Batman Begins
Útgáfuár: 2005
Handrit: David S. Goyer og Christopher Nolan
Leikstjóri: Christopher Nolan
Aðalleikendur: Christian Bale, Liam Neeson, Katie Holmes, Gary Oldman, Morgan Freeman, Michael Caine, Cillian Murphy og Tom Wilkinson.
Nú hefur fimmta myndin um ofurhetjuna í Gotham-borg litið dagsins ljós. Að þessu sinni var Christopher Nolan (Memento) fenginn til að leikstýra handriti sem hann sjálfur skrifaði ásamt David S. Goyer (Dark City). Í stuttu máli verð ég að segja að útkoman er mjög góð. Batman Begins fjallar um forsöguna; hvernig hinn munaðarlausi Bruce Wayne varð að Batman. Í myndinni er því lýst hvernig hatur hans á glæpamönnum og hefndarþorsti rekur hann í að berjast gegn glæpum almennt.
Söguþráður myndarinnar er mjög góður og heldur áhorfandanum við efnið allan tímann. Ekki aðeins er sagan bakvið myndina góð heldur býður handritið sjálft vart upp á dauðan punkt í myndinni. Nolan fer þá leið að hafa Gotham-borg sem hluta af heiminum eins og við þekkjum hann í staðinn fyrir að draga upp súrrealískan myndasöguheim af Gothamborg. Þetta kemur mjög vel út þó að útlit myndarinnar sé allt öðruvísi en útlitið sem Tim Burton valdi. Fyrri hluti handritsins fjallar um hvernig Bruce Wayne verður Batman og seinni hlutinn um fyrsta málið sem Batman leysir. Ekki aðeins er aðdragandi tilurðar Batmans spennandi heldur er seinni hlutinn mjög sannfærandi og velskrifuð glæpasaga. Batman kemur einnig mjög vel út í öllum bardagaatriðum; það virkar sannfærandi að hann geti lúskrað á öllum þessum mönnum án þess að drepa.
Chritian Bale er sem sérhannaður fyrir hlutverkið og skilar mjög sannfærandi frammistöðu, ekki aðeins sem Bruce Wayne heldur einnig er hann ofursvalur sem Batman. Þó þarf Bale ekki að halda virkinu uppi einn því hann hefur bakvið sig einvalalið leikara. Vart þarf að minnast á Gary Oldman, Michael Caine, Liam Neeson og Morgan Freeman, sem eru allt klassaleikarar sem skila sínu og meiru í myndinni. Cillian Murphy er nánast óþekkjanlegur frá 28 Days Later og Katie Holmes stendur sig einnig vel.
Lokaniðurstaða:
Batman Begins er kvikmynd með skotheldum söguþræði, mjög sterkum leikaraframmistöðum og afbragðsleikstjórn.
**** / *****