Handrit: Stephen King & Jeffrey Boam
Sagan segir frá grunnskólakennaranum Johnny Smith (Christopher Walken) sem lendir í bílslysi og lendir í dái í 5 ár. Þegar hann vaknar af dáinu kemst hann af því að kærastan hans hefur gifst öðrum manni og á núna barn með honum. Svo þegar Johnny reynir að byrja lífið sitt aftur eftir dáið kemst hann af því að hann hefur hæfileikann til að sjá fram í framtíðina hjá fólki þegar hann snertir það eða hluti sem það á. Það á eftir að reynast Johnny mjög erfitt og ekki líður á löngu þar til hann þarf að einangra sig frá umheiminum til að geta lifað eðlilegu lífi.
Það er hægt að deila um það hvort þessi sé í raun hryllingsmynd eða ekki. Í dag eru örugglega margir sem mundu ekki kalla þessa hryllingsmynd. En í mínum huga er hún það og hún er reyndar allmennt flokkuð sem hryllingsmynd. Þó að hryllingurinn sé ekki í formi blóðsúthellinga og aflimanir þá er hann mun meira huglægur. Eins og það hvernig þessi nýi hæfileiki Johnny Smith reynist í raun bölvun í stað blessunar og hvernig hann mun svo hægt og bítandi útiloka sig frá umheiminum vegna þess.
Eins er ákveðin siðferðisspurning sem kemur upp í myndinni. “Ef maður vissi hvernig framtíðin yrði, hefði maður þá rétt á að breyta henni ef manni lýst ekki á hana?”
En að myndinni aftur. David Cronenberg leikstýrir þessari mynd frábærlega og hún er meðal þeirri betri sem hann hefur gert. Christopher Walken stendur undir sínu með stórleik og gerir persónuna sína mjög trúverðuga. Martin Sheen stendur sig líka mjög vel og á það við um flesta leikarana í myndinni. Handritið er mjög gott. Fylgir ekki alveg sögu Stephen King en er eigi síður mjög gott.
Það er lítið af göllum í myndinni og í raun ekkert sem maður getur kvartað yfir að ráði. Myndin getur orðið svolítið langdreginn og þá sérstaklega á miðjukafla myndarinnar. En það er samt alltaf eitthvað nýtt að koma upp í myndinni sem bætir upp söguna og því ætti manni ekki að finnast myndin verða langdreginn.
Í heildina er þetta því mjög heilsteypt mynd sem bíður upp á góða og áhugaverða sögu, topp leik og er fullkomin leið til að eyða kvöldinu. Fær ***1/2 / ****.
Helgi Pálsson