Síðan Richard Harris dó fyrir um hálfum mánuði hafa margir orðrómar verið í gangi í Hollywood um hver muni leika prófessor Dumbledore í þeim fimm Harry Potter myndum sem eftir á að gera. Lengi var talið að Harry Robinson mundi fá hlutverkið en hann var staðgengill fyrir Harris í fyrstu tveimur Harry Potter myndunum. Harry getur víst hermt nákvæmlega eftir hreyfingum og rödd Harrisar og einnig er hann mjög líkur honum. Talið var samt að WarnerBros vildi hafa þekktara nafn og var þá hafið samband við Christopher Lee (Lord of the Rings) sem neitaði strax. Núna er komið á hreint að breski leikarinn Ian McKellen, sem er einna frægastur núna fyrir leik sinn sem Gandalfur í Lord of the Rings myndunum, hefur verið boðið hlutverkið og segja sumir að hann hafi nú þegar skrifað undir að leika í þriðju myndinni “Harry Potter and the Prisoner of Azkaban” en tökur á henni hefjast snemma á næsta ári.
Einnig má nefna að J.K. Rowling, höfundur Harry Potter bókanna, hefur gefið frá sér þá yfirlýsingu að fimmta bókin, “Harry Potter and the Order of the Phoenix” er tilbúin og ætti að koma út innan fimm mánaða.
“Harry Potter and the Chamber of Secret” verður frumsýnd í Sambíóunum 22. nóvember.