Sökum þess að lítið sé um greinar inná þessu áhugamáli að mínu mati, langaði mig til þess að gera eina. Mig langar að segja ykkur frá minni leiklistar reynslu í leikriti sem Menntaskólinn í Kópavogi eða skólinn minn setti upp. Hún verður kannski pínu löng en það er ekkert nema gott enda er ekki mikið um greinar sem þið getið lesið um hér á þessu áhugamáli, því miður.
Snemma í febrúar á síðasta ári byrjuðu áheyrnarprufur fyrir leikrit skólans sem átti að sýna svo seinna um vorið. Ég var mjög áhugasamur í sambandi við þetta leikrit þó að ég sjálfur hefði aldrei tekið þátt í slíku áður nema þá að leika og geifla mig fyrir framan vini og lítið aukahlutverk í grunnskóla. Engu að síður ákvað ég að skella mér í áheyrnarprufurnar með það í farteskinu að ég gæti sungið, sem var stór þáttur í leikritinu. Ég hafði mikla löngun til þess að sanna mig því að fyrr um mánuðinn hafði ég ekki komist í gegnum söngvakeppni skólans svo mig langaði til þess að bæta það upp eða reyna það allavega með þáttöku í leikritinu.
Leikritið sem átti að sýna var ekki af minni gerðinni, en það var söngleikurinn The Rocky Horror Picture Show eftir Richard O’Brien. Á þessu tímabili hefði þetta eins getað verið kínverskur söngleikur því ekki vissi ég neitt um hann. Það átti svo heldur betur eftir að breytast. Ég mætti í áheyrnarprufurnar sem fóru fram í einni kennslustofu skólans. Þetta minnti um margt á Idolið því að einn strákur sem starfaði við leikfélagið lét einsog hann væri annað hvort Simmi eða Jói og var að tala við alla og róa fólk niður, frekar fyndið. Þeir sem voru við áheyrnaprufurnar voru leikstjórinn Guðmundur Rúnar Kristjánsson, Hrafnkell (betur þekktur sem gítarleikarinn Í Svörtum Fötum) og svo formaður leikfélagsins. Þetta var heldur stressandi þegar kom að mér en ég náði að standa mig með mikilli prýði. Það mikilli að ég fékk hlutverk í leikritinu og ekkert lítið neitt heldur aðalhlutverk númer tvö, karakterinn Brad Majors var nú í mínum höndum. Ég þurfti þó að hafa mikið fyrir því en baráttan var hörð á milli mín og tveggja annarra stráka, að lokum fékk ég svo hlutverkið þar sem að ég þótti vera besti söngvarinn (en söngur skipti miklu máli fyrir leikritið enda einskonar söngleikur). Þetta var nú aldeilis gaman, á mínu fyrsta ári í menntaskóla aðeins 16 ára að aldri var ég kominn með eitt af aðalhlutverkunum. Það skal tekið fram að ég var lang yngstur af hópnum en aðeins nokkrir dansarar og gítarleikari voru jafnaldrar mínir, aðalleikarinn var til að mynda að verða tvítugur.
Æfingar byrjuðu afar fljótt og voru frekar strembnar en skemmtilegar engu að síður. Á þessu tímabili gafst lítill tími í lærdóm. Maður þóttist kannski ætla að læra í eyðum eða eftir skóla rétt fyrir æfingu en eina sem maður hugsaði um var þetta leikrit, tala nú ekki um að læra handritið utan af og læra að syngja lögin. Síðustu þrjár eða tvær vikurnar var þetta orðin alvara, maður mætti strax eftir skóla á æfingu og kom heim í fyrsta lagi klukkan tólf um miðnætti. Foreldrar mínir voru skiljanlega ekki hress með gang mála en það var orðið of seint að hætta.
Miðað við lítið fjármagn sem við höfðum náðum við að byggja upp alveg hreint glæsilega leiksýningu. Allir þurftu að reyna að redda því sem þeir gátu því ekki gátum við keypta allt, gott dæmi um þetta er að t.d. reddaði ég fötunum sem ég var í fyrripart leikrits en ég átti og á þau sjálfur. Sviðsmenn stóðu sig hreint frábærlega og unnu oft langt fram eftir til að gera umhverfið að sýningunni sem flottast. Eftir langar, margar og erfiðar æfingar var allt að bresta á og til stóð að sýna leikritið alls átta sinnum, þar á meðal tvær nemanda sýningar á árshátíðardaginn, miðnætursýningar og fleira skemmtilegt. Sýningarnar áttu að standa yfir páskafríið svo þetta var tilvalið. Ef allt hefði gengið að óskum hefði leikritið jafnvel verið sýnt eitthvað um sumarið.
Stundum er lífið hreinlega of gott til að vera satt og daginn fyrir frumsýningu fengum við mestu sorgarfréttir sem við hefðum getað fengið. Það hafði farið framhjá leikstjóranum og stjórnendum leikfélagsins að það var ákveðinn maður sem átti höfundarréttinn af The Rocky Horror Picture Show. Þessi ákveðni maður hét og heitir Sigurður Kaiser og er meðal annars þekktur fyrir að vera með einni stúlkunni úr Nylon og ef mér skilst rétt eiga Loftkastalann. Hann kom inní Tjarnarbíó (þar sem leikritið okkar var sýnt) daginn fyrir frumsýningu og kvaðst eiga höfundarréttinn og ætlaði að banna okkur að sýna sýningarnar okkar. Sem betur fer var ansi kröftug kona eða sjálf skólastýra skólans sem stóð þétt við bakið á okkur og barðist með kjafti og klóm ásamt fáeinum kennurum. Allt er gott sem endar vel og við fengum að sýna alls þrjár sýningar sem var betra en ekki neitt. Við vorum staðráðin í því að við ætluðum að standa okkur vel á þessum fáeinum sýningum og það gerðum við svo heldur betur. Okkur var oft hrósað hástert en ég tel að mestu hrósin hafi verið frá skólastýrunni en hún sagði þetta besta leikrit Menntaskólans í Kópavogi í heil 25 ár takk fyrir. Annað hrós kom frá ömmu minni og afa sem eru miklir leikhús fíklar og eyða líklega öllum sínum ellilífeyri í leikhúsmiða, þau voru svo djörf að segja að þetta hafi verið besta leiksýning sem þau höfðu séð um þann vetur. Enn annað hrósið var svo frá félaga mínum úr Verzló en hann taldi þessa sýningu hafa trónað yfir “Á Tjá og Tundri” sem Verzló sýndi. Svo að það verður ekki af okkur tekið að hafa staðið okkur feyki vel, við gerðum leikritið að því sem það var og loksins gat leikfélag MK verið stolt af sínu framlagi.
Þetta leikrit og allt sem því fylgdi kom mjög niður á námsárangri mínum og féll ég í tveimur fögum, dönsku og stærðfræði. Þegar ég hugsa til baka gæti mér reyndar ekki staðið meira á sama því á þessum tíma mínum eignaðist ég svo margt. Ég kynntist t.d. tveimur frábærum manneskjum eða aðalleikaranum og einum dansaranum og eru þau mínir bestu vinir í dag, ásamt því að kynnast yfir 50 nýju andlitum, ég fékk rosalega mikið út úr þessu og fékk mikla reynslu sem á eftir að nýtast mér vel í framtíðinni og uppgvötvaði að lokum einn skemmtilegasta söngleik sem saminn hefur verið!
Torfi Guðbrandsson