Handrit Stephen King
Þessi mynd eins og svo margar aðrar í dag hefur unnið sér það til frægðar að núna seinna á árinu mun koma út endurgerð útgáfa af henni. Það má segja að þessi mynd hafi rúllað af stað sjónvarpshryllingsþáttunum sem voru mjög vinsælir á níunda áratugnum. “Tales from the Darkside” og “Tales from the Crypt” voru byggðar að nokkru leyti á þessari mynd. Bæði myndin og sjónvarpsseríurnar sóttu efnið sitt að mest öllu leyti í EC Comics teiknimyndablöðin frá fimmta áratugnum. Í “Creepshow” eru 5 smásögur sem eru bundnar saman með teiknimynd um strák sem er mikil aðdáandi “Creepshow” teiknimyndablaðanna.
Fyrsta sagan heitir “Father’s Day” og fjallar hún um dáinn pabba sem ákveður að koma upp úr gröfinni og hefna sína á þeim sem komu sér þangað. Ed Harris er frægasti leikarinn í þessari sögu. Þetta er ágæt saga til að byrja myndina. Öll atburðarásin er frekar hæg og mikið lagt í persónusköpunina. Í raun eins og í gömlu uppvakningarmyndum George A. Romero.
Önnur sagan heitir “The Lonesome Death of Jordy Verrill” og inniheldur hún snillinginn sjálfan Stephen King sem leikur frekar furðulegan sveitamann. Kvöld eitt hrapar loftseinn í garðinn hjá Jordy og fær hann þá furðulega hugmynd um að fara með steininn niður í bæ til að selja hann svo hann geti borgað upp 200 dollara afborgunina sína á sveitasetrinu. Þegar hann reynir svo að færa loftseinni brotnar hann og blár sjálýsandi vökvi lekur úr honum. Við það hleypti Jordy nýrri plágu á jörðina og fáum við að fylgjast með baráttu hans gegn þessari plágu. En þar sem kallinn er ekki svo gáfaður þá verður sú barátta frekar skrítin.
Þriðja sagan heitir “Something to Tide You Over” og leika Ted Danson og Leslie Nielsen aðalhlutverkin í þeirri sögu. Leslie Nielsen leikur öfundsjúkan eiginmann sem er ákveðinn að hefna sína á ótrúrri eiginkonunni sinni á ástmanni hennar (Ted Danson). Ég varð fyrir mestu vonbrygðunum með þessa sögu. Tveir topp leikarar í þessari sögu en hún nær einhvern veginn aldrei almennilegu flugi.
Fjórða sagan heitir “The Crate” og er þetta uppáhalds sagan mín. Þetta er klassík skrímslasaga um háskólaprófessor sem finnur einn daginn gamlan kassa frá 17. öld undir einum stiga í háskólanum sem hann kennir við. Hann fær húsvörðinn til að hjálpa sér við að opna kassann en það hefðu þeir betur látið ógert. Því inni í kassanum leynist mjög gamalt skrímsli sem nærist á mönnum og það er langt síðan það fékk seinast að borða. Þessi saga er sú langblóðugasta af þeim öllum.
Seinasta sagan heitir “They’re Creeping Up On You” og fjallar um pöddufælinn eiganda stórfyrirtækis sem hefur lokað sig inn í íbúð sinni á efstu hæð háhýsis og á í vandræðum með kakkalakkana hjá sér.
Allar þessar sögur eru í þessum klassíska ’80 hryllingsmynda fílingi þar sem menn beita óspart svörtum húmor með hryllinginum. Fyrst og fremst er einblínt á skemmtanagildið hérna og síður á gæðin. Sem er auðvitað það sem hryllingsmyndir snúast um. En þrátt fyrir þetta sjónarmið heppnast þessi mynd nokkuð vel. Allar sögurnar er vel skrifaðar og efnið þeirra kemst vel til skila. Bæði aðalplott smásagnanna og undirplottin fá að njóta sín.
Leikurinn er misgóður á milli sagna enda mikið af leikurum í myndinni. Minna þekktir leikarar standa sig þó mun betur en þeir sem frægir eru. Það getur vel verið vegna þess að maður gerir meiri kröfur til þeirra sem eru frægari. Brellur eru litlar sem engar í myndinni enda reyndir ekkert á þær. Þarna er ekki verið að reyna við eitthvað sem menn ráða ekki við. Einfaldleikinn er í fyrirrúmi. Mesta vinnan hefur líklega farið í uppvakninginn í fyrstu sögunni. En hann er ekki mjög ólíkur þeim uppvakningum sem Micheal Jackson notaði í Thriller (1983) myndbandinu sínu. Svo hefur góð vinna örugglega farið í að sprauta blóðinu um skólaganginn í fjórðu sögunni og eins í búningavinnunna á skrímslinu. En það er ekki meira en það.
Þrátt fyrir einfaldleikan þá kostaði þessi mynd 8 milljónir dollara í framleiðslu. En það kom allt til baka og gott betur og enn malar þessi mynd gull því hún er kominn á þennan fræga Cult stall. Ef menn eru að leita að góðri klassískri hryllingsmynd þá ættu menn að kíkja á þessa. Topp mynd sem færir manni flest allt sem hryllingsmyndir bjóða upp á. Fær ***/****
Helgi Pálsson