9.bekkur fær venjulega lánuð handrit af einhverju leikhúsi, lagar það til, styttir, bætir við, tekur út þangað til það er komið nógu stutt handrit til að troða í þennan hálftíma sem við höfum. Í gegnum mína grunnskólagöngu man ég eftir að 9.bekkur hafi verið með Emil í Kattholti, Dýrin í Hálsaskógi, Kardimommubærinn, Latibær, Grease og fleiri. En ég man ekki eftir að þeir 9.bekkir sem hafi verið með leikrit á meðan ég var í skólanum hafi verið með Línu Langsokk og bekkurinn minn hafði mestan áhuga á að vera með það leikrit.
Þorsteinn Bachman var fenginn til að leikstýra. Deildarstjórinn byrjaði á því að raða í hlutverk en það voru að sjálfsögðu ekki endanleg hlutverk. Þorsteinn prófaði sig áfram, setti mismunandi manneskjur í mismunandi hlutverk, fór með okkur í leiki til að sjá hver hefði mest gaman af þessu og hver væri minnst feiminn. Eða svo sagði hann að minnsta kosti. Það var ekki fyrr en eftir nokkrar vikur sem hann ákvað alveg hver væri í hvaða hlutverki og ég var hæstánægð þegar hann sagði við hina stelpuna sem vildi Önnu hlutverkið að hún passaði líklega betur í hlutverk mömmunar og að ég fengi að vera Anna. Ég var búin að læra mest allar línurnar hennar Önnu eftir fyrstu æfingarnar og ákvað að læra hinar línurnar líka til að vera betur undirbúin. Mér fannst handritið svo skemmtilegt, Lína Langsokkur er frábær saga.
Það styttist í sýninguna og nú voru æfingar á næstum hverjum degi, og fólk mismunandi sátt við það. Ég var hæstánægð, þó að ég væri komin með leið á Þorsteini en hann var bara að vinna sína vinnu við að koma þessu upp á réttum tíma. Farið var í að smíða húsið hennar Línu, sem kom á endanum mjög vel út og var mjög hentugt. Lokaatriðið, þar sem Lína skellir rjóma framan í Frú Prússolín og setur prumpublöðru á stólinn hennar, var mikið æft bara vegna þess að okkur fannst það svo skemmtilegt. Þegar flest atriðin voru svona nokkurnvegin eins og þau áttu að vera byrjuðum við að æfa lögin. Ég, með ekki bestu söngröddina, þurfti að sjálfsögðu að syngja. Upprunalega áttu bara ég og ‘Tommi’ að syngja byrjunina á einu laginu ein en svo fékk hann ‘Línu’ til að syngja með okkur og þá varð þetta auðveldara. Það var settur saman dans og lokasöngurinn æfður. Mér fannst, miðað við hvað við höfðum lítinn tíma, þetta koma ótrúlega vel út.
Allt annað gekk mjög vel fyrir sig. Búningar, förðun, ljós, öll skipulagning, æfingar, söngur, leikur… þetta var það skemmtilegasta sem ég gerði. Að vesenast í kringum leikritið og fá svo að sýna það var alveg frábært.
Loksins kom árshátíðarvikan og sviðið var tilbúið. Við æfðum nokkrum sinnum á sviði, til að þjálfa sviðsmenn og ákveða hver átti að vera með hvaða mæk hvenær. Þeir sem ekki voru með af einhverjum ástæðum eða voru einfaldlega ekki í atriðinu áttu að vera baksviðs og syngja með sem kom oft skondið út þegar þau voru ekki á alveg sama tíma og þeir sem voru á sviðinu.
Atriðið þar sem ‘Lína’ setti rjóma framan í ‘Frú Prússólín’ var mjög vel heppnað og fólk hló og tók andköf meira en við bjuggumst við.
Á tvær fyrri sýningarnar fylltist salurinn, um 200 manns og á seinustu sýninguna þurfti að stækka salinn því um það bil 400 manns mættu. Það var það besta sem ég veit, að standa á sviði og vita að það er verið að fylgjast með manni.
Við vorum öll mjög fúl yfir að þetta væri búið þeagr við stóðum frammi og kvöddum gestina eftir síðustu sýninguna. Yngri krakkarnir í skólanum kölluðu mig t.d. Önnu í einhverja daga, vikur á eftir.
Ég vildi að ég gæti gert þetta aftur og aftur og aftur því þetta var pottþétt eitt það skemmtilegasta sem ég gerði í grunnskóla.
-Brighton :)
-Tinna