Varla þarf að kynna fólki fyrir endurgerðaæðinu sem á sér nú stað í Hollywood. Til dæmis hafa King Kong, Halloween, Friday the 13th, Wicker Man, Casino Royale verið endurgerðar með misgóðum árangri og fleiri endurgerðir eru núna í framleiðslu. Kvikmyndafyrirtækin eru því byrjuð að horfa á frægar bíómyndir sem þeir eiga og velta fyrir sér hvort möguleiki sé á að endurgera kvikmyndina. Líklega eigum við því eftir að fá fjölmargar endurgerðir í viðbót á næstu árum.
Margar þessara endurgerða eru víst umdeildar af kvikmyndaunnendum þar sem þær misheppnast oftar en ekki. Þessar kvikmyndir eru þó náttúrulega mjög ólíkar. Til dæmis var kvikmyndin Wicker Man með Nicholas Cage talin vera svo léleg að hún hefur öðlast óvænta frægð á internetinu, á meðan kvikmyndin Casino Royale með Daniel Craig er af mörgum talin hafa toppað forvera sinn og blásið nýju lífi í James Bond.
Persónulega finnst mér góð hugmynd að endurgera bíómyndir í sumum tilvikum, með því skilyrði að kvikmyndagerðarmennirnir telji sig geta betrumbætt forverann. Því finnst mér yfirleitt betri hugmynd að endurgera gallakennda bíómynd með frábæru handriti, frekar en að endurgera eitthvað meistaraverk sem allir hafa skoðun á. Enda verða þær yfirleitt aðeins eftirbátar fyrri myndarinnar.
Hvaða skoðun hafið þið annars á endurgerðum? Hvaða bíómynd mynduð þið vilja að yrði endurgerð og hvaða bíómynd finnst ykkur að mætti ekki undir neinum kringumstæðum endurgera?