Útgáfuár: 1995
Handrit: David og Janet Peoples
Leikstjórn: Terry Gilliam
Aðahlutverk: Bruce Willis, Brad Pitt, Madeleine Stowe, Jon Seda.

12 monkeys er vísindaskáldskapur sem gerist árið 2035. Myndin gerist í heimi þar sem mannkynið hefur þurft að flytja undir yfirborðið til að lifa af. Um aldamótin 2000 dreifðist veira um heiminn sem varð 99% mannkyninu að bana og því er ekki lífvænt uppi á yfirborðinu. Mennirnir hafa þróað tímaflutningstækni og leita sífellt að upphafi veirunnar þ.a. þeir geti þróað mótefni eftir henni og flust búferlum aftur upp á yfirborðið. Það er þó aðeins tvennt sem þeir vita um hana: Hún komst í umferð árið 1996 og hún tengist einhvern veginn hinum dularfulla Her hinna 12 apa.

12 monkeys er í senn vísindaskáldskapur, þjóðfélagsádeila og fléttumynd. Hún tekur á ýmsum málefnum eins og hvernig sé að greina milli hinna heilu og veiku og neytendasamfélaginu sem við lifum í. Auk þess að vera ádeila fjallar 12 monkeys m.a. um tímaferðalög. Ég er stórhrifinn af handritinu; snilldarleg brenglun á tímaröð á sumum stöðum þar sem eiginleikar tímans eru kannaðir gerir þetta að háklassafléttu. Stór kostur við myndina er að allt sem búið er að byggja upp að er leyst í endann. Hún fellur ekki í þá gryfju að gefa endalaus hint sem koma svo ekki saman í lokin. Fyrir utan það er nánast hver einasta setning útpæld og felur í sér margs kyns falda ádeilu og falin hint sem gerir þetta að enn meiri snilld.

Leikframmistaðan er mjög góð í myndinni, Bruce Willis traustur og síðan sýnir Brad Pitt snilldarleik sem geðsjúklingur. Útlit myndarinnar er flott, hinn kaldi raunveruleiki árið 2035 kemur mjög vel út á skjánum. Auk þess er öll eftirvinnsla eins og klipping, myndataka og tónlist frábær. Mér finnst megintónlistarþemað í myndinni mjög vel heppnað. Í rauninni hef ég fátt út á 12 Monkeys að setja, hún er mjög sniðug og krefst stöðugrar athygli þinnar, sem ég lít á sem kost.

Lokaniðurstaða:
12 Monkeys er einstaklega velskrifuð mynd, öll tæknvinna góð sem og leikaraframmistöður.

**** / *****