SHOCKER (1989)
Aðalhlutverk: Peter Berg, Mitch Pileggi, Cami Cooper, Michael Murphy.
Leikstjóri: Wes Craven.
Shocker kom út á því tímabili sem Wes Craven var ekki beint að gera sín bestu verk. Kom á eftir hinni áhugaverðu en frekar mislukkuðu The Serpent and the Rainbow og á undan People Under the Stairs sem var ívið betri, en alls ekki fullkomin. Shocker er afleiðing þess að Craven gerði samning við nýtt kvikmyndafyrirtæki sem leyfði honum að gera tvær myndir með frjálsar hendur sem er náttúrulega það sem allir leikstjórar vilja. Hvort það var þetta frelsi Cravens sem drap Shocker er óvíst, en hér er á ferðinni frekar aum mynd, troðfull af góðum hugmyndum sem eru margar hverjar hrikalega illa framkvæmdar.
Peter Berg, áður en hann varð frægur í ER, leikur ruðningsstjörnuna Jonathan sem verður fyrir því óláni að stjúpmóðir hans og stjúpsystkini eru myrt á hrottalegan hátt af fjölskyldumorðingja sem gengur berserksgang. Það sem flækir málið er það að Jonathan dreymdi atburðinn á sama tíma og hann gerðist og er sá eini sem veit hvernig morðinginn, Horace Pinker (Mitch Pileggi), lítur út. Hann nær að sannfæra föður sinn um sannvægi draumsins og að lokum næst Pinker og er hann drepinn í rafmagnsstólnum, þó ekki áður en hann nær að hóta öllu illu eftir dauða sinn.
Eftir þennan ágætis byrjunarhluta myndarinnar hrapar hún niður úr ofarlegu-meðallaginu og niður í lægstu lægðir. Endirinn er til dæmis með því hallærislegasta sem ég hef séð í alvarlegri hryllingsmynd. Eins og með flestar misheppnaðar hryllingsmyndir, þá liggur gallinn í Shocker í því að hún er full góðum hugmyndum sem eru einfaldlega viðvaningslega framkvæmdar, sem gerir það að verkum að myndin veldur því mun meiri vonbrigðum. Við þetta bætist frekar slappur leikur frá flestum leikurunum (Berg er gjörsamlega vonlaus og Michael Murphy – sem lék borgarstjórann í Batman Returns – er áttavilltur á svip út alla myndina).
Craven sjálfur viðurkennir í dag marga galla myndarinnar og einnig hvernig auðveldlega hægt er að bera hana saman við A Nightmare on Elm Street, sem er með betri myndum hans. Hér sjáum við súrrealísk draumaatriði, brenndan morðingja sem er allt að því ódrepandi, foreldra sem hlusta ekki á börnin sín og leyna einhverjum mikilvægum sannleika o.s.frv., o.s.frv. Munurinn á þessari mynd og Nightmare er hinsvegar sá að í Shocker er handritið mikið slappara og Craven nær aldrei að skapa virkilega óhugnalegt andrúmsloft. Og persónurnar eru hver annarri heimskulegri og algjörlega úr takt við sjálfar sig.
Þrátt fyrir þessa margvíslegu galla er ýmislegt ágætt að finna í Shocker. Craven kreystir úr handritinu alla þá spennu sem hann getur, sérstaklega í fyrri hlutanum áður en myndin leysist upp í vitleysu, og útlitslega séð er myndin vel gerð. Atriðin með “fyrrum” kærustu Jonathans (Cami Cooper) eru mörg mjög flott, og draumarnir eru óþægilega súrrealískir eins og Craven er einum lagið. Svo er myndin líka hæfilega blóðug sem er alltaf gaman.
Ég get samt sem áður ómögulega mælt með Shocker. Hún var einfaldlega illa skrifuð og vitlaus. Peter Berg er ömurlegur í aðalhlutverkinu og Craven virðist hafa átt í einhverjum erfiðleikum með allt kreatívska frelsið, þó svo honum hafi gengið mun betur síðar meir. Þeir sem hafa áhuga á að sjá þessa mynd ættu því að nálgast hana með miklum vara.