Nexus forsýnir stórmyndina Watchmen, föstudaginn 6. mars kl. 22:50 í Kringlubíói. Miðasala hefst á morgun, miðvikudag kl. 12:00, einungis í Nexus. Selt er í númeruð sæti.
Watchmen er í leikstjórn Zack Snyder, leikstjóra 300 og Dawn of the Dead endurgerðarinnar en í aðalhlutverkum eru Jeffrey Dean Morgan sem The Comedian, Matthew Goode sem Ozymandias, Jackie Earle Haley sem Rorschach, Patrick Wilson sem Nite Owl, Malin Akerman sem Silk Spectre og Dr. Manhattan er leikinn af Billy Crudup.
Watchmen er byggð á samnefndri tólf binda ofurhetju-myndasögu DC Comics frá 1986-87 eftir Alan Moore (V for Vendetta, From Hell) og teiknuð af Dave Gibbons. Hún er talin ein besta myndasaga sem gerð hefur verið og er sú eina af þessu listformi sem hefur unnið vísindaskáldsöguverðlaunin Hugo Award sem og að vera á lista Time Magazine frá 2005 yfir 100 bestu enskumælandi skáldsögur síðan 1923.
Watchmen er einnig ein fyrsta ofurhetju-myndasagan til að kynna sig sem „alvöru“ ritverk. Sagan gerist árið 1985 í annarskonar Bandaríkjum, sem er á barmi kjarnorkustyrjaldar við Sovétríkin og ofurhetjur hafa verið gerðar útlægar. Aðalpersónan er grímuklædda hetjan Rorschach og segir sagan frá rannsókn hans á dauða annarrar hetju, The Comedian, sem mun leiða hann til samsæra innan ríkisstjórnarinnar. Aðrar hetjur skerast svo inn í leikinn, þótt aðeins ein hafi raunverulega ofurkrafta.
Nexus forsýning á Watchmen fer fram föstudaginn 6. mars kl. 22:50 í Kringlubíói. Miðaverð 1.700 kr (1200 kr. fyrir neðstu 3 sætaraðir í salnum). Miðasala hefst á morgun, miðvikudag kl. 12:00.