Ég hef komið að leikhúsi og uppsetningu á leikritum á alls konar hátt. Ég hef leikið í leiksýningum, farið á leiksýningar, unnið að leikmyndagerð og unnið sem eltiljósamaður. Svo ekki sé talað um allar ferðirnar baksviðs eftir sýningar.

Ég hef komist að því í gegnum tíðina að ekki er barnaleikur að setja upp eitt stykki leiksýningu! (hver bjóst svosum við því?). Ónei ónei! Að sýningu í atvinnuleikhúsi koma nefninlega hundruðir manna, beint og óbeint. Fyrir utan alla leikarana eru smiðir, ljósamenn, sýningarstjórar, propsarar, dresserar, dyraverðir, miðasölufólk, sviðsmenn, leikmyndahönnuðir, búningahönnuðir, sætavísur og að sjálf sögðu leikstjóri, svo eitthvað sé nefnt… Leikstjórinn þarf að hafa yfirumsjón með ÖLLU verkefninu og því er nokkuð algengt að aðstoðarleikstjóri sé leikstjórans hægri hönd í öllu ferlinu. Oft þegar fólk gengur inn í sal og horfir á leiksýningu gerir sér ekki grein fyrir þeirri gífurlegu vinnu sem lögð er í verkið! Það tekur marga mánuði að æfa leikarana og ef leikmyndin er flókin þarf svipaðan tíma í hana. Öll smáatriðin fara oft framhjá fólki eins og ljósin sem hafa verið sett upp og stillt sérstaklega, allir leikmunirnir sem hafa kannski verið sérsmíðaðir og allir búningarnir sem, í mörgum atvinnuleikhúsum, eru sérsaumaðir.

Það er þetta sem mér finnst svo heillandi við leiklistina, að gera sitt allra besta til að skemmta áhorfandanum, hvort sem það þarf að hengja upp hundrað ljós eða læra hundrað línur til þess… Leiklistin er svo fjölbreytileg og þessvegna er svo ótrúlega gaman að fara leikhús, það er alltaf eitthvað sem kemur manni á óvart.

-gvendurf