TENEBRAE (1982)
Leikstjóri: Dario Argento
Aðalhlutverk: Anthony Franciosa, Daria Nicolodi, Veronica Lario, John Saxon, Eva Robins, Ania Pieroni, John Steiner.
Þegar Dario Argento gaf út Tenebrae árið 1982 var hann orðinn einn af vinsælustu leikstjórum Ítalíu og án efa virtastur landa hans sem unnu í hryllingsmyndabransanum. Með klassískar myndir eins og L’Uccello dalle Piume di Cristallo, Profondo Rosso og Suspiria að baki (allar hrikalega vinsælar í heimalandinu) var Argento á grænni grein og þurfti ekki að hafa áhyggjur af neinu. Þetta sést greinilega á Tenebrae sem, eftir hina flóknu og nær-óskiljanlegu Inferno, er svo einföld í uppbyggingu að þrefaldi endirinn kemur manni ennþá á óvart, jafnvel eftir nokkur áhorf.
Myndin segir frá vinsælum amerískum rithöfundi, Peter Neal (Franciosa), sem kemur til Ítalíu að kynna nýjustu bók sína, Tenebrae. Á sama tíma og hann stígur út úr flugvélinni er ung kona myrt hrottalega þar sem m.a. síðum úr Tenebrae er troðið í kok hennar. Morðinginn hringir í Peter skömmu síðar og hótar honum öllu illu. Inn í allt þetta blandast dularfullur draumur, fyrrverandi eiginkona Peters, núverandi aðstoðarkona hans, umboðsmaður hans, bókagagnrýnandi og tvær löggur, auk fjölda annarra aukapersóna sem láta lífið á glæsilegan máta eins og Argento er einum lagið. Við fyrstu sýn virðist Tenebrae vera sápuópera með glæpaívafi, og hún er það svo sannarlega. Svik á svik ofan eiga sér stað, en allt gerist þetta tiltölulega átakalaust og eðlilega fyrir sig svo áhorfandinn þarf aldrei virkilega að pæla í neinu. Þessi uppsetning Argentos er meistaraverk út af fyrir sig því að í lokin dembir hann yfir okkur heilum helling af óvæntum endum, hver öðrum ýktari og óvæntari.
Fyrir mér er Tenebrae á sama stað í ferilsskrá Argentos og Cape Fear hjá Martin Scorsese. Báðar eru þessar myndir tiltölulega einfaldar miðað við fyrri verk leikstjóranna, og kannski örlítið síðri, en alls ekki minna kraftmiklar og uppátækjafullar. Argento troðfyllir Tenebrae af ótrúlegum atriðum og leyfir myndavélinni að leika lausum hala (t.d. má nefna eitt kranaskot sem fer upp og yfir heilt hús í einni töku). Tenebrae er einnig án efa blóðugasta mynd hans til þessa og innhélt örugglega blóðugustu endalok allra tíma áður en Peter Jackson datt í hug að nota sláttuvél fyrir Braindead.
Ef þið þekkjið ekki til Argentos, þá er Tenebrae ágætis byrjun og mun aðgengilegri en frægari myndir hans eins og t.d. Suspiria. Þess má einnig geta að í janúar mun í fyrsta skiptið koma út á DVD algjörlega óklippt útgáfa myndarinnar í Bretlandi, þar sem m.a. hið margrómaða aflimunaratriði kemur fram í allri sinni blóðugu dýrð. Argento er einn af fáum sem getur skapað ljóðræna fegurð út úr blóðgusu á hvítum vegg …
* * * * ½ (af 5)