Jæja gott fólk, stóra stundin rann upp fyrir rúmum 2 sólarhringum síðan.
Þetta byrjaði allt með því að ég varð svo lukkulegur að fá frí úr vinnunni þennan ágæta föstudag. Ég naut þess að fá loks að sofa út en það varði ekki lengi því vinur minn hann Erling hringdi í mig hress og kátur um 11 leytið. Hann vildi endilega fá mig í jóla-verslunarleiðangur og ég þáði það boð með þökkum, enda þónokkrar jólagjafir ókeyptar á mínum bæ (eða með öðrum orðum, allar :)).
Jájá það var allt gott og blesssað, hann hafði víst verið nýbúinn í skólanum og var bara á þá leið að taka strætó heim til mín. Það var svosem í lagi og hann kom hálftíma síðar eða svo. Eins og má síðan búast við að eðalnördum eins og okkur þá að sjálfsögðu var hangið dágóðan slatta í tölvunni áður en haldið var út, eða nánar tiltekið 3 klukkutíma eða svo.
Þegar út kom þá ákváðum við að rölta bara niður á hið víðfræga Lækjartorg og taka strætó nokkurn þaðan, en hvert vissum við ekki enn. Það var prýðilegt veður þennan ágætis föstudag og gekk ferðin niður á Lækjartorg alveg hrakfallalaust. Þegar þangað var komið íhuguðum við góða verslunarstaði í smá tíma, og eftir miklar pælinar og heilabrot varð Kringlan fyrir valinu, af einhverjum óskiljanlegum ástæðum :)
Þá var næsta mál á dagskrá að skoða strætó-töfluna góðu, þar fundum við nokkra strætóa sem voru á leiðinni til Kringlunnar, þar má helst nefna “tólfuna” en hún var einmitt sú heppna í þessu mikla vali.
Eftir um það bil 2ja mínútna bið kom “tólfan” og við vorum ekki lengi að grípa gæsina meðan hún gafst, eða til að gera langa sögu stutta tókum við “tólfuna” í Kringluna :D
Þegar þangað var komið vandaðist valið, “hvert skal haldið ?” spurðum við hvorn annan.. En skiljanlega nenntum við ekkert að spá í svoleiðis rugli og röltum bara beint af augum, eða nánar tiltekið í Skífuna (en hún blasir einmitt svo skemmtilega við manni þegar maður gengur inn). Við eyddum nokkrum dýrmætum mínútum þar inni og ég er ekki frá því að þetta hafi verið verst eyddu mínútur hjá mér í langan tíma :)
Þá skyndilega fékk ég snilldar hugdettu.. Hann Bjöggi, æskuvinur og félagi, hafði víst fengið vinnu í BT fyrir nokkrum dögum og það vildi svo skemmtilega til að sú BT búð er einmitt staðsett í Kringlunni. Ég hringdi í hann léttur í lund og hann svaraði hringingu minni með svona líka skemmtilegu “halló.” Það leiddi af sér dágott samtal sem endaði með því að við Erling röltum til hans í góðum fíling.
Þegar í BT kom eyddum við nokkrum vel völdnum mínútum í að gera grín af greyinu, sem vissi augljóslega ekkert hvað hann var að gera þarna bakvið afgreiðsluborðið *evilgrin* >;)
En nóg af þeirri vitleysu enda var hann ekkert ánægður á svip, sem ég reyndar skil ekkert í.. ætli hann sé eitthvað húmorslaus greyið ? :\
En af því að maður var nú einu sinni staddur í BT þá var vel við hæfi að skoða sig um, sjá hvaða nýju leikir voru að koma og þess háttar skemmtilegheit. Þegar við vorum búnir að skoða okkur um í smá tíma fór ég að hugleiða svolítið.. Ég hafði ætlað að fá mér GameCube í langan tíma en hafði aldrei átt peningana til þess. Núna hins vegar var ég þónokkuð múraður, enda búinn að vinna eins og vitleysingur mánuðinn áður..
Að gefnu tilefni skokkaði ég til Bjögga, sem var ennþá að steypa viðskiptavinina fulla við afgreiðsluborðið, og spurði hann góðfúslega hvort hann ætti nokkuð til eitt stykki GameCube eða tvö.. Jú, viti menn ! Var ekki bara eitt eintak af svartri eðal leikjatölvu GameCube að nafni staðsett í hilllu einni þarna skammt frá. Ég ýjaði aðeins að verðinu eins og verðandi kaupanda vera ber, og hljóðaði það uppá 17.990 krónur staðgreiddar íslenskar krónur, og meira að segja vaskurinn innifalinn ! (virðisaukaskattur). Þetta voru án efa góð kaup, hugsaði ég með sjálfum mér.. en þó var einn hængur á.
Hængurinn svokallaði var sá að án leiks væri nú lítið gagn af leikjatölvu, eða það fannst mér. Þar sem tölvan sjálf var á rúmlega 18þúsund krónur og leikur væntanlega á rúmlega 6þúsund krónur þá væri þetta komið í 24þúsund krónur, eins og hver glöggur maður ætti að geta reiknað út. En þó fannst mér eitt vanta.. Auðvitað ! það vantar minniskort. Minniskort er bráðnauðsynlegt því hver vill þurfa að byrja upp á nýtt í hvert skipti sem slökkva skal á vélinni ? Ekki ég að minnsta kosti, það er á hreinu.. Þannig að sjálfsögðu bætti ég minniskorti á innkaupalistan minn. En þar sem að minniskort er ekki ókeypis heldur andvirði rúmlega 3.300 krónum, þá hækkaði heildarverð listans míns úr 24þúsund upp í 27.300 krónur. Jahérna hér, þetta var farið að nálgast 30þúsund kallinn. Nú leyst mér ekkert á blikuna, þetta var farið úr böndunum hjá mér því ég átti ekki von á svona mikilli spanderingu þennan dag og allra síst í sjálfan mig því upphaflega átti þetta nú að vera jólagjafa-innkaupaferð. Og hver gefur sjálfum sér jólagjöf ? Ekki hef ég að minnsta kosti lagt það í vana minn undanfarin ár, og ætlaði mér ekki að breyta útaf vananum hvað það varðar :)
Nú var kvöldmatartími ekki langt undan og maginn farinn að ítreka þá staðreynd. Þannig við skildum við Bjögga og ég kvaðst hugsa málið betur hvað varðaði kaup á GameCube. Við Erling tókum okkur til og kíktum aðeins inn í Hagkaup “þar sem ferskleikinn býr!” eða hvernig sem það var nú aftur :)
Þar fengum við okkur eitthvað í svanginn og má þá helst nefna Baguette með hvítlaukssmjöri og osti á.. mígur í munni !
Þegar snæðingum var lokið fór ég að huga aftur að GameCube. Ahh.. hvað það væri nú yndislegt að geta farið heim í kvöld og byrjað að spila einhvern magnaðan leik í tölvu sem mig hefur langað til að eignast í marga, marga mánuði !
Þessar pælingar gerðu nánast útaf við mig og ég var staðráðinn í að reyna að redda mér GameCube sem allra fyrst, og þá helst þetta sama kvöld !
Ég stakk uppá því við Erling hvort við ættum ekki bara að skella okkur aðeins í Skeifuna, kíkja í BT verslunina þar, og kannski mæla okkur mót við hann Tóta félaga minn í leiðinni, þar sem hann á nú heima svo stutt frá Skeifunni. Hann tók bara ágætlega í það og það var þá einróma samþykkt. Skeifan yrði næsti áfangastaður í þessari jóla-innkaupaferð okkar, sem fjarlægðist alltaf sinn upprunalega tilgang meira og meira. Við yfirgáfum þá Kringluna, stukkum upp í næsta strætó sem í þessu tilfelli var “hundraðogellefan,” hún skilaði sínu hlutverki bara mjög vel og innan tíðar vorum við staddir í Skeifunni.
Þegar í Skeifun var komið röltum við í áttina að BT, það tók nú ekki langan tíma að fara þá ferð og innan skamms vorum við staddir innan um alla leikjadýrðina og raftækjaflóðið. Ég hringdi snöggvast í hann Tóta en hann var víst að borða kveldsnæðing með fjölskyldu sinni rétt í þessu augnabliki, þannig að hann sá sér ekki fært að mæta. En við grétum hann nú ekki mikið því nóg var nú annað að hugsa um, til dæmis að kíkja á GameCube já. Það var einmitt það sem ég gerði næst, labbaði upp að einum starfsmanninum og rabbaði við hann í nokkrar sekúndur eða svo. Þegar því spjalli var lokið sat hann uppi með það verkefni að finna fyrir mig GameCube vélina og fræða mig um verð hennar, sem og hina ýmsu tilboðspakka ef þeir væru til staðar.
Stuttu seinna komst ég að því að þeir áttu til hjá sér pakka að nafni “Sunpack.” Já gott fólk, látið nafnið ekki blekkja ykkur, því þetta er ekki byrjendapakki fyrir þá sem ætla að skella sér í sólarlampa. Nei, nei og seisei, nei aldeilis ekki ! Innihald pakkans fyrrnefnda mun vera mun áhugaverðar en svo. Eða svo ég sé nú ekki að gera ykkur enn spenntari, þá skal ég bara láta það flakka hér og nú án neins útúrsnúnings: GameCube leikjavél, Stýripinni, Minniskort, og síðast en ekki síst Super Mario Sunshine !
Ég átti varla til orð þegar ég leit þennan pakka augum mínum, gat það verið að allt sem ég hafði ætlað að kaupa mér væri þarna til í einum tilboðspakka ? ..Það leit út fyrir að vera svo !
Ég þurfti ekki að hugsa mig lengi um og skellti mér samstundis á eitt eintak af þessari frábæru leikjatölvu, svo maður tali nú ekki um alla snilldina sem fylgdi.
En þessum viðburðaríka degi var sko ekki lokið enn, nei ekki nú aldeilis.
Í öllum æsingnum var ég nærri búinn að gleyma honum Erling greyinu sem var með hugann sinn allan við einhvern glænýjan, byltingakenndan og allsvakalega magnaðan Barbietölvuleik sem var víst að gera garðinn frægan á leikskólum hvaðan af landinu !
Nei, þetta er reyndar bara bölvuð þvæla í mér því hann var einungis að skoða tilboðsborðið svokallaða, sem er sneisafullt af ódýrum PC leikjum :)
En það var ekki það sem skipti mestu máli í augnablikinu.. það sem átti hug minn allan var sá harmleikur sem mér hafði skyndilega orðið í ljós, ég átti ekkert sjónvarp !
Já, lesendur góðir. Þannig er mál með vöxtum að ég er tiltölulega nýfluttur að heiman, og skildi sjónvarpið mitt eftir í fyrri heimahúsum, eða heima hjá múttu eins og sumir vilja kannski frekar kalla það.
Þessi harmleikur skildi mig eftir stjarfan í sporum mínum. Ég reyndi hvað ég gat að hugsa út einhver ráð en gat það bara ekki hvað sem ég reyndi. Þá varð mér litið út í horn eitt sem innihélt svakalegt magn af sjónvörpum, ég horfði þangað slefandi í nokkrar mínútur en varð svo hugsað til allra þeirra peninga sem ættu eftir að fljúga ef ég myndi framkvæma það sem var efst í huga mér þá stundina. Þegar ég var búinn að þurrka slefið af hökunni rölti ég í rólegheitunum í átt að fyrrnefndum tækjum. Ekki leið á löngu þar til starfsmaður einn kom til mín og bauð aðstoð sína. Ég þáði hana og við spjölluðum um hin og þessi sjónvörpin í dágóðan tíma. En til að gera stuttu sögu styttri þá stóð ég fyrir utan BT 15 mínútum síðar eða svo, með GameCube leikjatölvu og 20” Sjónvarp í fanginu. Ekki alveg kannski fanginu því Erling var svo elskulegur að hjálpa mér við burðarverkið.
Ég mátti svo til með að motna mig svolítið, sem er að sjálfsögðu skiljanlegt, ekki á hverjum degi sem maður kaupir sér GameCube og sjónvarp, hvað þá þegar maður á að vera með fulla poka af jólgjöfum fyrir sína nánustu. Ég hringdi í hann Bjögga og kvaðst hafa fest kaup á þessa margumtöluðu hluti, hann var að sjálfsögðu forvitnin ein um að fá að sjá GameCube að starfi og því bauð ég honum bara að hitta okkur og skella sér síðan heim til mín að vígja gripinn. Eftir skamma stund lét hann sjá sig og við Erling heilsuðum honum kumpánalega. Næsta mál á dagskrá var að finna strætó og koma sér heim, það var ekki lengi gert og innan tíðar vorum við allir staddir í mínum heimahúsum.
Við hjálpuðumst að við að rífa allt saman upp úr pakkningum, skella því í samband, og…..og… NEI !
Vantaði ekki batterí í sjónvarpsfjarstýringuna ! Ansans ári !
Ég stökk út, hljóp í næstu sjoppu, festi kaup á 2 batterí á okurverði, skundaði mér heim aftur og tók mig góðan tíma í að ná andanum aftur og skellti þeim síðan í fjarstýringuna.
Og viti menn, þetta virkaði ! GameCube startaði sér og bað min góðfúslega að stilla tíma og dagsetningu, sem og fleiri stillingar eins og tungumál. Þegar öllu því vesen var lokið skellti ég Mario kallinum í tölvuna og ræsti leikinn. Úff, GameCube logo’ið kom á skjáinn, byrjunarmyndbandið fór af stað, Super Mario Sunshine kom með stórum stöfum á skjáinn og ég ýtti á start eins og var beðinn um. Ég ætla að láta ógert að segja meira frá leiknum því það eiga eflaust margir eftir að upplifa þetta sjálfir og ekki vil ég eyðileggja þá stemningu. Þá er helst frá því að segja að eftir þetta stóð ég ekki upp í nokkra klukkutíma nema bara til að monta mig smáveigis á irkinu og fara á klósettið, vinir mínir fengu að vísu að prófa líka en fyrir utan það lifði ég gersamlega í þessum leik fram eftir nóttu. Já, svo góður er hann ! :)
Þetta var án efa eftirminnilegur kafli í lífi mínu og fannst mér þess virði að slíta mig frá Super Mario Sunshine í nokkrar mínútur til að festa þetta niður á blað. Þegar því var lokið fannst mér heilræði að leyfa ykkur samhugurum og leikjatölvuáhugamönnum að njóta þessarar reynslu með mér, þó ekki nema væri að lesa hana..
En nú er ég farinn aftur í Mario, búinn að eyða alltof miklum tíma í þessi skrif og ég vona að þið kunnið að meta það að ég sleit mig frá þessum frábæra leik bara til að segja ykkur frá þessum indælisdegi í lífi leikjatölvufíkils ! :D