Handrit: James Gunn
Ég hafði beðið lengi eftir því að sjá þessa mynd en svo loksins þegar ég sá hana þá fékk ég blandaðar tilfinningar út í hana og hef verið að eyða seinustu vikum í að “melta” myndina.
Lítill loftsteinn sem inniheldur geimveru fellur til jarðar fyrir utan smábæ í Bandaríkjunum og ekki líður á löngu þar til geimveran hefur tekið sér bólfestu í íbúum bæjarins. Það er því undir hóp fólks að stoppa geimveruna.
Eins og ég sagði í byrjun þá þurfti ég smá tíma til að melta myndina því þegar ég kláraði að horfa á hana þá var það fyrsta sem kom upp í hugann á mér, “búið? Er þetta allt?”. Hryllingsmynd sem kostaði 30milljónir dollara og þetta er útkoman. Bara meðalmynd. Ég vildi elska þessa mynd en samt er eitthvað við myndina sem ég er ekki sáttur með.
En það sem eftir stendur er að þrátt fyrir þessa miklu peninga sem myndin fékk þá er þetta bara b-mynd og hún var alltaf hugsuð sem b-mynd. Myndin fékk mikil og sterk viðbrögð til að byrja með og kepptust um að lofa myndina og að loksins væri komin alvöru hryllingsmynd á markaðinn. En eftir því sem fleiri hafa séð myndina þá hafa viðbrögðin orðið blendnari og menn ekki eins ánægðir með hana. Það má vel vera að þessi miklu viðbrögð í fyrstu hafa byggt upp allt of miklar væntingar fyrir myndina sem hún stóð svo alls ekki undir þegar hún var kominn í almenna dreifingu. Hún stóðst allavega ekki þær væntingar sem ég setti upp með.
Til að byrja með þá fannst mér myndin taka allt of langan tíma í uppbygginguna. Það tók u.þ.b. 2/3 hluta myndarinnar að byggja myndina upp. Það fór allt of mikill tími í umbreytingunni á Grant þegar hann var að breytast í geimveruna og svo þegar allri þessari uppbyggingu var lokið þá var lítill tími eftir að myndinni og endirinn virkar eins og honum hafi verið hent saman í flýti.
Svo var eins ekki miklu eitt í persónusköpunina í myndinni og í raun var það góður leikur leikarana sem fékk mann til að þykja vænt um persónurnar í myndinni en ekki gott handrit. Svo ég haldi nú áfram að hamra á handritinu þá var töluvert að gloppum í handritinu og þá sérstaklega í seinni hluta myndarinnar sem einmitt ýtir undir þá tilfinningu að menn hafi verið að drífa sig í að klára myndina.
En það var ekki allt slæmt við þessa mynd. Myndin átti líka góða spretti og það var alveg hægt að hafa gaman af myndinni á köflum. Og eins eru brellurnar í myndinni virkilega góðar.
Í heildina mundi ég gefa þessari mynd **/****. Útkoman úr þessari mynd er engan veginn í samræmi við alla þá peninga sem fóru í myndina. Maður hefur séð betri hryllingsmyndir en þetta fyrir lítinn sem engan pening.
Helgi Pálsson