Ég hef tekið eftir að hingað inn á leiklist sækir mikið fólk sem hefur áhuga á því að koma sér að í kvikmyndum, leikhúsi, í auglýsinugum eða í sjónvarpi en veit ekki hvernig það á að bera sig að við það.
Flestir hér eru sennilega of ungir til þess að sækja um í leiklistarskóla, aðrir hafa e.t.v. ekki endilega áhuga á því að gera leiklist að ævistarfi heldur vilja stunda hana sér til yndisauka (rétt eins og að leika á hljóðfæri eða spila fótbolta í frístundum). Enn aðrir vilja skjótfengna frægð hvað sem það kostar. Sumir hafa skráð sig hjá umboðsskrifstofum án þess að það beri mikinn árangur. -Enda tækifærin ekki svo mörg kannski.
En ekki gleyma því að það er líka hægt að búa sér til tækifærin sjálf/ur. Þó nokkrir hafa til dæmis farið þá leið að gera sínar eigin stuttmyndir til dæmis, eða taka þátt í leiksýningum á vegum skóla eða áhugaleikfélaga. Áhugaleikfélögin eru frábær vettvangur fyrir þá sem hafa brennandi áhuga á öllum hliðum leiklistar, því þar er hægt að fá tækifæri til að takast á við svo margt fleira en að leika.
Ég hef nú þegar gert það að tillögu minni á korki að einhver tæknivæddari en ég sjálf komi upp heimasíðu þar sem áhugaleikarar á öllum aldri geta skráð sig ókeypis. Fólk gæti sent inn mynd eða myndband með sjálfum sér og ferilskrá. Síðan þarf ekki að vera últra-flott. Blogg-síða væri jafnvel nóg.
Þegar slatti af fólki er búið að skrá sig er ekkert nema senda urlið á þá aðila sem gætu viljað nýta sér þjónustu áhugafólks: Félag kvikmyndagerðarmanna, leikhúsin, Félag leikstjóra, sjónvarpsstöðvarnar, auglýsingastofurnar o.s.frv. Þá vita þessir aðilar allavega af þessari óformlegu umboðs-síðu.
Þetta er áskorun! Hver ætlar að taka henni?