IN DREAMS (1999)
Leikstjóri: Neil Jordan.
Aðalhlutverk: Annette Bening, Robert Downey Jr., Aidan Quinn, Stephen Rea, Paul Guilfoyle.
Draumar hafa alltaf þótt áhugaverð umfjöllunarefni kvikmyndagerðarmanna og þá sérstaklega þeirra sem gera hryllings-og spennumyndir. Hitchcock notaði súrrealísk draumaatriði í bæði Spellbound og Vertigo, Wes Craven gerði A Nightmare on Elm Street að einni eftirminnilegustu unglingahrollvekjum níunda áratugarins með því að bæta draumum inn í formúluna, og lengi mætti áfram telja. Neil Jordan reyndi fyrst við drauma og draumalógík í The Company of Wolves, frábærri, draumkenndri hrollvekju sem bjó til nýja sögu í kringum Rauðhettu-ævintýrið. Það var þó ekki fyrr en 1999 sem hann gaf sig algjörlega draumunum á vald og þá í myndinni In Dreams.
Annette Bening leikur Claire Cooper, konu sem heldur að hún sé skyggn. Hana dreymir um litlar stelpur umkringdar eplum og hún er fullviss um það að draumarnir tengist barnamorðingja sem hefur rænt nokkrum stúlkum í nágrenninu. Lögreglan tekur hana ekki alvarlega og eiginmaður hennar efar hana, svo þegar dóttur Claire sjálfrar er rænt þá þarf hún að átta sig á draumum sínum ein og óstudd. Allt þetta gerist mjög snemma í myndinni og tekur hún nokkrar u-beygjur áður en að leiðarlokum er komið.
Margir gagnrýnendur skrifuðu harðyrt um In Dreams og kvörtuðu flestir yfir því hversu vitlaus og ótrúleg myndin væri. Og þeir hafa rétt fyrir sér, að vissu marki. Hún er ótrúleg, en að kalla hana vitlausa er rangt. Málið er að Jordan hefur hér gert súrrealíska mynd þar sem maður veit aldrei hvoru megin meðvitundarinnar maður er. Myndin gæti þess vegna öll verið draumur – Jordan og kvikmyndatökumaður hans, snillingurinn Darius Khondji, taka upp öll atriði á mjög stílíseraðan hátt og einnig eru klippingar og tónlist ólíkt því sem við eigum að venjast í flestum myndum. Jordan klippir úr “raunveruleikanum” yfir í “drauma” án þess að vara okkur við, og í raun og veru eru flest “raunveruleikaatriðin” furðuleg og alveg jafn súrrealísk og draumaatriðin (horfið t.d. á atriðið þar sem Claire uppgötvar að dóttir hennar er týnd).
Annette Bening fékk ekki verðskuldaða athygli fyrir frammistöðu sína í þessari mynd. Hér leikur hún sérvitra konu sem hægt og rólega sekkur í geðsýki og þarf Bening að ganga í gegnum allan tilfinningaskalann og hún gerir það frábærlega vel. Oft á tíð vaðrar frammistaða hennar við ofleik, en hún fer þó aldrei yfir þann þröskuld og nær að halda samúð áhorfenda frá byrjun til enda. Aidan Quinn er afskaplega litlaus en kemur sínu til skila og Robert Downey Jr., í hlutverki sem á engan veginn við hann, “hams it up” eins og kaninn myndi segja það. Ég held að flestir eigi eftir að flokka frammistöðu Downeys í þessari mynd sem gríðarlegan ofleik, en sjálfum finnst mér hann bara standa sig ágætlega.
Að setja In Dreams í einhvern einn flokk er erfitt. Hún er hrollvekja að því leyti að hún er mjög drungaleg og oft á tíð ógnvekjandi, en hún er líka byggð upp sem dularfull sakamálamynd og er hálfgerð mystería. Sem slík virkar hún ekki alveg, og ég býst við því að flestum eigi eftir að finnast eins og eitthvað vantaði eftir fyrsta áhorf, en þeir sem hafa áhuga á að reyna aftur við In Dreams eiga eftir að komast að því að hér er á ferð mun flóknari og djúpari mynd en flestir héldu. Svo mæli ég líka með því að fólk hlusti vel á tónlistina sem Elliot Goldenthal samdi fyrir myndina. Goldenthal og Jordan unnu áður saman að Interview with the Vampire og Michael Collins (og fékk Goldenthal óskarsverðlaunatilnefningar fyrir báðar myndirnar), og er tónlist hans í In Dreams engu síðri.
Ég mæli semsagt með In Dreams fyrir þá sem hafa gaman af “öðruvísi” myndum sem krefjast ekki aðeins að fylgst sé með þeim allan tímann, heldur líka að hugsað sé um þær eftir að hún er búin. Hún á líklegast eftir að fæla í burtu fleiri en hún laðar að sér, en hvaða cultmynd gerði það ekki á sínum tíma?
* * * * (af 5)