Cannibal Holocaust (1979) Leikstjóri: Ruggero Deodato.
Handrit: Gianfranco Clerici.
Leikarar: Robert Kerman, Francesca Ciardi, Perry Pirkanen, Luca Barbareschi…etc.


Sagan: Kvikmyndagerðarmenn ferðast um Amazon frumskógana í leit að mannætum, leitarflokkur er sendur á eftir þeim og finnast þá upptökur þeirra.

Bönnuð í 61 landi, hef nú heyrt ýmsar tölur um þetta bann mál en eitt er víst; Cannibal Holocaust er bönnuð þar sem hún er ekki klipt í ræmur. Alræmd mynd fyrir gróft ofbeldi, svo ekki sé minnst á ofbeldi gegn dýrum. Jafnvel nú eftir tilkomu DVD mynddiskana þá er erfitt að ná í þessa mynd í óklipptu formi, það þarf að kaupa hana af dimmu hliðum netsins ef þú vilt fá hana ósnerta.

Dýraverndarsamtök fengu kast þegar myndin kom út árið 1979 og var leikstjórinn ítalski Ruggero Deodato ákærður og fékk að borga skaðabætur fyrir misþyrmingu sína á dýrum í myndinni. Síðan þá hefur hún skapað margar goðsagnir, þar á meðal að fólk er drepið í alvöru í myndinni og þar fram eftir götunum. Auðvitað er ekkert af því satt, en varð þetta nóg til þess að hryllingsmyndaaðdáendur sóttust eftir þessari mynd eins og földum fjársjóði.

Það var akkurrat þessi mynd sem gaf Daniel Myrick og Eduardo Sánchez hugmynd sína af The Blair Witch Project sem kom út árið 1999 og sköpuðust svipaðar goðsagnir um hana. Þeim sem fannst The Blair Witch Project vera svakalega góð og frumleg hugmynd ættu að kíkja á Cannibal Holocaust því þaðan er þetta allt fengið.

Cannibal Holocaust segir frá kvikmyndatökuhópi sem samanstendur af fjórum ungmennum. Þau ferðast í Amazon frumskógana í leit að mannætum sem eru sagðar vera þar. Ekkert heyrist frá þeim í lengri tíma og fer professor nokkur í leit að þeim. Smátt og smátt kemst hann á sporið og finnur loks filmur með upptökum þeirra. Hann heldur aftur til baka til New York þar sem unnið er úr filmunni.
Hann kemst þá að því hvað varð um ungmennin og af hverju. Í grimmum verkum þeirra til að öðlast frægð og frama spurjum við okkur hver eru virkilegu villimennirnir, við eða mannæturnar?

Skemmtilega raunverulegur blær er yfir allri myndinni og eru sumar persónurnar heldur betur skemmtilega útfærðar.

Kvikmyndatakan er virkilega góð miðað við aðstæður þar sem þetta er allt tekið upp í frumskóginum. Leikstjórnin er sérstök og góð, virkilega mikið blóðbað hér.

Dýradrápin eru sum virkilega truflandi og gjörsamlega óþarfi fyrir myndina. Ef maður lítur framhjá þeim er hér á ferð virkilega góð mynd sem fær mann til að hugsa, hvað gengur maður langt fyrir frægðina?
Mynd fyrir ‘gore’ sjúklinga og fólk sem er opið fyrir als konar myndum, ekki fyrir þá með veika maga. Hægt er að fá hræðilega klippta útgáfu hér á landi.

***

Azmodan - 07/04/2003