Föstudaginn 23. febrúar næstkomandi verður gamanleikurinn Prímadonnurnar Íslandsfrumsýndur í Freyvangi, Eyjafjarðarsveit. Verkið er eftir Ken Ludwig, en hann hefur getið sér gott orð sem gamanleikskáld í Bandaríkjunum og hafa verk hans einnig verið sýnd víða um heim. Leikstjóri er hin góðkunna Saga Jónsdóttir, en hún þýðir einnig verkið. Þórarinn Blöndal er hönnuður leikmyndar og um lýsingu sér Þorsteinn Sigurbergsson.
Prímadonnurnar gerist á 6. áratug síðustu aldar. Leikararnir Leo Clark og Jack Gable ferðast um Bandaríkin með farandsýningu sína, Senur úr Shakespeare. Eftir sérstaklega misheppnað kvöld er útlitið dökkt hjá þeim félögum en blaðagrein kemur þeim á spor deyjandi konu sem leitar að löngu týndum systursonum sínum, til að þeir hljóti réttmætan arf sinn eftir andlát hennar. Eignir konunnar eru gríðarlegar og Leo fær þá hugmynd að þeir Jack leiki frændur hennar til að hljóta skjótan gróða og þar með möguleika á frama í Hollywood. En málin flækjast heldur betur þegar í ljós kemur að hin týndu systrabörn gömlu konunnar eru ekki karlmenn, heldur konur.
Í ár fagnar Freyvangsleikhúsið 45 ára afmæli leikstarfsemi í Freyvangi, en Leikfélag Öngulsstaðahrepps var stofnað 9. apríl árið 1962 og hefur verið leikið í húsinu nær óslitið síðan. Í þessu tilefni verður mikið um dýrðir á frumsýningardaginn, stofnfélögum í Leikfélagi Öngulsstaðahrepps hefur verið boðið á sýninguna og í lok hennar verður veisla í Ferðaþjónustunni Öngulsstöðum, en þar verður einnig boðið upp á sérstakan Prímadonnumatseðil næstu helgar, í tilefni sýningarinnar. Laugardagskvöldið 24. febrúar er svo 2. sýning og verða sýningar jafnan á föstudags- og laugardagskvöldum og hefjast kl. 20.30, en nánari upplýsingar um sýningartíma má finna á vefsíðu Freyvangsleikhússins, www.freyvangur.net og þar er einnig aragrúi upplýsinga og mynda úr fyrri sýningum ásamt öðrum fróðleik.
Miðasölusími Freyvangsleikhússins er 863-1515.