The Texas Chainsaw Massacre
Aðalhlutverk: Jessica Biel, Jonathan Tucker, R. Lee Ermey, Andrew Bryniarksi.
Það var með mikilli eftirvæntingu sem ég fór að sjá endugerðinna af einni af mínum uppáhaldshrollvekjum, The Texas Chain Saw Massacre. Í allri sanngirni verð ég þó að viðurkenna það að þegar ég heyrði fyrst af því að þessi mynd yrði gerð þá átti ég ekki von á góðu. Reyndar átti ég von á einhverju hryllilegu: Leikstjórinn ferskur úr tónlistarbransanum, framleiðandinn Michael Bay einn af stórglæpamönnum nútímakvikmyndagerðar og leikararnir allir meira og minna óþekktir, en svaka sætir. Það eina sem gaf mér einhverja von var að kvikmyndatökumaðurinn var Daniel Pearl sem tók einmitt upp upprunalegu myndina.
Það var ekki fyrr en ég sá trailerinn fyrir myndina sem ég fór að hlakka til að sjá endurgerðina. Trailerinn, vægast sagt, leit virkilega vel út. Myndatakan sérstaklega flott. Svo fór krítíkin frá Ameríkunni að streyma inn og þeir tveir aðilar sem mér finnst hvað skemmtilegast að lesa, Harry Knowles og Roger Ebert, virtust gjörsamlega ósammála um gæði myndarinnar. Knowles fannst myndin æðisleg, kallaði kvikmyndatökuna listræna o.s.frv. á meðan Ebert gaf myndinni núll stjörnur og sagði að enginn ætti að sjá hana … einhverra hluta vegna ákvað ég að treysta frekar Harry Knowles, enda er Ebert ekki beint hryllingsmyndaaðdáandi á sama level og ég, en Knowles er annálaður aðdáandi allra kvikmyndategunda.
Raunin var svo sú að hvorugur hafði rétt fyrir sér. Upprunalega TCM er einstök mynd að öllu leyti. Endurgerðin er ekki einstök fyrir fimmaur. Reyndar sá ég hana fyrr í ár en þá hét hún WRONG TURN og var reyndar miklu skemmtilegri og tók sig ekki nærri því jafnalvarlega og þessi auma, auma endurgerð.
Fyrir utan myndatökuna, sem er alveg mögnuð (og vísar skemmtilega í gömlu myndina) og næstum því þess virði að borga sig inn á myndina, er nýja Chainsaw myndin eins mikil formúla og unglingahryllingsmyndir síðustu ára, sem er alveg skelfilega fúlt. Á meðan upprunalega myndin er gróf, ruddaleg, óvænt og hrikalega intense þá er nýja myndin útlitsfalleg, ámóta ruddaleg og Scream, fyrirsjáanleg og aldrei spennandi. Hún er líka stútfull af bregðuatriðum. Mér hefur alltaf fundist að bregðuatriði séu góð til síns brúks á meðan það sé spenna byggð upp fyrir eða eftir þau. Gott bregðuatriði er mest spennandi eftir að bregðið er búið. Bregðuatriðin fjölmörgu í nýju TCM-myndinni eiga það öll sameiginlegt að það fylgir þeim nákvæmlega engin spenna - eða amk deyr spennan út skömmu eftir bregðið. Marcus Nispel, leikstjórinn, á því margt eftir ólært í gerð hryllingsmynda þó svo hann hafi útlitið og ógeðið á hreinu.
Og talandi um ógeðið. Miðað við gagnrýni Eberts bjóst ég við því að fólk yrði ælandi um alla ganga á meðan myndinni stæði. En aftur nei. Jújú, það er svosem eitt og eitt virkilega áhrifaríkt “ojjjjj”-atriði, en það virkar líka á mann þannig: augljóslega þarna til þess að vera “ojjjj”-atriði og gerir lítið annað en að draga athygli okkar frá sögunni og að sjálfu sér. Ef þið hafið séð upprunulegu myndina munið þið kannski eftir einu af fyrstu ofbeldisatriðunum þegar Leatherface hengir eina stelpuna upp á kjötkrók á meðan hann sagar kærastann hennar í bita. Þó svo við sjáum mjög lítið hvað er að gerast, grafískt séð, er það atriði miklu, miklu ógeðfelldara en nokkuð atriði í nýju myndinni því í gömlu myndinni fundum við fyrir sársauka og angist stúlkunnar. Það er allt svo ótrúlega gervilegt í nýju myndinni að það er ekki hægt að finna til með persónunum, þó svo bæði Jessica Biel og R. Lee Ermey standi sig mjög vel í sínum hlutverkum.
Myndin má þó eiga það að fyrstu 15-20 mínúturnar fær hún mann til að halda það að hún eigi eftir að verða ámóta gróf og óvænt og forverinn, ef ekki meira. Fyrsta sjokkið fær maður snemma í myndinni og var það svo óvænt að það fór strax að hlakka í mér enda bjóst ég við því að myndin myndi halda áfram á sama róli. Næsta sjokk er ekki alveg jafnstórt og það fyrsta, en samt nokkuð áhrifamikið, en eftir það er myndin eins fyrirsjáanleg og hægt er.
Kannski er helsti galli þessarar endurgerðar sá að miðað við að hún er endurgerð af ofsalega sérstakri mynd, þá er hún bara ofsalega óspennandi og alls ekkert sérstök. Að kvikmyndagerðarmönnunum hafi ekki dottið meira spennandi saga í hug er eiginlega óskiljanlegt. Og fyrir þá sem þola ekki endurgerðir þá á þessi hollywoodíseríng eftir að fara mikið í taugarnar á ykkur - allt frá Blair-Witch opnunaratriðinu og til set-piece climaxins í sláturverksmiðjunni. Einstaklega leiðinleg mynd.
* * stjörnur (af 5)