THE MOTHMAN PROPHECIES
Leikstjóri: Mark Pellington
Aðalhlutverk: Richard Gere, Laura Linney, Will Patton, Debra Messing, Lucinda Jenney, Alan Bates.
Stundum koma út kvikmyndir sem þrátt fyrir ótvíræð gæði týnast einfaldlega í flórunni og margar þeirra finnast hreinlega ekki aftur. Þetta gerist ekki ósjaldan í hryllingsmyndageiranum, enda er megnið af myndunum sem þaðan kemur litið hornauga hvort eð er svo þegar út kemur virkilega góð hryllingsmynd eru líkurnar á því að almenningjur fái að sjá hana ekki miklar nema henni sé dreift af einu af stóru fyrirtækjunum. Og við vitum öll að bestu hryllingsmyndirnar koma yfirleitt ekki lengur þaðan.
Fyrir rúmu ári eða svo kom út frábær hrollvekja sem fékk reyndar sýningu í kvikmyndahúsum borgarinnar þrátt fyrir dræma aðsókn vestra. The Mothman Prophecies hét hún og titillinn einn útskýrir óvinsældirnar. Ég man eftir því þegar ég heyrði fyrst af þessari mynd: ég missti umsvifalaust áhuga ekki bara titilsins vegna, heldur vegna þess að hún var (gasp!) byggð á sönnum atburðum. Þó svo margar góðar myndir hafi verið byggðar á sönnum atburðum (og merkilega margar og góðar hryllingsmyndir) þá sé ég alltaf fyrir mér e-ar sunnudagssápuóperuleikkonumyndir fyrir mér þegar ég heyri á þær minnst. “Byggt á sönnum atburðum” hefur þess vegna aldrei kveikt í mér og á eflaust aldrei eftir að gera það. Í mínum augum var það bara síðasti naglinn í líkkistuna fyrir Mothman að Richard Gere lék aðalhlutverkið, en þá var hann ekki búinn að gera 2002-2003 comebackið sitt með Chicago og Unfaithful (og jafnvel Mothman). Ég hafði semsagt nákvæmlega engan áhuga á myndinni. Punktur.
Sem betur fer breyttist það. Ég þakka guði. Einhverra hluta vegna tók ég síðar eftir því að myndinni var leikstýrt af Mark Pellington sem hafði gert hina frábæru Arlington Road hérna um árið. Arlington Road er mynd sem ég hef persónulega alltaf litið á sem hrollvekju. Hún er kannski ekki blóðug og inniheldur engan brjálaðan morðingja, en líkt og góð hrollvekja spilar hún á alla ótta manns eins og sinfóníuhljómsveit. Þ.e. sinfóníuhljómsveit að spila Cappriccio Espagnole eftir Rimsky-Korsakoff eins og endirinn sannaði. Sjaldan, ef aldrei, hafði ein mynd komið mér jafnmikið á óvart og Arlington Road. Ég vissi nákvæmlega ekkert um hana fyrirfram en gekk út af henni sem nýbakaður aðdáandi Pellingtons. Ég skuldaði honum áhorf á Mothman fyrir að hafa gefið mér Arlington.
Því minna sagt um Mothman því betra, en í stuttu máli segir myndin frá því þegar Richard Gere keyrir inn í smábæ sem hann ætlaði sér alls ekki að heimsækja og er um leið flæktur í atburði sem eru næsta óskiljanlegir þar til í lokin. Og fyrir þá sem þola ekki myndir þar sem allt er bundið saman í stóran, þægilegan hnút í lokin, þá eigið þið eftir að elska The Mothman Prophecies því hún er svo full af smáatriðum og troðin af upplýsingum sem hægt er að túlka á mismunandi vegu að eitt áhorf er engan veginn nóg. Fyrir utan það er myndin algjört augnakonfekt útlitslega séð, inniheldur bestu notkun á tæknibrellum sem ég hef séð lengi, er óaðfinnanlega leikin af öllum leikurum og óendanlega óhugnaleg.
Ójá, hún er svo sannarlega óhugnaleg. Ég leyfi mér að fullyrða það að aldrei hefur mér liðið jafnilla á nokkurri kvikmynd í bíói og á The Mothman Prophecies. Það er atriði svona fimm mínútur inn í myndina þar sem maður fær hrikalega gæsahúð og ég er að segja ykkur að hún HELST ÚT ALLA MYNDINA! Ég var með gæsahúð bókstaflega allan sýningartímann, einhverja tvo tíma. Ég get ómögulega lýst því hversu ótrúlega vel þessi mynd virkaði á mig og alla þá sem sáu hana með mér. Ég ætla ekki að lýsa því yfir að þetta sé “besta” hryllingsmynd sem ég hef séð og alls ekki að halda því fram að hún sé “besta” eitthvað, en fyrir mig persónulega … segjum bara að ég hef aldrei upplifað aðra eins tilfinningu á kvikmynd. Og flestar aðrar hrollvekjur sem ég hef séð síðan falla í skuggan af Mothman. Jú, og svo held ég líka að ég hafi fengið vægt hjartaáfall í einu atriðinu, en ég vil ekki segja meira um það.
Heiðurinn af öllu þessu lofi á Mark Pellington. Ef einhver var í vafa um getu hans eftir Arlington Road þá sannar The Mothman Prophecies að hér er á ferðinni einn af áhugaverðustu leikstjórum komandi kynslóða. Gleymið M. Night Shyamalan, David Fincher, Paul Thomas Anderson og Christopher Nolan sem eru of uppteknir við ástarsamböndin við sjálfa sig. Þeir leikstjórar sem við ættum - og þurfum - að taka eftir á komandi árum eru nafnarnir Mark Pellington og Mark Romanek (One Hour Photo) (jú og svo líka Darren Aronofsky, Julie Taymor, Spike Jonze, kannski Gore Verbinski og svo ætla ég persónulega að fylgjast með Tarsem Singh). Þeir kunna sitt fag, týna sér ekki í sjónrænum orgíum og eru ekki að deyja úr tilgerð og egói. Pellington hefur hér samansett eina áhrifamestu og, sjónrænt séð, flóknustu kvikmynd síðari ára. Bókstaflega hvert einasta skot er troðfullt af tilgangi og er klippingin óaðfinnanleg. Pellington notast einnig mikið við hljóðbrellur sem eru svo áhrifaríkar að þær verða næstum því að sér-karakter. Skemmtilegast þótti mér samt að Pellington er alls ekki hræddur við að fara út í súrrealisma, sem hann gerir oft og gerir vel. Hann notar drauma og súrrealísk-flashböck í gegnum myndina sem skapa virkilega óþægilegt andrúmsloft. Ætli það sé ekki hægt að segja að Mothman sé svolítið eins og ef David Lynch myndi leikstýra X-Files þætti!
Leikrænt séð er Mothman einnig óaðfinnanleg. Richard Gere hefur líklegast aldrei verið betri (ath. að ég hef því miður ekki ennþá séð Chicago) og neglir niður ofsóknaræðið og stigvaxandi óvissuna/geðveikina sem persóna hans gengur í gegnum. Í mun minna en alls ekki mikilvægara hlutverki er Laura Linney. Ég held að Laura Linney sé orðin að uppáhaldsleikkonunni minni. Þeir sem hafa ekki ennþá séð You Can Count on Me eru að gera sér stóran grikk því ég varð gjörsamlega ástfanginn af henni þar. Eins og ég segi, þá hefur hún minna að gera í Mothman en hún færir persónu sína yfir á æðra stig. Í síðri höndum hefði Connie verið leiðinleg stereótýpa, en Laura breytir henni í manneskju. Debra Messing kemur mest á óvart í sínu hlutverki og sannar það fyrir fullt og allt að hún er ekki bara góð gamanleikkona heldur getur tekist á við mun meira krefjandi og dramatískari hlutverk. Will Patton, Alan Bates og Lucinda Jenney betrumbæta myndina ennþá meira.
Eins og þið sjáið þá er ég búinn að lofa myndina í hæstu himna en hef ekkert minnst á gallana. Ég meina, það hlýtur að vera einhver ástæða fyrir því að þessi mynd er nánast óþekkt! Eða hvað? Það eina sem ég get sagt er að hún var illa markaðssett og höfðaði ekki til almennings. Flest neikvæða gagnrýnin sem ég hef lesið um myndina (og af henni er nóg að taka) setur út á handritið og þá staðreynd að myndin er oft á tíð óskiljanleg og órökrétt. Kjaftæði! Þetta kemur frá amerískum gagnrýnendum sem eru orðnir heiladauðir eftir að verið mataðir á upplýsingum frá meirihluta draslins sem kemur út í Hollywood. Það að myndin gefi okkur ekki öll svörin á silfurfati merkir ekki endilega að svörin séu ekki til staðar. Pellington hefur fyllt myndina með vísbendingum sem ættu að geta svarað öllum helstu spurningum ykkar þegar myndinni er lokið, og ef það er ekki nóg þá erum við öll með heila sem ætti að geta fyllt í eyðurnar. Er það ekki líka það skemmtilegasta við að fara í bíó: að sjá mynd sem vekur mann til umhugsunar?
Ég get ómögulega mælt nógu mikið með The Mothman Prophecies. Hún er meistaraverk af bestu gerð, stórkostleg kvikmynd í alla staði. Það er glæpur að hún er ekki vinsælli og þekktari og raun ber vitni en ég get alltaf huggað mig við það að ófáar klassískar cult-myndir voru það líka til að byrja með (og ef einhver mynd á skilið að verða cult-klassík af þeim sem hafa komið út að undanförnu, þá er það þessi). Ef ykkur fannst eitthvað varið í Arlington Road þá þurfið þið að sjá þessa mynd því hún er eins og mögnuð útgáfa af henni (meira að segja með stórkostlegri endalokum!) Gerið ykkur glaðan dag og sjáið þessa frábæru mynd!