Garún hefur verið með puttana í ýmsu varðandi leiklist, aðallega kvikmyndum. Hún var t.d. aðstoðarleikstjóri Áramótaskaupsins, verður aðstoðarleikstjóri Gauragangs sem verður tekin upp í sumar og er í hinu og þessu.
Eitt af því sem við gerðum var að fara í ratleik um Reykjanesið í karakter.
Það er erfiðara en það hljómar.
Við vorum tvö og tvö saman í liði. Ég og liðsfélagi minn vorum bresku upper-class hjónin Arthur og Elizabeth.
Hann talaði bara ensku en ég talaði góða íslensku en greip þó oft í enskuna.
Fyrir ratleikinn vorum við spurð t.d. hvernig við töluðum og þá sagði ég að hún sletti ensku og notaði hana þegar ég yrði reið.
Ég hefði sjálf haldið að undir álagi og í keppnum ætti maður það frekar til að detta úr karakter og verða eins og ef maður væri sjálfur í aðstæðunum og það kom mér á óvart hversu mikið auðveldara það var að takast á við verkefnin í karakter - frekar en að vera að skipta á milli.
Ratleikurinn tók rúmlega 5 tíma og þrautirnar voru mismunandi.
Á einum stað áttum við að koma á Gunnuhver. Þegar við komum þangað var annað lið komið þangað á undan sem spretti á móti okkur, reif upp hurðarnar hjá okkur og görguðu að hverinn væri að fara að gjósa - við þyrftum að flýta okkur í burtu. Við fengum vísbendingu og þau brunuðu burt.
Ég opnaði vísbendinguna á meðan hann sneri bílnum við.
Þrautin var að sannfæra næsta lið um að hverinn væri að fara að gjósa og þá fengjum við vísbendingu.
Önnur þraut var svo að leika túrista sem hefðu týnt veskjunum sínum og hefðu ekkert fengið að borða. Við áttum að fara á Kaffitár, útskýra aðstæður okkar, betla mat og bjóðast til að borga með því að fara með ljóð á íslensku.
Eftir þessar 5 klukkustundir enduðum við öll í bænum Hafnir þar sem lokaþrautin fór fram.
Eftir að stig voru talin fengu liðin mismunandi langan tíma til að leysa:
1. Perla
2. Grilla pylsu og borða
3. Finna málmhlut í fjörunni
4. Reysa 20 cm vörðu í fjörunni
5. Fara 5 m á stultum
6. Og fara í sjóinn upp að öxlum.
Þetta er líklega það skemmtilegasta sem ég hef gert og kenndi mér margt um að skoða karakterinn sinn - þó að maður fari kannski ekki alveg svona dramatíska leið til að komast að þessu.
Sem dæmi var ég búin að ákveða að ég ætlaði að tala íslensku - líka við manninn minn. En í endann var ég farin að tala bara ensku og eftir á áttaði ég mig á geðshræringunni sem hún var í og þá er auðveldara fyrir hana að tala enskuna.
Garún sagðist líka hafa tekið eftir því að í byrjun var ég mjög róleg og kurteis karakter en í síðustu þrautinni var ég farin að skipa kallinum fyrir eins og óð “ARTHUR PUT YOUR SHOES ON PROPERLY NOOOOOW”
Sjálf færi ég ekki að garga á strák sem ég kynntist daginn áður ;)
Annað dæmi… þarna var strákur þarna sem vinur hans sagði að gæti og myndi aldrei bregðast við eins og karakterinn.
Karakterinn var dólgslegur, kaldhæðinn, nýríkur strákur sem varð alveg brjálaður við liðsfélaga sinn og bitur undir álagi. Í raun er strákurinn mjög ljúfur og fínn.
Eins og hún sagði okkur þá er svo auðvelt að fara léttu leiðina og bregðast svona og hinsegin undir álagi í leikriti eða myndum eins og maður heldur að sé rétt en þessi langsótta æfing kenndi mér margt.
Ekki bara var auðveldara að vera í karakter en að detta úr karakter heldur var auðveldara að bregðast við sem hann frekar en að fara í það sem maður myndi sjálfur gera þó að álagið og keppnin væri mikil.
Það tók alveg hrikalega á að vera einhver annar en maður sjálfur í svona langan tíma, keyrandi um þar sem þú þekkir ekkert og gera hluti sem þú myndir annars gera öðruvísi.
Þó að ég mæli nú ekki með því að þið farið svona dramatíska leið í karaktersköpun þá er þetta gott umhugsunarefni.
-Tinna