Útgáfuár: 2005
Handrit: Judd Apatow og Steve Carell
Leikstjórn: Judd Apatow
Aðalhlutverk: Steve Carell, Catherine Keener, Paul Rudd, Romany Malco, Seth Rogen.
Sýningartíma má nálgast á http://kvikmyndir.is/?v=bio .

Frægðarstjarna Steve Carrels skín skært eins og stendur. Hann sló í gegn í Anchorman: The Legend of Ron Burgundy sem hinn yfirgengilega ójarðbundni og seinheppni Brick Tamland. Af því sem ég hef lesið hef ég tekið eftir að margir telja hann ásamt Paul Rudd, sem leikur einnig í myndinni, hluta af ‘Frat Pack’ genginu alræmda. Síðan er Carrel í aðalhlutverki í bandarískri endurgerð Office þáttanna bresku með Ricky Gervais. Í The 40 Year Old Virgin skín hann; myndin býður upp á týpu sem hann virðist tilfallinn til að leika.

The 40 Year Old Virgin fjallar um Andy Stitzer, 40 ára mann, týpískan ‘nörd’ sem safnar hasarfígúrum og spilar tölvuleiki meiri hluta frítíma síns. Hann vinnur í raftækjabúð en samskipti hans við vinnufélaga hans eru á grunnu stigi. Einn daginn komast hins vegar vinnufélagar hans að því að hann sé hreinn sveinn. Þeir gera það þá að sínu takmarki að sjá til þess að hann missi sveindóminn.

The 40 Year Old Virgin er afbragðsgrínmynd. Hún er ekki það sem Kaninn mundi kalla ‘totally hilarious’ en hún er fyndin. Hún er aðeins lágstemmdari en margar myndir, þ.e. býr yfir aðeins meira ‘subtle’ húmor en oft vill verða þegar fengist er við svona efni. Rómantíkin í myndinni gerir það líka að verkum að hún nær e.t.v. til breiðari hóps. Hún er ekki mynd sem þú liggur í hláturskasti yfir og mér fannst persónulega Wedding Crashers, sem kom út í sumar, fyndnari. The 40 Year Old Virgin á samt stórt hrós skilið fyrir eitthvað óvæntasta, sýrðasta og fyndnasta lokaatriði í langan tíma.

Niðurstaða:
Góð grínmynd sem aðdáendur Steve Carrels munu fíla vel.

*** / ***** .