara á ævintýraflakk einsog hetjan hans, Dyne, gerði á sínum tíma. Ekki líður sá dagur að hann heimsækji minnismerki Dynes og láti sig dreyma. Dyna var það sem kallast “Dragon Master”, eða sá sem hefur farið á fund drekana fjögura. Alex hefur oft látið sig dreyma um að feta í fótspor Dyne hvað það varðar.

Svo kemur nú að því að Alex fær ósk sína uppfyllta um ævintýraflakk, og heldur hann af stað með Lunu. Á ferð sinni kynnast þau mörgum skemmtilegum persónum sem verða þér til hjálpar og skemmtunar í leiknum…þar má nefna Kyle, sem elskar áfengi og kvenfólk, Jessica, sem er stóra ástin hans Kyle, Mia, sem er dóttir yfirmanneskjunar í “Vane's Magic Guild”, og Nash…ungan mann með sérkennilegan smekk fyrir hárgreiðslum. Í gegnum leikinn verða þau að treysta hvert á annað, en það getur verið erfitt því engum er nú aldrei 100% treystandi…því komast þau að.

Mörg leyndarmál eru í leiknum…einsog hvað varð um Dyne, hver er uppruni Lunu, og hvaða illu öfl eru á stjá í Lunar?

Nú vil ég alls ekki segja meira frá leiknum…hann er að vísu frekar stuttur, ég kláraði hann á 30 klukkustundum sem er nú ekki mikið miðað við að þetta er hlutverkaleikur, en samt.

Í leiknum er skemmtileg tónlist og falleg 2d/3d blönduð grafík, eina kvörtun mín er að fólkið sem gaf persónunum raddir er frekar mikið að ofleika hlutverk sín. En Anime atriðin bæta það nú upp! :)

Þessa dagana er ég að vinna í að klára Lunar 2: Eternal Blue, og hver veit nema að ég skrifi smávegis um hann líka.

Vona að þessi grein fái góðar móttökur…hafið það í huga að ég er ekki beint “professional” í greinaskriftum einsog svo margir hérna. ;)