Þessi grein inniheldur söguþráð leikritsins

—–

39 þrep, eða The 39 Steps, er nýlegur gamanleikur eftir Patrick Barlow, sem byggður er á hinni þekktu kvikmynd Alfred Hitchcock, eftir samnefndri skáldsögu John Buchan.

Það er nú sett upp í Samkomuhúsi Leikfélags Akureyrar, leikstýrt af Maríu Sigurðardóttur og leikarar eru Björn Ingi Hilmarsson, Þrúður Viljhjálmsdóttir, Jóhann G. Jóhannson og Atli Þór Albertsson

Sýningin er innifalin í áskriftarkorti LA og þess vegna átti ég miða þann 15. janúar

139 hlutverk eru í leikritinu, Björn Ingi leikur eitt, Þrúður leikur þrjú og Atli og Jóhann skipta á milli sín 135 hlutverkum en þau innihalda m.a. fen, gljúfur og læk ásamt stærri ‘mannlegum’ hlutverkum.

Persónulega finnst mér söguþráðurinn nokkuð þunnur.
Richard Henney situr í byrjun og byrjar að segja frá þessu ævintýri sínu. Hann hafi farið í leikhús einn daginn og kona að nafni Annabel Schmidt þröngvaði sér upp á hann og fór með honum heim þar sem hún var svo myrt - eftir að hafa sagt Richard að hluta til frá hræðilegu leyndarmáli sem átti að smygla úr landi og gæti ógnað þjóðinni.

Richard flýr eftir að morðið er framið til að komast í botn þessu máli. Hann tekur lest til Skotlands þar sem hann fer og finnur Prófessor Jordan - haldandi að það sé einn af góðu köllunum en er næstum drepinn.

Allt endar þó vel þar sem Richard fær stelpuna (sem flækist á mjög furðulegan hátt inn í söguþráðinn), prófessorinn deyr og leyndarmálið kemst ekki úr landi.

Leikritið er mjög sniðugt og Jóhann og Atli eru frábærir í sínum 135 hlutverkum.
Meðal annars eru þeir í hlutverkum í byrjun leikritsins þegar Anabel Schimdt segir Richard að hún sé elt og bendir honum á að kíkja út um gluggann og sjá tvo grunsamlega menn sem standa við ljósastaur.
Þegar Richard gengur að glugganum og lítur út koma Atli og Jóhann inn á sviðið í síðum ljós brúnum frökkum, með sólgleraugu og hatt - og ljósastaur. Þegar Richard gengur frá glugganum fara þeir út af.

Þegar Richard er í lestinni á leiðinni til Skotlands situr hann í klefa með tveimur furðulegum náungum sem ferðast um með lestum og selja kvenmannsnærföt.
Lestin stoppar í bæ og annar mannanna segist ætla á klósettið. Hann fer út af sviðinu og kemur augnabliki seinna inn sem blaðasölumaður sem labbar fram hjá glugganum á klefanum þeirra kallandi “Fréttablaðið! Fréttablaðið!”. Hann fer svo út af og maðurinn kemur aftur inn í klefann.

Þá afsakar hinn sig og fer í gervi manns sem vinnur á lestarstöðinni sem kallar að lestin sé að fara af stað.

Hann vippar sér svo aftur inn og blaðamaðurinn mætir aftur. Þetta gerist svo hraðar og hraðar og er mjög skemmtilegt og fyndið að sjá.

Annað sem mér fannst skemmtilegt var þegar leikararnir sýna að þetta sé leikrit, eins og í atriðinu sem er lýst hér fyrir ofan þegar Richard fær nóg og gargar á þá að halda áfram með leikritið.

Einnig í öðru atriði fýkur ‘óvart’ hárkolla af Atla og allir springa úr hlátri. Í smástund leið flestum áhorfendum sem ég heyrði frá eins og þetta hafi ekki verið planað en ein vinkona mín sem var að sjá leikritið í annað skipti segir að þetta sé hluti af leikritinu.

Leikararnir brillera í þessu leikriti - en eins og ég sagði áðan er söguþráðurinn ansi þunnur.
Leikmyndin er einföld og leikarar ásamt hjálparmönnum baksviðs setja sviðsmyndina upp og sviðið og leikmunir eru vel nýttir.

Jóhann og Atli fá lof frá mér fyrir að takast á við öll þessi hlutverk, þeir eru báðir algjörir snillingar i þessu leikriti og Jóhann kemur mér skemmtilega á óvart - þar sem ég hef eiginlega bara séð hann í Stundinni okkar.

Björn Ingi og Þrúður standa sig líka vel.

Ég gef þessu leikriti 2 1/2 stjörnu.
-Tinna