Leikstjóri: Jaume Collet-Serra
Dark Castle framleiðslufyrirtækið sem gerir ekkert annað en endurgerðir, reyndar eins og restin af Hollywood í dag, færir okkur enn eina hryllingsmyndina, House of Wax. Það má þó frekar afsaka Dark Castle fyrir endurgerðir sínar vegna þess að þeir sérhæfa sig í endurgerðum á hryllingsmyndum. House of Wax er frá 1953 og skartar Vincent Price í aðalhlutverki. Þessi endurgerð færir okkur ekki jafn mikinn meistara og Price, en þó höfum við hér Paris Hilton, sem margir hafa gaman af. Ég er ekki einn af þeim og reyndar ætla ég að nota tækifærið og segja að heimurinn væri betri staður ef manneskjur eins og hún væru ekki til staðar. Við fáum einnig að sjá hina prúðu Elisha Cuthbert sem við fengum okkur kannski fullsödd af í fyrstu fjóru seríunum af 24.
House of Wax fjallar um vinahóp á leið sinni á fótboltaleik þegar þau ákveða að taka hjáleið til að lenda ekki í umferðateppum. Þau ákveða að tjalda rétt við veginn þar sem klukkan er orðin margt. Ýmislegir furðulegir hlutir leiða þau að furðulegum bæ með enn furðulegri íbúum.
Myndin er leikstýrð af Jaume Collet-Serra sem hefur áður gert tónlistarmyndbönd skilar þessu ágætlega. Myndin gefurokkur nóg af blóði og viðbjóði sem er hið besta mál en aftur á móti er hún dálítið langdregin og stundum bíður maður eftir því að eitthvað gerist. Sem betur fer er ekki hvert atriði vírað til að láta manni bregða, sem ég er orðinn lang þreyttur á, heldur er unnið meira á spennu og andrúmslofti.
Venjulega brjálast ég þegar myndir sem mér þykir vænt um eru endurgerðar í eitthvað MTV rusl eins og er svo algengt. The Ring, Dawn of The Dead og The Haunting endurgerðirnar eru dæmi um myndir sem ætti að skella í gám ásamt framleiðendum þeirra og sökkva í sjóinn. Yfirleitt þegar ég heyri á endurgerð minnst þá er ég tárum næst. The Ladykillers, The Fly og The Thing eru góð dæmi um hvernig á að gera þetta ef þess er þörf á annað borð. House of Wax er í seinni flokknum, hún er ekki fullkomin en hún er ekki hræðileg.
House of Wax sýnir okkur ekkert nýtt en reynir það heldur ekki. Við vitum nákvæmlega hvað gerist næst en það skemmir ekki fyrir neinu. Ótrúlegt en satt þá tókst þessari mynd að fá mig til að setja upp svip vegna nokkurra atriða. Þau blóðugu atriði sem eru til staðar eru öll stórkostleg.
Ef ekki fyrir langdregna kafla þá hefði þetta verið stórkostlegt. Þetta er tæplega tveggja tíma mynd sem hefði betur verið klippt um hálftíma.
Atli Freyr - 26/10/2005