Stóra svið, Þjóðleikhúsið
Leikstjóri Þórhildur Þorleifsdóttir
Tónskáld Giedrius Puskunigis
Höfundur Biljana Srbljanovic
Þýðing Davíð Þ Jónsson
Leikmynd Vytautas Narbutas
Búningar Filippía I Elísdóttir
Lýsing Lárus Björnsson
Leikarar Anna Kristín Arngrímsdóttir, Arnar Jónsson, Eggert Þorleifsson, Friðrik Friðriksson, Guðrún Snæfríður Gísladóttir, Gunnar Eyjólfsson, Hjalti Rögnvaldsson, Pálmi Gestsson, Sólveig Arnarsdóttir, Þóra Karítas Árnadóttir, Þórunn Lárusdóttir
Dansar og sviðshreyfingar Ástrós Gunnarsdóttir
Fyrsta reynslan mín af Engisprettur var öll góða gagnrýnin sem sýningin fékk. Fimm stjörnur bæði hjá Fréttablaðinu og Morgunblaðinu. Þar sem að ég er rosalegur snobbhani þá ákvað ég að þetta væri leikrit sem að ég yrði að sjá og get ég sagt með vissu að ég varð ekki fyrir vonbrigðum þegar ég fór á það síðasta föstudag.
Þegar tjaldið var dregið frá var gullfalleg leikmyndin það fyrsta sem fangaði augun. Hún var byggð upp þannig að á hringsviðinu var nokkurs konar hringekja sem hafði átta hliðar. Hver hlið var eitt svið. Þannig að ein hliðin var t.d. hlaðin bókum og átti að sýna rykuga skrifstofu meðan við hliðin á var glæsilegt eldhús. Þegar tjaldið var dregið frá snerist “hringekjan” og framhjá okkur fór borðstofa, útidyrahurð, legsteinn, bekkur og margt fleiraþangað til hún stoppaði loks við eitthvað sem líktist veitingarhúsi og þar hófst fyrsta senan.
Þar fór fram samtal milli Sólveigu, sem leikur aðalpersónuna, og Eggerts. Ég hef aðeins séð Sólveigu leika tvisvar áður, í kvikmyndinni Regínu og leikritinu Edith Piaf. Í bæði skiptin fannst mér hún ekki sýna neina sérstaka leikhæfileika en í bæði skiptin leikur hún líka frekar pirrandi persónur þannig að það gæti hafa ruglað mig. Í Engisprettum hinsvegar blómstrar hún. Mér fannst reyndar örla fyrir örlitlum stirðleika í byrjun hjá henni en síðan lék hún vel. Persónan er, eins og hinar persónurnar í leikritinu, alveg yndisleg og fer manni snemma að þykja vænt um hana. Eggert stóð sig líka vel og hentaði hann vel í hlutverki miðaldra snjónvarpsjörnu.
Allir aðrir leikarar voru frábærir og voru þeir hver öðrum betri. Það var gaman að sjá Gunnar loksins á svið og sýndi hann þarna hversu góður svipbrigðaleikari hann er enda á hann ekki margar línur í leikritinu. Þórunn Lárusdóttir og Guðrún Gísladóttir eru að mínu mati bestu leikkonur landsins og hefur sú skoðun ekkert breyst eftir sýninguna. Friðrik er mjög efnilegur og verður gaman að fylgjast með honum í framtíðinni og Þóra Katrín, sem ég hef aldrei séð áður var beinlínis óhugnanleg í hlutverki spilltu dótturinni. Eins og mér finnst Pálmi vera orðinn þreyttur í spaugstofunni nýtur hann sín vel á sviði og Hjalti sem var hryllilegur í Kaldri slóð var stórkostlegur hérna. Báðir tveir eru greinilega sviðsleikarar. Anna Kristín og Arnar voru einnig frábær.
Höfundurinn tekst að gera söguna bæði sorglega og fyndna og stundum bæði í einu. Fyrir hlé voru nokkrar ótrúlega átakanlegar en um leið gullfallegar senur og var það bæði ótrúlegum leik að þakka og auðvitað hugmyndarflugi höfundarins. Leikritið er betra fyrir hlé og fannst mér vannta útskýringar á sumu en sýningin töfraði mann upp úr skónum þannig að þegar uppi var staðið skipti það sama sem engu máli.
Ég mun bíða spenntur eftir næsta skipti sem að Þjóðleikhúsið setur upp verk eftir þennan snilling og ég vona að ég þurfi ekki að bíða lengi eftir því. Ef þú ert ekki búinn að sjá Engisprettur skaltu hlaupa að símanum eða fara á netið(sem þú augljóslega ert á fyrst þú ert að lesa þetta) og panta miða. Þetta er sýning sem gengur upp að öllu leyti. Ein sú besta sem ég hef farið á. “Bravo” Þórhildur Þorleifsdóttir.
Veni, vidi, vici!