<img src="http://www.sbs.is/Index/Utlit_Myndir/Top_Menu2.gif">
Ég hef verið að spá í nafninu á myndinni Slap her, She´s French eða ‘Sláðu hana, hún er frönsk’. Er þetta eitthvað sem fólk segir einhverstaðar í hinum enskumælandi heimi? Þetta hlýtur að koma einhverstaðan frá og ég vil vita hvaðan! Ég get ekki alveg séð fyrir mér Breta eða Kana gangandi upp að Frakka og slá hann, svona því hann er nú Frakki. Annars veit maður aldrei.
En hvaðan sem það kemur heitir kvikmyndin ‘Slap her, She´s French’ og ég verð bara að lifa með því. Myndin fjallar um Störla Grady (Jane McGregor), Texas búa sem lifir hinu fullkomna lífi, hún er rík, falleg og óhemjuvinsæl í skólanum sínum. Hún stefnir að því að verða fréttakona í sjónvarpsþættinum ‘Good Morning America’ og hefur gátlista fyrir það. Hún vinnur í öllum keppnum sem hún tekur þátt í en þegar hún sér að sigur hennar í fegurðarsamkeppni bæjarins sé ekki alveg öruggur ákveður hún að taka fram stórvopnið. Hún ákveður að fjölskyldan hennar hefur tekið við fyrsta franska skiptinemanum sem kemur í bæinn og allir verða yfir sig hrifnir, ekki vissi ég að þetta væri svona mikið mál.
Hún vinnur keppnina og skiptineminn kemur, Genevieve LePlouff (Piper Perabo). LePlouff er voðalega feiminn og virðist líta á Störlu sem hina fullkomnu fyrirmynd, en ekki er allt sem sýnist. Fljótt fer Genevieve að taka athyglina frá Störlu, hún stelur kærastanum hennar, stöðu hennar í klappstýrulífinu og flestar aðrar stöður sem hún hafði.
Ég bjóst nú ekki við miklu af myndinni og ég fékk ekkert miklu meira en það. En ég verð að viðurkenna það að ég hló vel að nokkrum atriðum. Til dæmis var eitt atriði sem ég hló og hló af, það var keppni um besta viðvanings fréttamyndbandið. Einn keppandinn var með ótrúlega dramatískt myndband sem sýndi strák, ég man ekki hvað hann hét en hann átti við vandamál að stríða. Hann fæddist sem venjulegur drengur og allt virtist í lagi en einn daginn bað mamma hans hann að rétta sér tómatsósuna, hún fékk remúlaði. Hann var litblindur!
Það var svolítið mikið að svipuðum húmor í myndinni og voru mörg atriði mjög fyndin en handritið var frekar gloppótt og allt virtist þetta vera mjög óraunverulegt allt saman. En ég veit náttúrulega lítið um hvernig skólarnir eru í Texas, nemendur sem vona að Jeb taki við af forsetaembættinu af George eru kannski ekki alveg eins og allir aðrir en samt.