Sá ljóti eftir Marius von Mayenburg
Smíðaverkstæði Þjóðleikhússins
Leikstjóri: Kristín Eysteinsdóttir
Leikarar: Jörundur Ragnarsson, Dóra Jóhannsdóttir, Stefán Hallur Stefánsson og Vignir Rafn Valþórsson
Þýðing: Bjarni Jónsson
Leikmynd: Stígur Steinþórsson
Búningar: Stígur Steinþórsson
Tónlist: Hallur Ingólfsson
Ég fór á sýninguna Sá ljóti á Smíðaverkstæði Þjóðleikhússins núna fyrir stuttu og yndislegri kvöldstund hef ég nú bara sjaldan átt.
Sýningin er frábær. Þegar gengið er í salinn gæti maður alveg eins verið að ganga inn á æfingu á verki sem er stutt komið í æfingu og í raun er allan tímann eins og maður sé á æfingarennsli. Í byrjun eru leikararnir fjórir á sviðinu, ganga um og hver er að hugsa sitt. Þegar hurðinni er lokað ná þau augnsambandi við hvert annað og setjast svo á fjóra kolla á sviðinu.
Verkið segir frá manni, Lárusi, sem er einstaklega, fullkomlega og algerlega herfilega ljótur. Vandamálið er bara að enginn hefur sagt honum það! Hann kemst fyrst að því þegar honum er neitað um að fá að kynna eigin uppfinningu á ráðstefnu og aðstoðarmaður hans, myndarnáungi, á að gera það í hans stað. Hann innir konuna sína svara um hvort að henni finnist það sama og hún segir að það hafi truflað hana fyrst en hún hafi lært að líta framhjá því. Hann ákveður að fara í lýtaaðgerð og láta breyta sér algerlega. Við þá breytingu nýtur hann hylli og virðingar hvar sem hann kemur og verður fljótt eftirlæti allra. Fljótlega vilja fleiri eignast hlut í þessari velgengni og láta lýtalækni krukka í sér svo þeir séu ásýndar alveg nákvæmlega eins og Lárus. Eins og gefur að skilja skapar það vandamál, það er ekki auðvelt þegar allir líta nákvæmlega eins út. Þetta verður Lárusi á endanum um megn.
Það er Jörundur Ragnarsson, hinn frábæri ungi leikari, sem ferð með hlutverk Lárusar og fer hann hreinlega á kostum. Það er ótrúlega ánægjulegt að sjá ungan leikara vinna sem verður bara betri og betri í hvert skipti sem hann kemur fyrir augu manns. Hann er afl sem reikna á með í framtíðinni. Kærasta Jörundar, Dóra Jóhannsdóttir, leikur kærustu Lárusar (par að leika par - krúttlegt) og fleiri karaktera. Hún fer vel með sitt. Ekki alveg sama hæfileikaflugeldasýning og kærastinn en engu að síður skínandi leikkona. Ég hef heyrt marga gagnrýnina á raddbeitingu hennar bæði í tali og öðru og fyrst eftir að ég fór að spá í hana þá tók ég óþægilega mikið eftir þessu en þetta er alveg hætt að trufla mig. Nú finnst mér röddin í raun heillandi öðruvísi en hinn klassískt ómþýða rödd sem einkennir flestar leikkonur. Stefán Hallur Stefánsson leikur lýtalækninn og yfirmann Lárusar og fer virkilega vel með sitt. Kannski vanþakklátasta hlutverkið, ég veit það ekki. Sennilega, en hann var skemmtilega kaldur og tilfinninga- og svipbrigðalaus. Vignir Rafn Valþórsson leikur aðstoðarmann Lárusar og fleiri og er hann ótrúlega lítill og brjóstumkennanlegur í hlutverki sínu (sem er gott).
Leikmyndin er engin - bókstaflega. Það eina sem er á sviðinu eru fjórir hvítir kassar sem leikarar sitja á þegar þeirra persóna er ekki í atriði. Sem er virkilega skemmtilegt. Þar útskýrist það sem ég sagði áðan með að þetta sé eins og sitja á æfingu á verki. Á meðan persónan á ekki í samræðum við aðra persónu situr leikarinn og fylgist með. Og það er augljóslega ekki persónan - heldur sér maður DÓRU sitja og bíða eftir næsta atriði sem hún á að vera í. Fallegt! Virkilega skemmtilegt stökk frá norminu.
Annað skemmtilegt spor frá norminu er að leikararnir þrír sem leika fleiri en einn karakter eru í sömu fötunum allan tímann. Og fötum sem líkjast meira þeirra eigin fötum heldur en einhverjum búningum. Í raun gæti ég vel trúað að þau hafi bara komið með eitthvað af sínum eigin fötum. Sem dæmi má nefna að Dóra leikur bæði unga og gamla konu og eru báðar í sömu fötunum, með sama smink og hún fer aldrei af sviðinu á milli atriða.
Leikarar nota hendurnar sama og ekkert. Þau standa mikið hreyfingarlaus og hreyfast lítið sem ekkert. Þau sýna ekki mikil svipbrigði. Þetta er skemmtilega ýkt “bresk” leiklist. Bara leikið frá hálsi og uppúr. Það byggist öll persónusköpun á röddinni og andlitinu. Ég var aldrei í vafa hvaða persónu leikarinn var að túlka á hverjum tímapunkti fyrir sig. Hreint frábær leiklist og eitthvað sem maður sér eiginlega aldrei á Íslandi.
Það er þó ein undantekning frá þessari fallegu ofur-minimalísku leiklist og það er einræða Jörundar í seinni hluta verksins þar sem físíkin er keyrð í botn og verður einræðan áhrifameiri fyrir það að fyrir hann var allt mjög minimalískt.
Hljóðeffektar sem þau framkvæma sjálf á sviðinu eru svo of góðir til að hægt sé að uppljóstra þeim hér - þið verðið að sjá þá sjálf!
Ég allavega gef sýningunni hiklaust fullt hús stiga. Hún er FRÁBÆR! Skemmtilega öðruvísi og pottþétt “must-see” fyrir allt leikhúsáhugafólk. Þarna standa leikhússtjörnu framtíðarinnar á sviðinu…þetta er fólkið sem er taka við! Og það er svo sannarlega bjart framundan…