Napoleon Dynamite
Útgáfuár: 2004
Handrit: Jared Hess og Jerusha Hess
Leikstjórn: Jared Hess
Aðalhlutverk: Jon Heder, Jon Gries, Aaron Ruell, Efren Ramirez og Diedrich Bader

Napoleon Dynamite er mjög furðuleg kvikmynd. Hún hefur alveg fengið gríðarlegt hype í kringum sig vegna ótrúlegra vinsælda vestra. Ég verð að segja að ég skil það ekki alveg.

Ég og félagar mínir vorum úti á leigu og höfðum heyrt góða hluti um myndina og einn okkar hafði meira að segja séð hana og mælti með henni. Við tókum hana og biðum alla myndina eftir þessari sprenghlægilegu skemmtun sem við höfðum heyrt af.

Ef ég ætti að taka saman hvað myndin fjallaði um í grófum dráttum mundi ég ekki geta sagt mikið. Það er ekki að ástæðulausu því myndin fjallar ekki um neitt. Hún lýsir leiðinlegu lífi leiðinlegs fólks og verður alveg gríðarlega litlaus sjálf. Leikaraframmistaðan er heldur ekki upp á marga fiska. Að því sögðu á myndin sínar björtu hliðar; tónlistin er góð og á stöku stöðum er hægt að hlæja að nördaskapnum í persónunum. Ég held hins vegar að með þennan efnivið hefði mátt gera miklu betur. Auðvitað má velta fyrir sér hversu mikið af neikvæðri umsögn minni stafar af öllu hypeinu í kringum hana. Það er alls ekki gott að horfa á mynd eftir að hafa heyrt lofsyrði um hana. Hins vegar held ég að fleiri séu sammála mér þegar ég segi að þetta sé engin sérstök mynd.

Niðurstaða:
Frekar litlaus mynd en þó á hún sín góðu andartök. Fyrir það fær hún

** / ***** .