Útgáfuár: 2005
Handrit: Robert Rodriguez og Frank Miller
Leikstjórn: Robert Rodriguez, Frank Miller og Quentin Tarantino
Aðalhlutverk: Mickey Rourke, Bruce Willis, Jessica Alba, Clive Owen, Rosario Dawson, Alexis Bledel.

Hin langþráða Sin City er loksins komin út og ekki hægt að segja að hún valdi vonbrigðum. Það sem er öðruvísi við þessa mynd byggða á teiknimyndasögu er sú að ekkert handrit var notað við gerð myndarinnar. Nær allar setningarnar eru beint upp úr blöðunum og atburðunum þar fylgt eftir mjög nákvæmlega. Hér er tölvutæknin notuð til fulls, því að leikararnir léku öll sín atriði fyrir framan blátjald (e. blue-screen) og umhverfinu var skeytt inn í með tölvuvinnslu. Síðan er einnig stór plús við myndina að Frank Miller sjálfur fékk að vera aðstoðarleikstjóri og þurfti Rodriguez m.a.s. að segja sig úr samtökum kvikmyndaleikstjóra (Directors' Guild of America) til að Miller gæti tekið þátt. Að lokum skaðar ekki að Quentin Tarantino kom að gerð myndarinnar.

Ef ég ætti að lýsa Sin City í einu orði yrði það að vera ofursvöl. Þótt að allar línurnar hafi verið teknar beint úr myndasögunum og atburðirnir líka er hægara sagt en gert að færa það yfir á hvíta tjaldið og láta söguna ekki tapa kúlinu. Það var svo mikið af línum í myndinni sem í rangra manna höndum hefðu getað gefið aulahroll og gjöreyðilagt myndina. En snilldin hjá Rodriguez er sú að honum tekst að skapa umhverfi þar sem þessar setningar eru ofursvalar en ekki ótrúlega hallærislegar.

Útlitslega séð er myndin einnig stórkostleg. Með því að nýta sér blátjaldstæknina býr Rodriguez til mjög flott, myndasögulegt umhverfi. Síðan er myndin að mestu leyti svarthvít nema valdir litir á völdum persónum eru sýndir. Þetta film-noir útlit sem Rodriguez valdi virkar frábærlega. Loks er myndatakan frábær og slow-motion er á öllu réttu stöðunum.

Rodriguez á þó ekki allan heiðurinn af meistaraverkinu heldur skila leikararnir hlutverki sínu líka snilldarlega. Í myndinni leikur einvalalið leikara sem nánast allir standa sig frábærlega. Mickey Rourke og Clive Owen stela þó senunni að mínu mati og karakterarnir sem þeir leika (Marv og Dwight) koma mjög svalir út. Raddbeitingin hjá karlleikurunum í sögumannshlutverkinu (e. narrator) er dimm og svöl, sem gerir myndinni mjög gott. Eini leikarinn sem mér finnst ekki standa fyrir sínu er Brittany Murphy. Hún fór eiginlega bara í taugarnar á mér.

Lokaniðurstaða:
Besta mynd sem ég hef séð gerð eftir myndasögu. Ofursvöl, útlitslega séð stórkostleg og með frábærum leikaraframmistöðum.

**** / *****