Leikstjóri: James Wan
Öðru hvoru kemur mynd sem skellir manni upp við vegg, slær mann utan undir og hrækir á mann. Ég sit dolfallinn eftir og reyni að hugsa um eitthvað annað. Þetta eru myndir sem maður gleymir seint, sem situr eftir í bakþönkunum langt frameftir. Myndir eins og The Mothman Prophecies(2002), Angel Heart(1987), Frailty(2001) og Saw(2004). Ég var búinn að fylgjast með þróun myndarinnar á hinum ýmsu vefsíðum en pældi mest lítið í því. Var meira að segja svo utan við mig að ég missti af henni í bíóhúsum en pantaði þá bara DVD diskinn í staðinn. Ég og frúin tilltum okkur og DTS rásin stillt í botn.
Sjaldan hef ég verið jafn gáttaður.
Saw fjallar um tvo einstaklinga sem ranka við sér í skítugum klefa, báðir hlekkjaðir við rör og engin leið að losa hlekkina. Brátt komast þeir að því að þeir eru leikmenn í tafli geðstola raðmorðingja kallaður “The Jigsaw Killer”. Þannig er það að annar þeirra hlekkjuðu, Lawrence Gordon, er læknir sem var grunaður um að vera morðinginn þangað til hann gat sannað sakleysi sitt. Dr. Gordon fékk þar innsýn inn í hug morðingjans af frásögn eina fórnarlambsins sem lifði af. Annar maðurinn þarf að myrða hinn til að komast lífs af. Ef ekki þá deyja þeir báðir ásamt fjölskyldu Dr. Gordon.
Ég vorkenni þeim sem sögðust hafa áttað sig á ráðgátunni um miðja mynd, ég gerði það ekki og skemmti mér þar af leiðandi konunglega. Saw inniheldur einhver þau grimmilegustu tæki og tól til drápa sem ég hef nokkurn tíman séð.
Rétt eins og gert var í The Texas Chainsaw Massacre(1974) eru blóðútshellingar eru í algjöru lágmarki en þess þarf ekki, ímyndun okkar er mun verri. Þetta er það sem virkar hvað best þar sem að ef ímyndaraflinu er gefið lausan tauminn þá verður myndin mun óhuggulegri en ef allt er sýnt.
Sagan er ekkert svakalega flókin, en hún virkar betur en ég bjóst við. Leikstjórinn upprennandi James Wan veit alveg hvað hann er að gera því myndin rennur ljúflega. Ég brosti breitt þegar ég sá að Cary Elwes leikur annað aðalhlutverkið því hann hefur verið á niðurleið undanfarið en stendur sig með prýði hér. Einnig er Leigh Whannell sem leikur hitt aðalhlutverkið ágætur en hann á kannski mest hrós skilið fyrir að hafa skrifað þessa mynd með James Wan.
Það er smá vottur af heimspeki í þessari mynd þegar eina manneskjan sem lifir “Jigsaw” af segir að hún sé þakklát fyrir að vera á lífi. Áður hafði hún verið dópisti og lifði fyrir ekkert nema vímuna. Eftir raunina snýr hún lífi sínu við til hins betra og gerist virkur meðlimur í samfélaginu. Kannski mætti þakka “Jigsaw” fyrir, að breyta og bjarga lífi fólks… sem lifir af. En þarna liggur vandinn, morð er aldrei réttlætanlegt. Maður þarf kannski að deyja til þess að læra að meta lífið.
Ég held að myndin virkar svona vel því þetta eru hlutir sem flestir geta tengt sig við, ekki það að allir lenda fyrir barðinu á morðingjum, heldur frekar hvað við gerðum ef að því kæmi. Saw fær mann til að hugsa hversu langt maður er til í að ganga til að halda lífi. Ég held að öll okkar myndu gera það sem gera þyrfti, eins og myndin sýnir svo vel.
Atli Freyr – 27/10/2005