FINAL DESTINATION 2 (2003)
Leikstjóri: David R. Ellis
Aðalhlutverk: Ali Larter, AJ Cook, Michael Landes og Tony Todd.
Í kjölfar Scream-myndanna kom út heill hellingur af misgóðum eftirhermumyndum sem allar innihéldu fríðan hóp ungra, óþekktra leikara sem voru flestir myrtir á einn eða annan máta af geðveikum fjöldamorðingja. Ein af betri eftirhermunum var Final Destination sem ákvað að kasta burt millimanninum, þ.e. morðingjanum, og nota dauðann (afsakið, Dauðann) sem ill“menni” myndarinnar. Hugmyndin var mjög góð og megnið af myndinni var í takt við hugmyndina: hún var nægilega gáfuleg til að heilla gagnrýnendur og nægilega blóðug og skemmtileg til að heilla hópinn sem hún höfðaði til. Það eina sem pirraði mig við myndina voru leikararnir sem voru hver öðrum meira pirrandi. Devon Sawa kann einfaldlega hvorki að tala né leika og mjög litlu betri voru Seann William Scott og Kerr Smith. Sem betur fer voru kvenleikararnir þeim mun betri, þá sérstaklega Ali Larter og er það merki um óhjákvæmilega betrumbætingu í framhaldinu að aðeins hún, en ekki Sawa, hefur snúið aftur.
Ef leikaravalið er að a.m.k. einhverju leyti betrumbætt í Final Destination 2, þá er ýmislegt annað sem hinir nýju kvikmyndargerðarmenn hafa gert betur en James Wong og Glen Morgan gerðu í fyrri myndinni. Reyndar er eini gallinn við FD2 (og hann er nokkuð stór) handritið sem er einfaldlega hundlélegt. Söguþráðurinn úr fyrstu myndinni er hérna endurunninn en í stað þess að gera meira úr honum er í raun gert minna úr honum. En ég er farinn fram úr sjálfum mér … ok, söguþráðurinn hljómar einhvern veginn svona:
Kimberly (AJ Cook) er á leið í ferðalag með vinum sínum þegar hún fær skelfilega sýn - hún sér hvar hún, vinir hennar og margir aðrir lenda í hrikalegu bílslysi. Sem betur fer verður hún svo sjokkeruð á sýninni að hún neitar staðfastlega að keyra áfram og verður þar af leiðandi til þess að allt fólkið sem hún sá deyja í sýn sinni lifir af þegar raunverulega slysið á sér stað nokkrum andartökum síðar. Og líkt og í fyrri myndinni fer restin í það að losa sig við þessar persónur á sem skemmtilegastan máta.
Ólíkt fyrri myndinni er leikaraliðið ekki allt á aldrinum 18-22 sem gerir myndina aðeins meira þolanlegri (það er ótrúlegt hversu LÉLEGIR þessir unglingaleikarar geta verið - Shannon Elizabeth í 13 Ghosts? Guð …). Á sama tíma og unglingarnir eru að miklu leyti klipptir út þá er líka búið að klippa burtu drungann og dimmuna úr fyrri myndinni. FD2 er frekar björt miðað við forverann (enda voru það fyrrverandi X-Filesgerðarmenn sem stóðu fyrir henni) og eyðir engri orku í að byggja upp spennu, enda snýst myndin ekki um það. Við vitum að flestar þessar persónur eiga eftir að deyja, svo leikstjórinn, David R. Ellis, hefur ákveðið að spila á húmorinn frekar en spennuna. Dauðaatriðin í þessari mynd eru öll meira og minna sjokkerandi og koma mikið á óvart, en maður hlær dátt að þeim eftir á. FD2 er fyrsta post-Scream eftirherman sem tekur sig aldrei alvarlega og inniheldur nóg af blóði og ógeði til að fá þesskonar aðdáendur í gott skap. Hinsvegar er stór galli hér á: með því að klippa út spennuna og fókusa nær eingöngu á húmorinn er FD2 orðin að litlu öðru en samhangandi atriðum þar sem persónurnar deyja á fáránlegan hátt. Það er gjörsamlega enginn söguþráður í þessari mynd: allar samræður og allar gjörðir persónanna þjóna þeim eina tilgangi að koma næsta fórnarlambi á viðeigandi stað svo hægt sé að koma því fyrir kattarnef. Það eru tvær, þrjár tilraunir gerðar til að færa rök fyrir öllu saman og einhvern tímann hefur verið einhverskonar saga þarna inní, en hún er gjörsamlega horfin núna.
Í upprunalegu Final Destination myndinni snerist mikill hluti myndarinnar um það að 1) Komast að því hvað var í gangi og 2) komast að því hvað væri hægt að gera til að stöðva það. Í FD2 vitum við frá byrjun hvað er í gangi og spurningunni um hvað er hægt að gera er svarað mjög snemma. Eftir það er gjörsamlega engin saga þannig séð, bara dauði á dauða ofan. Og ég er hér til að segja ykkur að það er ekki endilega slæmt. Að skrifa gagnrýni um mynd eins og Final Destination 2 er hrikalega erfitt þar sem skoðanir mínar á henni eru miklar þversagnir: hér er á ferðinni ofsalega skemmtileg mynd sem er á sama tíma ofsalega léleg. Ef þið getið látið blóðsúthellingar, búnar til af mikilli sköpunargáfu, í 90 mínútur skemmta ykkur, þá mæli ég eindregið með Final Destination 2. Hinir, sem eru að leita að söguþræði, góðum leik, og almennum gæðum ættu að hugsa sig tvisvar um.
En bílslysið í byrjuninni er ÓTRÚLEGA flott og 800 kallsins virði eitt og sér.