Í gegnum árin hef ég verið svo heppinn að sjá nokkur svona leikrit. Auðvitað gæti verið að mér fyndist leikrit sem ég sá fyrir tíu árum síðan og skemmti mér konunglega yfir þá, hreinlega lélegt í dag en samt sem áður hef ég ákveðið að fara yfir þessa gullmola og rifja upp hvaða leirit kölluðu fram einmitt þessi áhrif þegar ég sá þau fyrst. Í fyrsta hlutanum ætla ég að fjalla um barnaleikritin. Ég gæti farið rangt með eitthvað og þá bið ég fólk um að leiðrétta mig.
Leikhúsreynslan mín á Íslandi byrjaði með leikritinu Bróðir minn ljónshjarta. Ég sá það sex eða sjö árum eftir að ég fæddist og er ástæðan fyrir því hvað ég var gamall þegar ég sá mitt fyrsta íslenska leikrit sú að ég bjó erlendis þessi sex ár. Fyrir sex eða sjö ára gamlan strák var þetta leikrit fullkomið. Stórkostlegt ævintýri,fyndið og fullt af frábærum persónum. Leikaravalið var stórgott og ennþá á ég erfitt með að sjá fyrir mér annan en Hilmi snæ í hlutverki Jónatans. Hinir ungu leikarar sem fóru með hlutverk Snúðs stóðu sig líka bráðvel. (b.t.w. veit einhver hvað varð um þá?) Leikmyndin var mjög góð og það var þarna sem ég kynntist hinu fræga hringsviði. Einu vonbrigðin voru sú að maður sá aldrei drekann almennilega heldur var hann túlkaður með tveimur rauðum ljósum.(augun) En að sjálfsögðu hefði verið erfitt að gera hann betri. En sem sagt fullkomin byrjun á íslensku leikhúslífi og eftir þa ðvarð ekki aftur snúið. Ég hafði tekið ástfóstur á leikhúsinu.
Næsti gullmoli er mjög eftirminnilegur. Leikritið Glanni glæpur í Latabæ. Augljóslega hafði verið lögð gríðarlega mikil vinna í þetta leikrit. Sviðsmyndin var ótrúlega vel heppnuð miðað við hvað hún var einföld. Á stóra sviðinu í Þjóðleikhúsinu var búið að koma fyrir helum bæ. Litrík, skökk, hús með litla garða þar sem óx grænmeti innan skrautlegra girðinga. Persónurnar voru í búningum sem voru í öllum regnbogans litum og með rauðar, grænar, bláar og bleikar hárkollur. Sem sagt allt gert til þess að fanga augu ungra áhorfenda. Og það heppnaðist. MArgt var gert til þess að fá krakkana til þess að taka þátt í sýningunni og gerðist stór hluti af söngleiknum í salnum. Leikurinn var góður og hafði maður samúð með öllum “góðu” persónunum og óbeit á Glanna glæp sem Stefán Karl lék fanta vel. Leikrit sem heppnaðist á öllum sviðum.
Næsta leikrit hafði allt sem ég gat óskað mér. Það kallaði fram sorg, gleði, reiði, hlátur, og þennan frábæra sæluhroll sem maður fær þegar atriði verða sérstaklega flott. Ég er að tala um Honk! Söngleikurinn er byggur á sögunni um litla ljóta andarungann og glæddu frábærir leikarar, góð lög og sniðug leikmynd söguna lífi. Felix Bergson lék svo vel að ég bókstaflega hataði persónurnar sem að lögðu hann í einelti. Ólafur Darri var frábær eins og alltaf og aðrir leikarar góðir líka. Leikrit sem var vel þess virði að sjá.
Önnur frábær barnaleikrit: Jón Oddur og Jón Bjarni(stórfyndið gamanleikrit sem var hlaðið góðum leikurum á öllum aldri) og Lína Langsokkur (Fyrsta skiptið sem ég sá Ilmur leika og var hún eins og sköpuð í hlutverk Línu)
Eru þetta þrjú bestu barnaleikrit síðustu 10 ár? Líklega ekki en í endurminningunni voru þau það svo sannarlega. Ég ætla klárlega að fara á Skilaboðaskjóðuna sem fyrst til þess að næra barnið í mér og vona ég að hún valdi ekki vonbrigðum.
En í seinni hlutanum tek ég fyrir Þá gullmola sem teljast ekki til barnasýningar. ÞAr er úr nógu að taka enda íslensk leikhús alveg einstaklega sterk.
Veni, vidi, vici!