Útgáfuár: 2005
Handrit: Caspian Tredwell-Owen, Alex Kurtzman og Roberto Orci.
Leikstjórn: Michael Bay
Aðalhlutverk: Ewan McGregor, Scarlett Johansson, Djimon Honsou, Sean Bean og Steve Buscemi.
Sýningarstaðir: Sambíóin Álfabakka og Kringlunni, Háskólabíó og Nýja bíó Akureyri og Keflavík.
Sýningartímar má nálgast á slóðinni http://kvikmyndir.is/?v=bio.
Nýjasta myndin með hasarsérfræðingnum Michael Bay er komin út. Athygli vekur að þetta verkefni vinnur hann án samstarfsfélaga síns Jerrys Bruckheimer.
The Island gerist í framtíðarsamfélaginu þegar menn hafa uppgötvað tækni til að “klóna” fólk. Klónin lifa hins vegar utan hins raunverulega heism og vita í raun ekkert af honum. Klónin lifa á stofnun þar sem þeim er haldið í þeirri trú að faraldur hafi geisað um jörðina og að þau sé eftirlifendur hans. Þau yfirgefa þannig aldrei stofnunina og lifa innihaldslausu lífi. “Eyjan” svokallaða er tilgangur í lífi þeirra og það sem gefur þeim von. Klónunum er sagt að eyjan sé eina svæðið á jörðinni sem er ómengað og einu sinni í viku er haldið lottó þar sem vinningurinn er að fara á eyjuna til að stofna nýtt samfélag manna í hinum raunverulega heimi.
Ég hef sjaldan átt jafnerfitt með að gera upp við mig gæði kvikmyndar. Þessi mynd er í raun skipt í tvennt: innihaldsríkan vísindaskáldskap og poppkornsmynd að hætti Michael Bay. Michael Bay myndir eru fínar áhorfs en alls engar gæðakvikmyndir að mínu mati. Mér finnst í raun ekkert snilldarlegt við að keppast við að eyðileggja eins mikið og hægt er. Hasaratriðin geta verið fín hjá kappa en stundum ganga þau of langt. Ég er í rauninni orðinn frekar þreyttur á því að horfa á bílaeltingarleiki o.þ.h. í stíl Michaels Bay.
Þeir hlutar myndarinnar sem snúa að vísindaskáldskapnum eru að mínu mati frábærir. Umfjöllunarefnið stendur okkur líka nærri, því ein helsta viðleitni læknavísinda nútímans er einmitt klónun á manni. Nokkrar helstu spurningarnar sem myndin vekur hjá áhorfandanum eru:
*SPOILER*
Í myndinni stundar klónunarfyrirtækið það að drepa klónin til að koma “ábyrgðarmanni” þeirra til bjargar. Spurningin sem er velt upp er: Eru klónin eitthvað minni manneskjur en ábyrgðarmennirnir? Klónunarfyrirtækið lítur ekki á klónin sem lífverur, heldur aðeins sem “aukahluti”, ef svo má að orði komast, til að bjarga “alvöru” manneskjum frá dauða. Einnig er velt fyrir sér “see no evil, hear no evil”-þætti í eðli mannsins að vilja ekki vita af því slæma sem fer fram við framleiðslu einhverrar vöru sem maðurinn tekur samt mótþróalaust við. Þó að margir hafi eflaust litið á eftirfarandi setningu sem húmor segir hún mjög mikið:
“Just cause you wanna eat the burger, doesn't mean you wanna meet the cow.”
Svo kemur líka skemmtilegt skot á guðshugtakið í eftirfarandi setningu:
“You know when you really want something, you close your eyes and wish for it really hard? God is the guy that ignores you.”
*SPOILER ENDAR*
Myndin sem vísindaskáldskapur er nefnilega mjög innihaldsrík og góð. Hún vekur áhorfandann virkilega til umhugsunar. Þessi hluti myndarinnar er mjög velskrifaður og oft er boðskapnum komið á framfæri í hnyttnum og skemmtilegum frösum, eins og í þeim sem minnst er á innan *SPOILER*-hlutans.
Það hefði verið hægt að gera svo frábæra vísindaskáldskaparkvikmynd með þennan efnivið og hluta af þessu handriti. Hins vegar finnst mér Michael Bay - stíllinn svolítið hafa eyðilagt myndina. Ég þoli heldur ekki sum af ummælum hans sem ég sá í viðtali við hann um daginn. Þar sagði hann að honum þætti vísindaskáldskaparmyndir svo leiðinlegar að hann hafi viljað gera þessa mynd að poppkornssmelli. Ég er algjörlega á móti þeirri hugmynd að það þurfi að vera fullt af sprengingum og eyðileggingu til að myndir geti verið skemmtilegar. Mér finnst að í “The Island” hafi mjög fínum efnivið verið spillt af heilalausum poppkornshasar. Leikaraframmistöðurnar voru líka með afbrigðum. Þessi mynd í meðförum annars leikstjóra hefði örugglega komist í hóp bestu vísindaskáldskaparkvikmynda síðari ára. Hins vegar þurfti Michael Bay að setja klær sínar í myndina.
Lokaniðurstaða:
Hlutar myndarinnar eru gæðavísindaskáldskapur en höfundur er orðinn þreyttur á heilalausum poppkornshasar sem skemmir fínan efnivið. Einkennismerki Michaels Bay í myndinni dregur hana úr **** - **** 1/2 stjörnu mynd niður í
*** / ***** .