Ég var búinn að bíða eftir þessari í meira en hálft ár og var ákveðinn í að sjá hana sem fyrst. Ég sá hana á frumsýningardaginn og varð eiginlega ekki fyrir vonbrigðum, ég þekkti leikstjórann og vissi alveg að þetta yrði alls ekki normal mynd. Hún er sýnd í Sambíóunum sem meikar alls engan sens því þetta er minnst Sambíó-legasta mynd sem þú finnur, ótextuð og ekkert hlé.
En ég er ekki að vara fólk við því að þetta sé hæg, léleg eða allt allt öðruvísi mynd. Ef að trailerinn fangaði þína athygli þá munt þú örugglega fíla þessa mynd, ég vill bara benda fólki á að hafa engar væntingar, gjörsamlega engar. Farið á þessa mynd tilbúin að drekka inn í ykkur allt sem hún hefur uppá að bjóða og ekki vera gagnrýnin á neitt. Þannig er best að upplifa þessa mynd, maður þarf í raun og veru að vera andlega tilbúinn.
Það má líkja þessari mynd við að fara til útlanda með hópi fólks og fara beint á listasafn strax og óplanað. Meirihlutinn af hópnum hugsar bara “boring, förum í tívolíið” en þeir sem virkilega kunna að meta listina fíla sig alveg í botn. Þess vegna er best að fara á þessa mynd í sem fámennustum sal, það er samt varla hægt að kalla þetta mynd, þetta er í raun og veru listaverk.