Útgáfuár: 2005
Handrit: Josh Friedman & David Koepp
Leikstjóri: Steven Spielberg
Aðalhlutverk: Tom Cruise, Justin Chatwin, Dakota Fanning, Tim Robbins og Miranda Otto.

War of the Worlds er byggð á samnefndri skáldsögu H.G. Wells frá 1898. Nóg er að horfa á útgáfuár skáldsögunnar til að sjá strax vandamálið við myndina. Í dag erum við miklu lengra komin í tækniþróun og hugmyndir sem gætu hafa talist framúrstefnulegar og sniðugar með eindæmum á tíma Wells geta verið tæpar í dag. Myndin vekur þúsundir spurninga en kvikmyndaáhorfandinn verður að gera sér grein fyrir að þegar umfjöllunarefnið er innrás utanúr geimnum verður alltaf hægt að finna holur í handritinu. Menn verða að gefa kvikmyndagerðarmönnunum svigrúm.

Að því sögðu getur maður ekki horft á myndina án nokkurar gagnrýninnar hugsunar. Myndin gerir mjög vel í því að halda fólkinu spenntu meðan við fylgjumst með föður, son og dóttur hlaupa undan geimverum. Tæknibrellurnar og hljóðið styðja það vel, bæði er með eindæmum gott. Kvikmyndatakan er einnig mjög góð.

*SPOILER*
Eftirfarandi efnisgrein inniheldur spoilera:

Þrátt fyrir að þetta sé góð spennumynd fellur myndin gjörsamlega saman í endann. Hér höfum við mannkynið, sem hefur orðið fyrir gríðarlegum hrakaföllum fyrstu 110 mínúturnar af myndinni og svo á síðustu 5 mínútunum snýst dæmið við. Mér finnst í raun hræðilegt hvað þetta er slæm redding . Auk þess er það allt of klisjukennt að sonurinn hafi lifað allar sprengingarnar af og komið sér til þeirra. Endirinn eyðilagði myndina gjörsamlega. Það var eins og H.G. Wells hafi verið nokkur ár að skrifa bókina og svo nennti hann ekki meiru þ.a. hann fann bara skyndileið til að enda söguna. Endir á kvikmynd er gríðarlega mikilvægur, sérstaklega verður svona endir, sem lýsir hvernig bugað mannkynið bera sigurorð af miklu tækniþróaðri geimverum, að vera góður og rökréttur. Mér finnst t.d. endirinn á Signs vera miklu betri.

*SPOILER ENDAR*

Tom Cruise stóð sig mjög vel í myndinni ásamt Dakota Fanning. Hins vegar er samband þessara tveggja persóna ruglandi. Auk þess eru nokkur augnablik í myndinni þar sem leikurinn virkar ósannfærandi en það er svo sem ekkert til að kvarta mikið yfir. Mér finnst svo persóna Tim Robbins í myndinni hafa verið allt of mikil svona klisjukennd patriot-“this is our land”-týpa.

Niðurstaða:
Allt í allt þá var þetta fín mynd framanaf, öll tæknihliðin unnin með prýði og í raun ekki hægt að kvarta mikið yfir leikurunum. Þó var endirinn svo hrikalegur að hann eyðilagði upplifunina algjörlega.

*** / *****