Sumarskóli GSA Ákvað að henda hérna inn smá pistli um ferð mína í sumarskóla GSA, Guilford School of Acting. Datt í hug að hérna væru einhverjir sem hefðu áhuga á að vita hvernig svoleiðis fer fram :P Ef þið hafið einhverjar spurningar um sumarnámskeiðin eða praktísk atriði tengd Guildford sem háskóla og prufurnar þangað inn þá endilega spurjiði, það var farið í gegnum allt þetta með okkur.

Þetta var stórkostleg reynsla. Frábær skóli, enda einn af topp 5 leiklistarskólum í Bretlandi. Það er varla hægt að fara í leikhús í London og lesa leikskrá sýningarinnar án þess að finna allavega einn útskrifaðan úr GSA.

Á sumarnámskeiðunum er öllum tekið opnum örmum og engar prufur eru fyrir sumarskólann, sama hversu mismunandi ástæður fólk hefur fyrir því að vera þarna. Við vorum á aldrinum 17 til 40 og eitthvað í Musical Theatre hópnunum öllum. Í mínum hópi voru samt 17 til 30 ára.

Námið var frábært og kennararnir yndislegir og mjög hvetjandi og létu öllum líða eins og það væri bara fullkomið að vera á þeim stað þar sem þeir sjálfir væru staddir með sína leiklist, sinn söng eða dans. Ég er t.d. ekki mjög sterkur dansari og hef alltaf verið töluvert óörugg þegar kemur að dansprufum o.þ.h. en ég kom heim með svo miklu meira sjálföryggi tengt dansinum. Kennararnir hvetja okkur til að keppa aðeins við okkur sjálf, ekki við neinn annan. Þetta er virkilega heilbrigð og ánægjuleg kennsla.

En þrátt fyrir það hversu gaman, gefandi og lærdómsríkt þetta var, var þetta auðvitað hörkupúl og þó maður sé að keppa við sjálfan sig þarf maður að ýta sjálfum sér fram á brúnina, bæði líkamlega og tilfinningalega. Það voru ófáir í mínum hópi sem brotnuðu saman grétu þegar við reyndum að fara lengra og lengra með tilfinningar í töluðum texta og í lögunum og allar urðum við illilega pirraðar á tímapunkti yfir að geta ekki eitthvað alveg strax…en þannig er þetta bara…og þá er bara að láta það eiga sig í smá stund og prófa aftur daginn eftir :)

Ég s.s. fór á Musical Theatre og Intensive Dance for Beginners. Það voru líka í boði Intensive Acting, Intensive Singin, Audition Technigues og Acting for Film, kannski er ég að gleyma einhverju…held ekki.

Ég velktist ansi lengi í vafa hvort ég ætti að fara á Audition Technigues eða Intensive Dance. Ég hafði s.s. ákveðið að fara í þrjár vikur og það var enginn spurning að ég ætlaði á Musical Theatre námskeiðið sem var tvær vikur. Enda er það mitt sérsvið :P En ég hugsaði sem svo að ég er sennilega sterkari þegar kemur að prufutækni heldur en dansi fyrir utan nú sem Musical Theatre námskeiðið innihélt líka smá prufutækni. Ég sé ekki eftir þessari ákvörðun þar sem eins og áður sagði byggði ég upp mikið sjálfstraust þegar kemur að dansi.

Musical Theatre námið skiptist í marga skemmtilega tíma og svo settum við upp litla sýningu, en þetta eru tímarnir sem ég fór í þar: Group Singing, Choral Singing, Repertoire Class (einskonar söngleikjasaga), Song Presentation (þar sungum við fyrir hópinn), Singing Tutorials (einkatímar), Dance/Movement, Voice and Accent, Video Presentation and Training (þeir tímar kenna manni á GSA og hvernig prufurnar þar virka), svo eru þetta allt (sem kemur hér á eftir) leiklistartengdir tímar: Play Text, Audition Skills, Speech Presentation, Acing Song Lyrics, T.V.Commercials, Sharing Your Monologue, Interview Technigue and Choice of Material, Sight Reading, Introduction to Classic Text, Accent, Who Do You Think You Are?, The Five Minute Play (spuni), Improvisation.

Intensive Dance var svo fjórskipt og skiptist í: Jazz, Ballet, Musical Theatre Styles og Tap (stepp).

Dagarnir skiptust svo svona en þeir eru auðvitað styttri en gengur og gerist í fullu námi við skólann:

10:00 - 11:20 Tími
11:20 - 11:40 Pása
11:40 - 13:00 Tími
13:00 - 13:45 Hádegismatur
13:45 - 15:15 Tími
15:15 - 15:30 Pása
15:30 - 17:00 Tími

Einn núverandi nemi úr GSA var í hverjum hópi og svaraði hreinskilnislega öllum þeim spurningum sem við höfðum um skólann og prufur fyrir skólann. Frábært að hafa þau (minn GSA nemi heitir Rebecca, Becky, og er jafngömul mér, 19 ára og búin með eitt ár í GSA). Við urðum miklar vinkonur og var frábært að hafa hana, enda nemendasýnin á skólann oftar en ekki allt öðruvísi en sýn kennaranna og oftast sú sýn sem við, sem umsækjendur, höfum mestan áhuga á. Hún kom ekki fram sem aðstoðarkennari og actaði ekkert eins og hún væri yfir okkur hafin heldur smellpassaði hún inn í hópinn og tók þátt í öllu. Maður er alltaf að læra sagði hún, blessunin…

Þetta voru þrjár stórkostlegar vikur. Ég bjóst alveg við því þegar ég hélt utan að ég myndi kynnast nokkrum skemmilegum krökkum og hafa gaman í þrjár vikur og vonandi læra alveg fullt en ég átti aldrei von á að eignast vini sem eru svona “friends for life” - vinir og læra svona margt um sjálfa mig og leiklistina.

Ég er enn ákveðnari (ef það var hægt) en áður um að leiklistin sé það sem ég vil gera. Þetta er fullkomin leið, ef maður er ekki 100% viss til að fullvissast því þetta er svona nasasjón af því hvernig lífið í leiklistarskóla er.

Lauren McConnell, mjög góð vinkona mín frá þessum vikum hafði farið á sumarnámskeið bæði hjá ArtsEd og Mounview (tveir virtir söngleikja- og leiklistarskólar) og þótti mest koma til sumarskóla GSA, þar sagði hún eðlilegustu áherslurnar og mestu einstaklingsaðstoðina vera. Í hinum tveimur varstu eiginlega bara í vondum málum ef þú var ekkert frábær í einhverju einu að hennar sögn. Hún t.d. er veikust í dansinum, eins og ég, og var alltaf hálfskelkuð í danstímum í t.d. ArtsEd, þar sem kennarinn einbeitti sér að þeim sem gátu leyst allar æfingarnar vel og gleymdi, vísvitandi, hinum sem þurftu kannski meira á henni að halda á meðan kennarinn okkar í GSA gerði æfingar sem hentuðu öllum. Við byrjuðum alltaf á því stigi þar sem allir gátu leyst ákveðna æfingu og ef hún sá að einhverjir voru kannski örlítið lengra komnir þá gerði hún örlítið flóknari útfærslu af sömu æfingu fyrir þau. Það var aldrei vitund óþægilegt þó hún stoppaði tímann til að leiðrétta einhvern einn. Svoleiðis eiga kennarar að vera. Fyrir utan að enginn var neyddur til að gera eitthvað sem hann eða hún vildi alls ekki gera en við vorum öll hvött til að prófa allt, sem við og gerðum þar sem andrúmsloftið var ekkert óþægilegt og manni leið eins og maður gæti gert allt og sigrað heiminn!

Held þetta séu fín orð til að enda á…mér leið eins og ég gæti gert allt og sigrað heiminn á meðan á sumarnáminu stóð :) Ef það er ekki jákvætt, hvað er það þá?

Ég vona að einhverjum finnist þetta áhugaverð lesning þó hún sé löng en ég mæli eindregið með því að þeir sem hafa áhuga og tök á skelli sér í þennan sumarskóla. Ef ég kemst ekki inn í leiklistarskóla á næsta ári ætla ég að fara aftur í þennan sumarskóla. Þetta var svo stórkostlegt.

Hérna er svo heimasíða skólans: http://www.conservatoire.org

Með von um fullt af svörum og spurningum :P
Hreindís Ylva Garðarsd. Holm