Upphaflega átti þetta bara að vera smá póstur á korkana, svona aðallega til að útskýra hvers vegna ég fékk mér amerískan GameCube (vissi að ég yrði böggaður endalaust ef ég skrifaði ekki eitthvað um söguna á bakvið þetta) en svo skrifaði ég svo mikið að mér fannst þetta ekki vera beint korka efni (þó eiga stjórnendur eftir að skera úr um það þegar þetta er skrifað!).
Ég fékk þessa vitleysis hugmynd skyndilega að mig vantaði/langaði í leikjatölvu einhvern tíman í byrjun desember þegar ég fór fyrir tilviljun að skoða mig frekar vel um hér á leikjatölvuáhugamálinu og smám saman þróaðist þetta. Að lokum gat ég ekki hugsað um annað en þessa helvítis tölvu og gat varla lært neitt í jólaprófunum!! Einnig eyddi ég þónokkuð miklum tíma sem hefði verið betur varið í lærdóm í að finna leið til að tengja tölvuna við 19" tölvuskjáinn inni í herberginu mínu. Ef ég hefði ekki fundið leið til þess hefði ekkert orðið af þessum tölvukaupum mínum því ég er með stærri skjá en sjónvarpið okkar (you better believe it!) og svo myndi ég ekki nenna að standa í því að vera rekinn úr sjónvarpinu í sífellu svo hægt væri að horfa á fréttirnar og annað rugl.
Ég byrjaði á því að skoða svona ódýr VGA box af ýmsum gerðum en komst fljótt að því að í þessum málum fær maður það sem maður borgar fyrir…..drasl! Fór þá að skoða svona convertera sem taka component signal og breyta því í VGA en þeir kostuðu reyndar töluvert meira en tölvan sjálf! Þannig að þeir voru ekki heldur raunhæfur möguleiki. Eftir margra daga leit klukkustundum saman á hinum ýmsu spjallborðum um allan heim komst ég á snoðir um það að það væri ódýr (umdeilanlegt!) og góð lausn á þessu, fólk hafði verið að kaupa official component kapalinn frá Nintendo og modifia hann. Það sem þurfti til var að kaupa kapalinn, skera af honum endann og tengja vírana í VGA tengi á endanum. Þar sem að component kapall sendir frá sér sömu gögn eða signal og það sem tölvuskjáir nota er þetta 100% compatible, en þó einungis ef leikurinn sjálfur styður svokallað progressive scan.
Þó ég hafi nú sett saman PC tölvu og tekið í sundur geisladrif og sett aftur saman og önnur tæki þá treysti ég mér ekki til þess að lóða saman einhverja víra og drasl. Það var auðveldlega leyst því ég fann fljótt aðila sem seldi “pre-moddaða” kapla fyrir og hef ég fest kaup á einum slíkum. Þannig að þó skjárinn sé eflaust minni en það sem þið flestir eruð að spila á þá bætir hann upp fyrir það með mun superiour myndgæðum. Ekki nóg með það heldur get ég bætt smæðina upp með því að sitja nær því tölvuskjáir eru jú hugsaðir til þess að sitja nálægt þeim og sjónvörp hugsuð til að sitja langt frá þeim. Ég mun þó ekki sitja í skrifborðsstólnum mínum með nefið klesst við skjáinn heldur mun spileríið fara fram í rúminu mínu sem er mjög nálægt borðinu. Get ekki beðið eftir að liggja uppí rúmi, ef til vill kúrandi undir sæng að spila einhvern tölvuleik!
Ég vil taka það fram áður en her af Dreamcast VGA box eigendum grýta mig til dauða að VGA boxið frá Sega virkaði allt öðruvísi en ofannefnd VGA box. Dreamcast er með innbyggt VGA output og boxið gerir ekkert annað en að segja tölvunni að skipta yfir í VGA mode, ásamt því að sjálfsögðu að tengjast í skjáinn. Auk þess var það ‘official’ VGA box sem hvorki X-Box né GameCube hafa (nefni ekki PS2 því að hún hefur ekkert progressive scan support hvorki í hardware né software). Dreamcast er nefnilega helvíti sniðug tölva sem býður uppá þónokkuð marga tæknilega fídusa sem GameCube, PS2 og X-Box bjóða ekki uppá. Ég vil þó taka það fram að ég er enginn Dreamcast fanboy, enda er GameCube mín fyrsta leikjatölva.
Ég var sannfærður um það að ég þyrfti að borga töluvert meira fyrir bandarískan kubb frekar en að skella mér í BT og versla hann þar. Ódýrasta sem ég fann var Sunpackinn á rúmlega 28.000 krónur með sendingarkostnaði og öllum tollútgjöldum. Ákvað fyrir tilviljun að kíkja á eBay og sjá hvort ég fyndi eitthvað þar. Fór í gegnum 14 blaðsíður af seljendum með kubbinn og af rúmlega 650 uppboðum í gangi var bara eitt að selja glænýjan Sunpack. Ég dílaði við konuna um að merkja pakkann sem gjöf og annað þvíumlíkt og til að gera langa sögu stutta fæ ég hana á 18.000 krónur með sendingarkostnaði. :)
Það er þó aukakostnaður, ég þarf að standa straum af straumbreyti til að breyta ameríska straumnum í evrópskan (ca. 5000 kall þar) og fyrirframnefndan component/VGA kapal (ca. 6000). Þetta er þó vel þess virði fyrir mig og þær aðstæður sem ég bý við.
Þessu fylgir sá hængur að ég get einungis keypt leiki frá USA, en það er hvergi nálægt því að vera galli. Leikina fæ ég á sama verði og hér með sendingarkostnaði, tolli og virðisaukaskatti, og í mörgum tilfellum á lægra verði en hér. Vissulega gæti ég notast við að Freeloader diskinn sem margir þekkja til þess að spila PAL leikina hér en því miður eru engir PAL leikir progressive scan þannig að það kemur ekki til greina.
Eins og áður segir er þetta fyrsta leikjatölvan mín en ég er þó ekki algjör grænjaxl í leikjatölvunum því vinur minn var mikill leikjatölvu maður og eyddi ég ófáum stundum í tölvunni með honum þegar ég var yngri. Ég kláraði þó nokkra leiki hjá honum (allir Nintendo leikir) eins og t.d. Zelda: OoT, Mario 64, Goldeneye og Starfox. Að sjálfsögðu hef ég einnig spilað ófáa leikina á NES og SNES þegar ég var ennþá yngri! Þessi grein er að vissu leyti svona eldskírn mín fyrir mér til að vígja mig ‘officially’ inn í leikjatölvuheiminn. Ég vona að þið takið mér opnum örmum stúlkur og drengir ^_^ Vona bara að einhver hafi nennt að lesa sig í gegnum þetta röfl sem kemur svosem engum að gagni nema sjálfum mér.
Gallinn er þó sá að ég er ekki búinn að fá kubbin ennþá og ég er að deyja í biðinn eftir honum. Ég get varla sofnað á kvöldin vegna þess hvað ég hugsa mikið um hann! Þetta er þó skárra en í prófunum þegar ég gat varla lært heldur vegna hans, nú get ég þó huggað mig við tilhugsunina að hann sé á leiðinni. Það ætti líklegast að leggja mig inná hæli eða eitthvað ég er svo obsessed!
Ég held bara í vonina bara að hún komi fyrir jólin….Hún VERÐUR að koma fyrir jólin!!! *sniff*