Útgáfuár: 1996
Handrit: Steve Shagan og Ann Biderman
Leikstjórn: Gregory Hobbit
Aðalhlutverk: Richard Gere, Laura Linney, Edwart Norton, John Mahoney, Frances McDormand.
Primal Fear fjallar um lögfræðinginn Martin Vail, sem er hroka- og hégómafullur lögfræðingur. Í von um að nafn hans rati á forsíður blaðanna tekur hann á sig að verja Aaron Stampler (Norton), 19 ára altarisdreng sem er sakaður um að drepa erkibiskupinn Richard Rushman, sem er með valdamestu og elskuðustu borgurum borgarinnar (sem ég man ekki hver er í augnablikinu). Hins vegar kemur á daginn að Aaron er ekki allur sem hann er séður sem veltir málaferlunum um koll.
Primal Fear er það sem er kallað réttarsalardrama (e. court-room drama). Myndin hefur fínt handrit og hún er mjög skemmtileg áhorfs. Það er vissulega hægt að finna holur í söguþræðinum, eins og verður rætt um á eftir, en ekki samt þannig að myndin falli saman. Síðan skemmir ekki fyrir að flestallir leikararnir sýna fína frammistöðu. Ég er ekkert sérlega hrifinn af Gere en mér finnst hann þó standa sig vel sem hinn hrokafulli Vail. Edward Norton stelur þó senunni sem altarisdrengurinn og hefði myndin vissulega beðið hnekki ef rétti leikarinn hefði ekki verið fenginn til að leika Aaron. Það er í raun ótrúlegt að Norton geti sýnt slíka frammistöðu í fyrstu kvikmyndinni sinn og á hann lof skilið fyrir það.
*SPOILER*
EFtirfarandi efnisgrein inniheldur spoilera:
Fléttan í lok myndarinnar er mjög góð sem slík en opnar þó dyr fyrir margar spurningar. Aaron hlýtur að teljast snillingur að geta leikið tveimur skjöldum í einu á sannfærandi hátt og í raun verið puppetmaster yfir í eigin réttarhöldum. Mér finnst þá svolítið skrýtið að hann geri eins klaufalega villu og hann gerði þegar hann missti út úr sér vísbendinguna við Vail um að Aaron og Roy væru sama persónan. Einnig spyr maður sjálfan sig af hverju hann lét ná sér, af hverju hann leyfði prestinum að gera klámmyndina með honum, af hverju hann dró geðklofaspjaldið ekki fram fyrr en hann gerði o.s.frv. o.s.frv. Eflaust má þó réttlæta eitthvað af þessum göllum.
*SPOILER ENDAR*
Niðurstaða:
Primal Fear er góð réttarhaldamynd sem, þrátt fyrir galla í söguþræði, nær að halda áhorfandum við efnið og frammistaða Nortons ein gerir hana áhorfsins verða.
*** - ***1/2 / *****