Leikstjóri: Guillermo Del Toro
Myndir sem fjalla um draugagang þessa dagana einblína oftast á einhver bregðuatriði og að draugarnir sem eru til staðar séu sem ógeðslegastir og hreint út sagt bjánalegir. The Devil’s Backbone eða El Espinazo del Diablo er ekki eins og aðrar nýlegar draugamyndir, satt best að segja tekur hún allt sem gerir klassísku draugamyndirnar góðar og blandar því við tækni nútímans. Fullkomin blanda…
Myndin gerist á munaðarleysingjahæli á Spáni 1939, um lok borgarastríðsins. Carlos, 8-9 ára drengur, er skilinn þar eftir af lærimeistara sínum eftir að faðir hans deyr í stríðinu. Hælið stendur langt fyrir utan siðmenninguna, sem er kannski fyrir bestu meðan stríðið geisar. Staðurinn er þó ekki ósnortinn, því risastór sprengja er hálfgrafin í miðjum garðinum og minnir á að lífið er hverfult. Carmen og Prof. Casares sjá um menntunina og agann á staðnum og elska hvort annað á laun. Hælið hefur einnig nokkurs konar húsvörð, ungann mann sem heitir Jacinto, skíthæll af Guðs náð. Carlos festir ekki rætur á hælinu og er lagður í einelti þar til hann mætir draug ungs drengs sem hafði búið þarna þangað til eitthvað fór úrskeiðis, eitthvað sem Carlos reynir að komast að hvað er.
Prof. Casares og Carmen syrgja útkomu stríðsins og áhrif þess á umheiminn meðan þau reyna að leggja krökkunum lífsreglurnar. Börnin hafa litlar áhyggjur, nema helst af stöðu þeirra sjálfra meðal hvors annars og dunda sér við leikföngin sín á daginn en á næturna plágar draugurinn þau. Draugurinn, Santi, er jafn skelfilegur og hann er sorglegur því það eina sem hann sækist eftir er að rétta það sem var gert rangt á hans hlut í lifanda lífi. Þannig fylgjum við Carlos í baráttu sinni við að kljást við ráðgátuna, þess á milli sem mannlegir atburðir í hælinu hafa áhrif á framvindu hans og annarra.
The Devil’s Backbone er sorgarsaga, mætti jafnvel segja drama með hryllingsblöndu. Að mínu mati eiga draugamyndir einmitt að vera þannig en ekki eins og Thirteen Ghosts sem er einmitt gerð sama ár. Við finnum til með persónunum og finnum til þegar eitthvað kemur fyrir þær. Þannig er góð persónubygging sem því miður sést of sjaldan í þessum geira. Hollywood mætti læra aðeins af þessari mynd þegar kemur að því að gera hryllingsmyndir, einhvern veginn efa ég samt sem áður að það gerist.
The Devil’s Backbone er vel falinn gimsteinn. Því miður hefur hún ekki hlotið mikla viðurkenningu og vita fáir af henni. Þetta er meistaraverk í alla staði.
Atli Freyr - 26/10/2005