Gothika
Leikstjóri: Mathieu Kassovitz.
Aðalhlutverk: Halle Berry, Robert Downey Jr., Charles S. Dutton, Bernard Hill, Penelope Cruz.
“Gothika” er nýjasta myndin framleidd af Dark Castle fyrirtækinu sem áður hefur gefið út myndir á borð við “The House on Haunted Hill”, “Thirteen Ghosts” og “Ghost Ship” - allt myndir sem eru tæknilega mjög vel gerðar, en frekar ómerkilegar sögulega og leikstjórnarlega séð. “Gothika”, líkt og forverar sínir, lítur frábærlega vel út - kem betur að því síðar - hefur heldur ómerkilega sögu og oft á tíð fáránlegt handrit, en það sem “Gothika” hefur framyfir hinar myndirnar er leikstjórinn Mathieu Kassovitz, sem er á góðri leið með að skapa sér nafn sem einn áhugaverðasti hryllingsmyndaleikstjóri samtímans.
Myndin segir í stuttu máli frá geðlækninum Miröndu Grey, sem Halle Berry leikur. Á leið heim úr vinnunni lendir Miranda í hálfgerðu slysi og þegar hún vaknar upp þá er hún stödd inni á geðsjúkrahælinu þar sem hún vann - sem sjúklingur.
Af hverju er hún talin geðveik? Hvað gerðist þetta kvöld? Skiptir það máli? Sjáið til, “Gothika” er mynd sem er algjörlega um uppbyggingu en alls ekki um úrlausn, eða eins og persóna Berry segir í lokin: “Fuck logic.” Þó svo þessi lína hefði ekki verið sögð, þá hefði það ekki skipt neinu máli fyrir mig: “Gothika” er ein af þessum myndum sem er bara yndislegt að horfa á - byggir upp ráðgátuna á skemmtilegan hátt, segir ekki of mikið en nógu mikið til að hægt sé að pæla í hinu og þessu - og jafnvel þegar hún fer að verða gífurlega ótrúverðug, þá tekur maður því bara með jafnaðargeði og myndin verður bara skemmtilegri fyrir vikið. Það að þessi lína sé sögð segir mér bara það að allir sem tóku þátt í gerð myndarinnar eru á sömu nótum og ég og að ég sé ekki að ofmeta myndina. Fuck logic!
Ef fólk ætlar að fara að kvarta yfir því að þessi mynd sé fáránleg, heimskuleg og ótrúverðug, þá er lítið sem ég get sagt við því, vegna þess að þetta er allt satt. En “Gothika” skipar sér sess með svipuðum fáránlegum hryllingsmyndum á borð við “Dressed to Kill”, “Tenebrae” eða “The Crimson Rivers”, sem Kassovitz gerði líka. Þetta er sú tegund af kvikmyndum sem ég elska hvað mest: dularfullar mysteríur sem meika eiginlega ekkert sense þegar öllu er á botninn hvolft. Ég meina, ef þið getið trúað því að Michael Caine hafi verið morðóð kona, ástæðu morðingjans í “Tenebrae” eða plottinu í “Crimson Rivers”, þá getið þið trúað öllu sem gerist í Gothiku.
Það eru í raun ekki handrit þessara mynda sem gera þær eitthvað merkilegar heldur leikstjórarnir. Handritin eru yfirleitt formúlu-og klisjukennd og í röngum höndum uppskriftir að hörmulegum myndum. Leikstjórarnir hins vegar (DePalma, Argento og Kassovitz af þessum ofantöldu) ná einhvern veginn að hefja efniviðinn yfir á æðra stig svo myndirnar fá ekki bara stíl heldur líka einhverskonar elegans og alvarlegleika. Það þarf líka mikið hugrekki til að geta tekið handrit að mynd eins og “Gothika” og taka það upp á alvarlegan hátt, því guð veit að það er hægt að gera mikið grín að henni. Alveg frá fyrstu atriðum myndarinnar nær Kassovitz taumhaldi á áhorfendum - myndin er virkilega óaðfinnanlega tekin upp og þá meina ég ekki bara flott, heldur er hún listræn á köflum. Kassovitz heldur góðu andrúmslofti allan sýningartímann og nær að skapa nokkur virkilega spennandi og spúkí atriði. Virkilega góð “showcase”-mynd fyrir hann, enda var henni líklegast ekki ætlað að vera meira.
Annað sem heldur þessari mynd á floti er aðalleikkonan, hún Halle Berry. Það er skemmtilegt að hún skuli ekki líta á sig sem yfir þessa tegund mynda hafna, því það er ekki oft sem stórstjörnur (sem eru nýbúnar að vinna óskar, nb) leika í hryllingsmyndum. Berry er bæði trúverðug og skemmtileg í hlutverkinu og ég var virkilega hrifinn af henni. Go go Berry! Robert Downey Jr. er líka góður og restin af leikurunum stendur sig með vel þótt enginn sé neitt sérstaklega eftirtektarverður.
“Gothika” á örugglega eftir að verða nokkuð vinsæl hér á landi og á án efa einnig eftir að verða ein af þessum myndum sem eru í tísku að hata. Ég bið fólk einfaldlega um að hafa það í huga að “Gothika” er alls ekki góð mynd, en hún er gerð eins og hún sé meistaraverk, sem er nokkuð gott þegar kemur að þessari tegund mynda. Ef þið fíluðuð “What Lies Beneath” þá ættuð þið að fíla “Gothiku” og ef þið eruð eins og ég, aðdáendur heimskulegra stílbragðahrollvekja eins og Dressed to Kill, þá ættuð þið að kíkja á þessa.