Leg eftir Hugleik Dagsson Þann 2.mars 2007 skellti ég mér á forsýningu á „Leg”, vísindasöngleikinn eftir Hugleik Dagsson. Margir ættu að kannast við grófu og dónalegu bækurnar eftir hann (teiknimynda sögur) sem eru til inná nokkrum heimilum sem veita (flestu) heimilisfólki oft mikla kátínu. Sjálfur hef ég skoðað þessar bækur og þrátt fyrir mjög gróft efni þá er þetta drepfyndið. Eftirvæntingin fyrir „Leg” var því skiljanlega mikil hjá mér og hlakkaði mig til þess að sjá hvað hann hefði uppá að bjóða að þessu sinni.

Leg er vísindasöngleikur sem fjallar aðallega um eina ákveðna stúlku og fjölskylduna hennar og allt sem gengur og gerist í kringum þau. Fjölskyldan samanstendur af foreldrum og tveimur börnum. Faðirinn er gamall frægur trúbador og er leikinn af Kjartani Guðjónssyni, hann vinnur hjá virtu fyrirtæki og er ansi vel efnaður. Konan hans er leikin af Halldóru Geirharðardóttur og er hún heldur kærulaus móðir, keppist stundum við það að vera meiri skvísa heldur en sín eigin dóttir og gerir lítið úr litla stráknum sínum. Dóttirin hún Kata er í rauninni aðal karakterinn í leikritinu og leikritið snýst svolítið í kringum hana. Hún er ansi vel leikin af henni Dóru Jóhannesardóttur. Kata á lítinn bróður, Kalla að nafni, sem hefur dálæti af dýrum og tölvuleikjum og er gangandi veirusjúklingur ef svo má að orði komast. Hugleikur hefur kannski sótt hugmynd sína úr myndinni „Bubble Boy” þar sem að litli bróðurinn gengur um í uppblásnum plastbúningi til að verjast hinum ýmsu sýklum náttúrunnar. Friðrik Friðriksson fer með hlutverk hans og gerir mjög vel.

Kata uppgvötvar að hún sé ólétt og þar sem að hún er ansi lauslát, ung og gröð stúlka hefur hún ekki hugmynd um hver það geti verið sem barnaði hana, þar sem að kærastinn/hjásvæfan hennar var ekki valdurinn. Henni til mikillar lukku og ánægju á besta vinkona hennar hún Ingunn eldri bróður Hjört, sem lærði úti í Japan og er einn af færustu læknum landsins. Kata hafði nefnilega fóbíu fyrir læknum sem voru aðeins í sínu starfi til að káfa á kvenmönnum. Ingunn er leikin af Eddu Björg Eyjólfsdóttur og er Hjörtur leikinn af Atla Rafni Sigurðarssyni.

Eftir rannsókn komast þau að því að gerandinn er Andri, félagsráðgjafinn í skólanum, Kötu til mikillar ógleði. Andri er leikinn af Stefáni Halli Stefánssyni og finnst mér hann fara með hlutverkið rosalega vel. Það er svolítið áberandi hvað Andri líkist ótrúlega Gumma í Byrginu, bæði til fara og í anda. Kata talar líka um hann Andra alveg eins og nokkur fórnarlömb Guðmunds töluðu um Guðmund og mér finnst það vera rosalega sterkur leikur hjá Hugleiki. Þar að segja ef að Hugleikur breytti hlutverki Andra í vera líkari Gumma. Að lokum er hann Andri ekki allur þar sem hann er séður heldur er hann sjálfur Andrew Lloyd sem er eigandi og forstjóri alþjóðadeildar Glóbofistar, einhvers konar veg til betri framtíðar dæmi. Spennandi að fylgjast með hvernig þetta allt saman endar svo ég ætla ekki að segja frá meiru í bili.

Leg er mjög sniðugt leikrit sem heldur athygli manns allan tímann. Minnti mig oft á tíðum á söngleikinn Rocky Horror Picture Show eftir Richard O’Brian sem Hugleikur hefur án efa litið upp til þegar hann var að skrifa handritið. Einnig var æðislegt þegar „Bachelor” senurnar voru, ótrúlegt hvað raunveruleika sjónvarp getur yfir höfuð verið klikkað. Hugleikur gerir frekar lítið úr þáttaseríunum sem voru/eru sýndar á Skjá einum og er það mjög fyndið. Það er alveg ljóst að Hugleikur hefur haft heilan helling af góðum hugmyndum sem hann hefur síðan mallað saman í einn graut og útkoman var bráðfyndinn, frumlegur, óhefðbundinn og grófur söngleikur.

Vísindasöngleikurinn Leg hæfir ekki endilega öllum hvað varðar grófleika þá sérstaklega. Fyrir hlé var ekki jafn mikið hlegið einsog eftir hlé. Ég held að fólk og þá aðallega foreldrar sem mættu með börnin sín hafi hreinlega þurft að kyngja og melta orðbragðið og dónaskapinn sem leikritið hafði uppá að bjóða. Glotti ég við tönn þegar ég horfði á krakka sem sátu fyrir framan mig líklega á aldrinum 8-10 ára setja spurningarmerki við hin ýmsu orð. Eftir hlé var greinilegt að fólk hafði jafnað sig á stefnu leikritisins og því tóku við endilöng hlátursköst eftir hvert fyndið atriði.

Hugleiki hefur tekist að brjóta aðeins uppá leikritarstefnu leikhúsa og leikrita hér á landi og gerir það furðuvel. Greinarhöfundur hefur sjaldan hlegið jafn mikið á einni leiksýningu og mætti kannski kalla þetta „Borat” kvikmyndahúsanna sem sýnd var í öllum helstu bíóhúsum fyrir nokkru.

—–

Heimildir

www.leikhusid.is