Fool for Love Fool for Love
Austurbær
Salur 2


Ég fór á leiksýninguna Fool for Love núna fyrr í kvöld. Verkið er eftir Sam Shepard og fjallar um fyrrum elskendur sem hittast á yfirgefnu vegamóteli í útjaðri Mojave eyðimerkurinnar. Þau hafa átt erfitt, pínu skrítið og ofbeldisfullt ástarsamband, og geta eiginlega ekki verið lengur saman, en elska samt hvort annað. Æj þetta er pínu flókið! Haha

Það er splunkunýr leikhópur (Silfurtunglið) sem stendur að sýningunni og er hún sýnd í litlum sal á annarri hæð Austurbæjarbíós. Leikstjóri er Jón Gunnar Þórðarson og leikendur eru Sveinn Ólafur Gunnarsson, Þóra Karítas Árnadóttir, Kristján Kristjánsson (KK) og Magnús Guðmundsson.

Fyrirfram var ég fullur efasemda um sýninguna. Ég hafði aldrei heyrt um verkið, mér fannst titillinn hræðilegur og hallærislegur og ég kannaðist ekki við neinn leikaranna (nema auðvitað KK. Sem er samt ekki leikari. Og þessvegna hélt ég að hann væri ömurlegur leikari). Ég semsagt gekk þarna inn í litla salinn fyrir ofan aðal salinn í Austurbæ fullur vantrúar um gæði verksins sem var í þann mund að byrja. Það var heitt og ég sá fyrir mér að ég myndi deyja þarna inni yfir drepleiðinlegri amatörsýningu um ástina.
Þar skjátlaðist mér allhrikalega, það kom nefnilega í ljós að Fool for Love var alveg ótrúlega skemmtileg sýning, full af húmor og góðum leikurum. Sveinn Ólafur var sannfærandi í hlutverki Eddie og Þóra Karítas mjög góð sem May. Samtölin á milli þeirra voru nokkuð góð og sannfærandi þó að eintölin hafi ekki verið upp á marga fiska. (Mér finnast svona eintöl í leikhúsi oft verða mjög tilgerðarleg og kjánaleg. Svona þegar einn leikari stendur fremst á sviðinu og rifjar upp æskuminningar og starir út í tómið. Eða eitthvað álíka. Það var ekki töff.)
Síðan bættist Magnús Guðmundsson inn á sviðið þegar sýningin var rúmlega hálfnuð og var hann allsvakaleg vítamínsprauta fyrir sýninguna. Hann lék Martin mjög skemmtilega, enda ekki leiðinlegt hlutverk það. KK sat svo í ruggustólnum sínum úti í kanti allan tímann, spilaði á gítar og skaut nokkrum sinnum inn setningum, þangað til alveg í lokin þar sem hann ruddist skyndilega inn á sviðið og lék ótrúlega vel ótrúlega reiðan mann. Það kom mér skemmtilega á óvart, hvað hann lék vel.

Á heildina litið var lúkkið á sýningunni og hljóðmyndin ofsalega flott. Lítið rými, mikil nálægð, nææææs. Gítarleikur KK passaði fullkomlega inn í sýninguna og sandurinn á gólfinu var… athyglisverður.

4 stjörnur af 5 stjörnum

-Guðmundur Felixson