Útgáfuár: 2005
Handrit: Josh Olsen
Leikstjórn: David Cronenberg
Aðalhlutverk: Viggo Mortensen, Maria Bello, Ed Harris, William Hurt, Ashton Holmes og Peter MacNeill.
Sýningarstaðir: Regnboginn og Laugarásbíó.
Sýningartíma má nálgast á http://kvikmyndir.is/?v=bio.

Það nýjasta frá David Cronenberg er komin í kvikmyndahús hérlendis. Myndin segir frá Tom Stall (Mortensen), virtum fjölskylduföður í litlum bæ í Indiana. Allt virðist ganga honum og fjölskyldu hans í haginn og hann rekur veitingahús (diner) í bænum við góðan orðstír. Einn daginn eiga sér hins vegar stað örlagaríkir atburðir sem hafa áhrif á líf fjölskyldunnar allt eftir þá. Tveir blankir morðingjar labba inn á veitingahúsið til Toms og taka staðinn yfir með valdi. Tom drepur þá báða í sjálfsvörn. Eftir drápin skýtur hins vegar upp kollinum skuggalegum manni (Ed Harris) sem segist þekkja Tom og áhorfandinn kemst að því að ef til vill er Tom ekki allur þar sem hann er séður.

A History of Violence er að mínu mati mjög góð mynd. Hana má flokka sem ‘þrylli’ (thriller) en minnir um margt á Vestra; maður með hulda fortíð lifir í smábæ en allt í einu fer fortíðin að ásækja hann (minnir t.d. á söguþráðinn í Unforgiven). Handritið er mjög þétt og þetta Vestraþema í söguþræðinum samtvinnað með áhugaverðum persónum gera söguna mjög góða. Myndi býr einnig yfir sterkum boðskap um að ekki eru allir þar sem þeir sýnast og að þú getir ekki flúið fortíð þína.

Eins og titill myndarinnar gefur til kynna er talsvert um ofbeldi í myndinni en það er einmitt eitt af því sem gerir myndina að því sem hún er. Ég ætla ekki að ljúga því að ég hef gaman að því að sjá ofbeldi og ég efast ekki um að flestir aðrir séu á sama máli. Það góða við ofbeldið í A History of Violence er að það er mjög raunverulegt og velútfært. Aðstæðurnar þegar ofbeldið á sér stað eru líka alltaf á þann veginn að áhorfandinn styður ofbeldið með fullum hug enda er þessu yfirleitt stillt upp sem eins konar sjálfsvörn. Ofbeldið er samt stór hluti af söguþræðinum og nauðsynlegt til að skýra persónu Mortensens til fulls.

Viggo Mortensen er frábær í myndinni. Hann býr yfir ákveðnum þokka sem hjálpar honum að leika fjölskylduföðurinn Tom en honum tekst líka fullkomlega að túlka hina dekkri hlið Toms. Hann stendur sig líka frábærlega í bardagaatriðunum og á stóran þátt í að glæða þau raunveruleika. Ed Harris stendur fyrir sínu og Maria Bello einnig. Skemmtileg innkoma William Hurts skemmur heldur ekki fyrir. Tónlistin hjá Howard Shore hittir beint í mark; hún er þannig að maður tekur ekki eftir henni og er fullkomlega viðeigandi. Kvikmyndatakan er einnig mjög áhugaverð og flott.

Niðurstaða:
Mjög góð saga, góðir leikarar og ofbeldi notað á viðeigandi hátt gera þessa mynd að mjög góðum þrylli sem enginn ætti að missa af.

*** 1/2 / *****