Titill á frummáli: De Egyptische schaatser
Höfundur: Ruud van Megen
Þýðing: Hallgrímur H. Helgason
Örn Árnason fer með öll hlutverkin
Leikstjóri: Ásdís Thoroddsen
Hljóðvinnsla: Hjörtur Svavarsson
Flutt á Rás 1 þann 28. sept. síðastliðin.
Guði sé lof að Rás eitt er enn starfandi. Það er rosalegt hve mikil áhrif, það deyjandi form sem útvarpsleikritið er, getur haft á mann.
Í einu orði sagt er Egypski skautahlauparinn snilld, gæsahúð út í gegn og ég kvet alla þá sem lesa þetta að fara á vef Rískisútvarpsins og hlusta á leikritið, þið hafið þangað til 12. október.
En nóg um það. Eins og Rúv orðaði þetta þá er Egypski skautahlauparinn grafalvarlegur gamanleikur um Halim Al Djiba, innflytjanada sem búsettur er í Hollandi. Hann er metnaðargjarn skautahlaupari. Á sama tíma og hann er að búa sig undir mikilvæga keppni fer hitinn af íbúðinni. Halim kallar til pípulagningarmann en stígur þar með örlagaríkt skref.
Maður þarf ekki að útkýra hvers konar leikari hann Örn er, allavega held ég að engin hefði getað leikið Halim betur. Maður bókstaflega sá kauða í lifandi ljósi beint fyrir framan sig. Leikritið er mest byggt á hugsunum Halims, eða það er meira eins og Halim sjálfur sé að fara með leikritið fyrir sjálfan sig í huganum. Sennilega þess vegna sem sami maðurinn fer með hlutverk allra persónanna. Þarna er náttúrulega allt leyfilegt því þetta leikrit er nokkuð framsækið, til dæmis er oft staldrað við á hinum ýmsu orðum og þau sögð aftur og aftur og þau mixuð í gegn, svona eins og þegar maður sjálfur er að pæla í einhverju.
Ádeilan leynir sér ekki og mannlegi þáttur tilverunnar er kristaltær. Þar spilar handritið inn í þetta. Það eru eiginlega 3 persónur sem skipta sköpum í verkinu, Halim sjálfur, kona sem vann fyrir pípulagningamannin (sem er titluð sem „engillinn“) og pípulagningamaðurinn. „Engillinn“ kemur lítið við sögu en pípulagningamaðurinn og Halim eru snildarlega skapaðar persónur.*SMÁVÆGILEGUR SPILLIR* Fordómar er eitt þema leikverksins og verkið skilar ádeilunni frábærlega. Það sem er samt enn meiri snilld við handritið er hve leyndir fordómar Halims eru, maður tekur ekki eftir þeim fyrr en undir lokin sem endurspeglar sjálft lífið, þ.e. það er erfitt að sjá sína eigin fordóma. *SPILLIR ENDAR*
Aðra þætti þarf ég voða lítið að tala um, það fer svo lítið fyrir þeim. Hljóðvinnslan er óaðfinnanleg (mætti líkja henni við vel klipta bíómynd þar sem maður tekur aldrei eftir klippingum), fídusar og bakrunshljóð koma á réttu augnabliki með hæfilegum krafti og… já, það er eiginlega ekkert meira. Eins og ég sagði er það eiginlega bara handritið og leikurinn sem skapa þetta magnaða verk.
Svo ég hvet ykkur til að kíkja á þetta á meðan þið getið.
5.000.036 öreindir af 5.000.097 öreindum mögulegum.