Lesendur leikjatölvuáhugamálsins þykjast ugglaust vera öllu kunnir í heimi áhugamálsins - og eru það eflaust þegar um ræðir hinar venjulegu leikjatölvur sem koma neytendum fyrir sjónir í hinu daglega lífi. En leikjatölvur geta líka verið allt, allt öðruvísi - og jafnvel svo frábrugðnir öðrum leikjatölvum að engum grunaði að hægt væri að tengja fyrirbærið við sjónvarp og kannski skemmta sér yfir því?
Þessi grein er því sú fyrsta í greinarröð tileinkaðri afbrigðilegum leikjatölvum og öðru því tengdu.
Frægasta dæmið í þessu sambandi er líklega “Wha tong - entertainment multisystem”. Hér er á ferð mikilvæg áminning um hvaða hlutar skemmtunar manneskjunnar fara alls ekki saman. Þessi umdeilda leikjatölvu er nefnilega tveir og hálfur meter á lengd og sextíu sentimetra há og er að mestum hluta gegnsær - hún er nefnilega fiskabúr! Tölvan sjálf er svo staðsett við annan endann og er u.þ.b. tvöfalt stærri en X-box.
Fyrir þá sem vita vilja kom tölvan út 1995 og var, merkilegt nokk, aðeins öflugri en Nintendo 64, sem kom á svipuðum tíma í Japan. Leikirnir voru geymdir á furðulegum kasettum sem líkjast einna helst myndbandaspólum (VHS) í útliti og stærð, og þóttu hvorki góðir né skemmtilegir. Eini leikurinn sem eitthvað þótti varið í var gefinn út af hinu alræmda Cryo entertainment, “Mega Mecha Destroyer” þar sem opinberaðist einkennilegt sambland af hrottalegum morðum og pyningum annars vegar og hins vegar fjölskylduvænum þrautum í anda Puyo Puyo. Leikur þessi þótti þó svo grófur og andstyggilegur að hann var bannaður um gjörvallt Japan og þ.a.l. í öllum mögulegum útgáfulöndum (Cryo neitar nú opinberlega að hafa átt einhvern þátt í framleiðslu leiksins en gagnrýnendur sem fengu leikinn til skoðunar hafa löngum bent á rangleika þessarar staðhæfingar). Af þessari ástæðu og öðrum áðurgreindum kom ekki á óvart að hún fór hvorki áfram til Bandaríkjanna né Evrópu.
Framleiðendur leikjatölvunnar hafa þó líklega gert sér grein fyrir hversu fallvalt hugmynd þeirra var, því aðeins voru framleiddar 300 tölvur og eins og gefur að skilja var framleiðslunni ekki haldið áfram eftir að undirtektirnar voru orðnar fyrirtækinu ljósar. Af þessum 300 eintökum fóru um 70 til starfsmanna fyrirtækisins, sem ekki allir þáðu leikjatölvuna vegna stærðar og almenns áhugaleysis, en afgangurinn mun aðallega hafa farið til japanskra forstjóra, sem þekktir eru fyrir glys og glamúr.
En þótt þessi leikjavél hafi ef til vill ekki notið mikilla vinsælda muna margir japanskir áhugamenn um leikjatölvur eftir þessum merka minnisvarða um ótrúlegan metnað Japana.