Útgáfuár: 2005
Handrit: Róbert I. Douglas, Jón Atli Jónason
Leikstjórn: Róbert I. Douglas
Aðalhlutverk: Björn Hlynur Haraldsson, Lilja Nótt Þórarinsdóttir, Arnaldur Ernst, Helgi Björnsson, Þorsteinn Bachmann, Björk Jakobsdóttir.
Sýningarstaðir: Háskólabíó.
Strákarnir okkar fjallar um knattspyrnumanninn Óttar sem tilkynnir í byrjun myndarinnar við liðsfélaga sína í KR að hann sé samkynhneigður. Fréttunum er ekki tekið vel hvorki af fjölskyldu hans, liðsfélögum né stjórn KR og svo fer að hann er rekinn úr liðinu. Óttar byrjar þá að spila með Pride United í utandeildinni sem hefur verið stimplað ‘hommalið’. Myndin fjallar síðan um hvernig Óttar tekst á við eilífa andúð sem hann mætir vegna yfirlýsingarinnar og samskipti hans við fjölskylduna á þessum erfiðu tímum.
Ég hef blendnar tilfinningar um Strákana okkar. Handritið er ekkert hrikalega sterkt en býr yfir ágætisbröndurum á nokkrum stöðum og sérstaklega má nefna einkennilegt samband bróður Óttars, Orra, og kærustu hans en kannski er það orðið eilítið þreytt undir lokin. Einnig eru hárfín skot á ýmsa einstaklinga eða fyrirbæri í þjóðfélaginu sem eru endurnærandi. Ég verð bara virkilega að setja út á myndina í sambandi við ýmsa þætti tæknilegu hliðarinnar. Hljóðið í myndinni var ekkert til að hrópa húrra fyrir og stundum erfitt að ná því hvað leikararnir voru að segja. Myndatakan var einföld, lýsingin á köflum léleg og ég var nú eiginlega hissa að fókusinn var svolítið á reiki, allaveganna sérstaklega í einu atriði (minnir að það hafi verið á skemmtistaðnum úti á landi, þori þó ekki að lofa því). Hins vegar mega Mínus-menn og Barði Jóhansson eiga það að tónlistin er mjög góð og viðeigandi. Einnig standa leikararnir sig prýðilega, ég hef í raun lítið út á þá að setja.
Það var ákveðin spenna í mér fyrir myndina vegna þess að margir sem ég þekki léku aukahlutverk í henni. Ég bjóst ekki við miklu en samt finnst mér leiðinlegt hvað myndin býr yfir mörgum göllum. Hanritið er sundurlaust og endasleppt og ýmsir tæknilegir þættir hennir klikkuðu alveg.
Niðurstaða:
Ágætisgrínmynd sem hefur marga galla en er alveg áhorfsins virði.
** 1/2 - *** / ***** .